Skessuhorn


Skessuhorn - 16.07.2014, Blaðsíða 10

Skessuhorn - 16.07.2014, Blaðsíða 10
10 MIÐVIKUDAGUR 16. JÚLÍ 2014 Þórdís Mjöll Reynisdóttir er fædd og uppalin í Borgarnesi og sleit þar barnsskónum. Rúman helming æv- innar bjó hún í Norðurárdal, eign- aðist fyrsta barnið aðeins 18 ára en samtals urðu þau þrjú. Þórdís Mjöll stóð fyrir stóru heimili í sveit þar sem mikið var unnið heima, bæði matur og bakstur. Snéri svo algjör- lega við blaðinu og er farsæll strætó- bílstjóri í dag. Sest var niður með Þórdísi Mjöll um daginn og m.a. rætt um einelti, starf bílstjórans og sálartetrið. Breytt um stefnu Síðan í maí á síðasta ári hefur Þór- dís Mjöll Reynisdóttir ekið hjá Hóp- bílum sem eru undirverktakar hjá Strætó bs. En ýmislegt hafði á dag- ana drifið áður en að því kom. Hún byrjar frásögnina uppi í Norðurár- dal í Borgarfirði og árið er 2001. Þá hætti Þórdís Mjöll að búa og flutti vestur í Stykkishólm. Það var kom- inn tími til að breyta til. „Ég hafði búið í Norðurárdal í ríflega 21 ár og nú var kominn tíminn til að hætta búskap og fara að gera eitthvað allt annað. Úr varð að ég flutti í Stykk- ishólm og vann þar á dvalarheim- ili og síðan í íþróttamiðstöðinni á staðnum. Þessir tveir vinnustaðir eru með þeim betri sem ég hef unnið á. Fólkið var yndislegt og gott að vera í samvistum við það. Þetta var góður staður til að hefja nýtt líf.“ Meiraprófið tekið og farið í meðferð Árið 2003 ákveður hún að taka meiraprófið og þá allt sem var í boði; vörubíl, rútu, leigubíl og allt sam- an. Hún segir að lengi hafi blundað í sér að drífa sig en ekkert orðið af því fyrr en þarna. „Ég flutti svo í Borg- arnes árið 2004 og fór að vinna þar en árið 2005 fór ég í áfengismeðferð, tók allan pakkann. Ég þurfti þess með og það gerði mér gott. En eftir meðferðina var ég bara atvinnulaus, nokkuð sem ég hafði ekki oft upp- lifað því ég hef þá skoðun að flest- ir geti fengið vinnu sem vilja vinna. En þarna stóð ég sem sagt uppi án atvinnu. Dóttir mín hafði verið að suða í mér að sækja um ráðskon- ustarf í vinnubúðum fyrir ofan Borg- arnes. Ég hafði einhvern veginn ekki haft burði í mér til að hringja og at- huga málið, það var bara svo mikið kjarkleysi í gangi. Einn daginn þeg- ar við hittumst ítrekaði hún þetta og áður en ég gat gert eitthvað í mál- inu, hringdi verkstjórinn í mig og bauð mér vinnuna, sem ég þáði. Ég veit hins vegar ekkert hvernig graut- armella ég var. Það er annað mál,“ segir Þórdís Mjöll og hlær. Einelti er ljótur leikur „Mér hefur aldrei þótt gaman að hanga með hendur í vösum og gera ekki neitt. Í ráðskonustarfinu var ég ekki upptekin allan daginn svo ég fór að keyra olíubílinn á milli mála, eins og sagt er. Þar fékk ég dýrmæta reynslu við að keyra og nýta meira- prófið. En bakgrunnurinn var auð- vitað frá því ég var bóndi. Ég hafði oft keyrt dráttarvél, með vögnum og án. Bakkað og snúið við, allt þetta sem gera þurfti. Það er hins vegar ekki alltaf gott að koma inn í mikið karlaveldi, það hef ég reynt. Húm- orinn og orðbragðið er oft með ólík- indum. En í svona umhverfi brynj- ar maður sig og notar á sér kjaft- inn. Ég lenti þarna í verkstjóra sem lagði mig í eineldi og enginn virtist vera fær um að taka á því eða trúa því sem ég sagði. Ég var blórabögg- ull líklega fyrir kjaftháttinn. En síðar hafa aðilar komið og beðið mig af- sökunar á því að þeir hlustuðu ekki á báðar hliðar áður en þeir dæmdu. En einelti er ljótur leikur. Það vita þeir sem hafa lent í slíku og ég var algjörlega búin eftir þessa reynslu. Gat einfaldlega ekki meira. Ég los- aði mig því út úr þessu og fékk vinnu við að keyra sementsbíl. Það var jafn dásamlegt og hitt hafði verið mikið helvíti. Það var stórkostlegur tími og góðir vinnufélagar. Að þeim grunni bý ég enn.“ Brotnaði saman Á meðan Þórdís Mjöll var í ráðskon- ustarfinu kynntist hún góðum vini. Þegar fyrirséð var að hún myndi ekki halda starfinu sem sementsbílstjóri árið 2008 þegar allt gerðist á Íslandi, fékk hún vinnu vestur á fjörðum hjá sama fyrirtæki og hún forðum eld- aði hjá. Þar keyrði hún gríðarlega mikið en mórallinn var enn sá sami. „Í hópnum voru sannarlega gull af mönnum innan um en það er meira en að segja það að vera kvenmað- ur í svona karlahópi. Það sem menn gátu leyft sér að segja og tala var með ólíkindum. Þótt ég sé öllu vön þá hefur svona samt áhrif og það fór svo að lokum að ég brotnaði saman af áreitinu, gat ekki meira. Þetta var harður skóli en upp úr stendur að ég á fáa en afar góða vini eftir þennan tíma.“ Þegar Þórdís Mjöll hafði jafn- að sig af þunglyndinu sem hrjáði hana fékk hún vinnu austur á fjörð- um og vann þar á meðan það verk- efnið var í gangi. Endaði austurdvöl- ina með því að vinna á dvalarheim- ili á Vopnafirði en prófaði síðan aftur að vera atvinnulaus þar til hún fór að keyra strætó í maí 2013. Aldrei ein á ferð „Ég get ekki dæmt sjálfa mig sem bíl- stjóra en held samt að ég sé þokka- lega góð,“ segir Þórdís Mjöll þeg- ar hún er spurð um það. „Reyndar voru það ummæli ýtumanns vest- an úr Djúpi sem hjálpuðu mér til að ná reisn minni aftur eftir hrakfarirn- ar fyrir vestan. Hann er sjálfur við- urkenndur sem gríðarlega góður og vandvirkur tækjamaður og sagði að ég væri góður bílstjóri. Það yljaði gríðarlega að heyra af þessu og ég held alveg reisn minni vegna þess- ara orða. Kannski einmitt þess vegna lagði ég í að sækja um hjá Hópbíl- um sem hefur verið farsælt fram að þessu. Og ég hef sannarlega feng- ið hjálp, skal ég segja þér. Ég keyri ýmist svokallaða stubba sem eru þá á milli Reykjavíkur og Borgarness eða norður á Akureyri. Þetta skiptist yfir- leitt á. Veður voru oft válynd í vetur og færð breyttist afar skjótt. Þegar á reyndi út af færð eða veðri þá varð ég alltaf vör við vindlalykt fyrir aftan mig í bílnum. Og ég veit alveg hver það er. Það er farinn atvinnubílstjóri úr Borgarnesi sem hjálpar mér. Ég er því aldrei ein á ferð, í orðsins fyllstu merkingu. Mér er sama hvað fólk segir um þetta, en það skaðar engan að trúa, á hvað sem hann trúir,“ segir Þórdís Mjöll alvörugefin. Var farin að stressast Eins og fram hefur komið var færð- in á milli Akureyrar og Reykjavík- ur oft leiðinleg síðasta vetur, sér- staklega yfir Öxnadalsheiði. Bíl- stjórar almenningsvagna bera mikla ábyrgð á því fólki sem þeir flytja. Þórdís Mjöll kannast alveg við þetta. „Á tímabili var ég far- in að stressast upp og það var far- ið að hafa áhrif á að ég gæti sofnað. Þá tók ég mig í gegn. Hætti að hafa áhyggjur af veðrinu sem slíku held- ur ákvað að taka hvern metra fyrir í einu, það sem kæmi undir dekk- in hverju sinni. Það breyttist margt við það. Í raun var eins og hula væri dregin frá augunum á mér. Maður á nefnilega ekkert að hugsa of mik- ið fram í tímann. Framtíðin kemur með sínu. Það er núið sem skipt- ir öllu máli og á alltaf við. Að vera með fullan bíl af fólki í vondri færð og örum veðrabreytingum, býður ekkert upp á einhverja hetjustæla. Við erum að flytja fólk og öll varúð skal viðhöfð.“ Konur eru ekkert verri bílstjórar „Ef þú ætlar að gerast bílstjóri verð- ur þú að hafa það í þér,“ segir Þórdís Mjöll og heldur áfram. „Það geta allir lært að keyra bíl en svo er það þetta eitthvað sem ekki verður skýrt en skiptir gríðarlegu máli, ekki síst í erfiðum aðstæðum. Þú verður líka að hafa gaman af starfinu. Ánægju af mannlegum samskiptum og þjón- ustu. Annars gengur þetta ekki. Í þessu starfi eins og öllum öðrum á maður ekki að vinna við það sem manni leiðist, heldur leita annað.“ Þegar minnst er á hvort konur séu verri bílstjórar eða geti síður keyrt stóra bíla, svarar hún að það sé alls ekki svo. „Það er töluvert af kon- um í stéttinni nú orðið og við get- um þetta alveg eins vel. Kvenkyns flutningabílstjórar eru ekkert síðri heldur en karlkyns. Meira að segja er stundum sagt að þær taki síð- ur sénsa, en um það skal ég ekkert dæma hins vegar.“ Guð hefur oft verið góður „Af því þú ert að spyrja um þetta þá sé ég, horft til baka yfir síðasta vetur, að Guð hefur verið mér góður. Ég var eini bílstjórinn sem aldrei þurfti að gista fyrir norðan vegna færðar. Það var meira að segja verið að gant- ast með það að best væri að fara með mér því ég yrði aldrei veðurteppt. En við erum stoppuð af ef veður verða vond og vindur nær ákveðn- um styrkt. Einu sinni var ég kom- in í Borgarnes, á norðurleið, þegar mér var sagt að fara ekki lengra. En einu sinni fór ég líka yfir Öxnadals- heiðina þegar hefði átti að tilkynna mér að fara ekki. Þá breyttist veðrið svo hratt. Þegar ég var á Þelamörk var allt í lagi með veðrið, svoleiðis, en þegar ég var komin upp á heiði var þar allt of hvasst miðað við það sem Hópferðir nota sem viðmið. Ég var hins vegar ekki látin vita fyrr en ég kom niður í Norðurárdal í Skaga- firði. Það var nú fullseint,“ segir hún hlægjandi. „En ég viðurkenni alveg að yfir heiðina fór ég bara hægt.“ Kann illa að taka hóli Það er stór hópur fólks sem not- ar Strætó reglulega. Þórdís Mjöll er spurð að því hvort fastir viðskiptavin- ir verði vinir bílstjóranna. „Ég segi það nú ekki alveg, en þeir heilsa og þakka fyrir síðast. Svo hrósa manni margir og það er erfiðast. Allavega fyrir mig. Ég kann ekki að taka hóli en maður verður að læra. Auðvitað þykir mér sem öðrum vænt um þeg- ar einhver þakkar fyrir eða hrósar. Ég hef reyndar átt ótrúlegar sam- veru- og sögustundir í vagninum. Svo magnaðar í raun að mann set- ur hljóðan á eftir. Sannleikurinn er nefnilega yfirleitt mikið ótrúlegri en lygasögurnar. Svo oftast er spjallað og reynt að gantast svolítið. En einn og einn vagn er reyndar svo þungur að maður er alveg búinn þegar kom- ið er á áfangastað, því þá segir eng- inn neitt.“ Öll flóra mannlífsins „Veistu, í þessu starfi kynnist ég allri flóru mannlífsins og öllum persónu- leikum. Allar gerðir af fólki fær sér far með strætó. Oft eru heilu sauma- klúbbarnir sem koma saman, vinnu- félagar, skólakrakkar, venjulegir ferðamenn, fólk að skreppa og hitta ættingja, hjón og einstaklingar. Og þakklætið frá farþegunum eru bestu launin. Mér finnst í dag að ég valdi starfinu vel en ofmetnaður er nokkuð sem þarf að vara sig á og muna að við erum ekki fullkomin. Ég hef hugsað mér að halda þessu áfram ef almætt- ið leyfir. Þú spyrð hvort einhver hafi kvartað yfir því að kona væri við stýr- ið. Já, það hefur gerst. Eldri farþegar hafa sumir brugðist hálf ókvæða við að kona sé að keyra. En ef fólki hef- ur brugðið við það, þá hefur það alla jafnan komið og þakkað fyrir í lok ferðar. Það er notalegt. Og svo eru það blessuð börnin. Það kom einu sinni til mín barn og spurði: „Finnst þér gaman að keyra strætó?“ Svona spurningu fær kannski enginn nema frá barni. Og þau mega ekki gleym- ast og ég reyni að hlúa sérstaklega að þeim. Ég á marga vini í þeirra hópi, bæði farþega og ekki. Þau eru toppurinn á tilverunni,“ segir Þórdís Mjöll Reynisdóttir að endingu. bgk Jafnvíg á tertur og trailera Rætt við Þórdísi Mjöll Reynisdóttur strætóbílstjóra Hér fékk Þórdís í fyrsta sinn á ævinni að prófa hjólagröfu. Hér var hún að grafa við skógræktina í Grafarkoti. Þórdís Mjöll Reynisdóttir. „Veistu, í þessu starfi kynnist ég allri flóru mannlífsins og öllum persónuleikum. Allar gerðir af fólki fær sér far með strætó.“

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.