Skessuhorn


Skessuhorn - 30.07.2014, Blaðsíða 27

Skessuhorn - 30.07.2014, Blaðsíða 27
27MIÐVIKUDAGUR 30. JÚLÍ 2014 Hefur verið skipstjóri í hálfa öld og lauk ferlinum á Víkingi Árið 2005 varð Magnús Þorvalds- son skipstjóri á Víkingi. Hann hafði verið skipstjóri á Sunnubergi sem var í eigu Tanga á Vopnafirði en síðan HB Granda eftir sameiningu. „Við höfðum verið tveir skipstjór- arnir á Sunnuberginu en það stóð aldrei til að það yrði áfram. Þeg- ar Sveinn Ísaksson hætti svo skip- stjórn hér á Víkingi var mér boð- ið að taka við.“ Magnús hafði verið skipstjóri á mörgum nótaveiðiskip- um í gegnum tíðina og segir það hafa verið gott að koma um borð í Víking. „Þetta skip er gríðarlega gott og svo var það líka stærra en ég hafði þekkt sem skipstjóri. Ann- ars var Víkingur þá hættur að vera stóra skipið á miðunum eins og hann var alltaf áður því önnur, nýrri og stærri skip höfðu komið í flot- ann. Litlu bátunum hafði fækkað mikið og skipum á miðunum hafði líka fækkað. Á þessum tíma var því ekki þessi mikla traffík á miðunum sem gerði Víkingi og Sigurði erf- itt fyrir áður fyrr. Þetta gátu verið 50-60 skip á miðunum þegar mest var en núna síðustu árin þegar allt fer orðið í manneldisvinnslu þá eru oft ekki nema tíu skip á miðunum í einu.“ Mikill Austfirðingur í sér Magnús var skipstjóri á Víkingi í sjö ár en hætti endanlega eftir loðnu- vertíðina 2012. „Þá var ég kominn á aldur en venjan er að menn vinnu ekki lengur hjá HB Granda en til sjötugs. Svo var konan mín orð- in sjúklingur og ekkert annað að gera en koma sér í land.“ Magnús segist hafa byrjað 14 ára gamall að stunda sjóinn á trillum frá Stöðv- arfirði á sumrin. „Ég var svo þrjú sumur á trillunum þangað til ég fór á 70 tonna bát. Þá var ég ráðinn á Heimi frá Stöðvarfirði þegar hann kom nýsmíðaður til landsins haust- ið 1978.“ Árið 1960, þá 18 ára gam- all, fór Magnús í Stýrimannaskól- ann. „Ég var nú tæplega kominn með nægan sjómennskutíma. Ég tók próf beint inn í annan bekk og var því aðeins eitt ár í Stýrimanna- skólanum. Þetta var hægt fyrir þá sem höfðu góðan undirbúning en ég var gagnfræðingur frá Eiða- skóla. Það var gott að vera á Eiðum en þar var reynt að kenna manni mannasiði með misjöfnum árangri. Maður kynntist þarna fullt af góðu fólki, bæði af Austurlandi og víðar af landinu því margir komu í Eiða.“ Magnús er fæddur á Fáskrúðsfirði en tólf ára flutti hann með foreldr- um sínum, sem voru Stöðfirðing- ar, til Reykjavíkur. Hann hélt samt alltaf áfram að fara austur í sum- arfríum og var þar hjá ættingjum. „Ég mátti yfirleitt ekki vera að því bíða eftir prófskírteinunum áður en ég var farinn austur á vorin, enda svo mikill Austfirðingur í blóðinu og hef verið alla tíð.“ Varð skipstjóri 23 ára Magnús var í 17 ár sjómaður á Stöðvarfirði. Hann var orðinn skip- stjóri á Heimi 23 ára gamall. „Það komu þrír bátar með þessu nafni á Stöðvarfjörð og ég var á þeim öll- um. Síðast var það Norðursjávar- ævintýrið.“ Eigendur Heimis voru tveir vélstjórar og skipstjórinn sem hafði verið á undan Magnúsi. Þeir höfðu verið um borð í bátunum. Svo þegar síldveiðum í Norður- sjónum lauk og skuttogararnir fóru að koma til landsins voru eigend- ur komnir í land og búnir að stofna saltfiskverkun. „Uppsjávarveið- in hentaði þeim þá ekki lengur svo þeir hættu henni og lögðu útgerð- ina inn í togaraútgerð sem var að byrja á Stöðvarfirði. Fyrst Hvalbak sem var sameiginlega í eigu Stöð- firðinga og Breiðdælinga og síð- an Kambaröst. Mér var nú hent um borð í þennan togara í fyrstu. Það stóð bara yfir í um níu mánuði því togarasjómennskan átti ekki við mig. Þá ætlaði ég bara að finna mér eitthvað að gera í landi og hætta á sjó. Bergur Hallgrímsson á Fá- skrúðfirði hafði þá samband og ég fór sem skipstjóri um tíma á Guð- mund Kristin SU. Það var frekar erfiður tími en svo hringdi Egg- ert Gíslason í mig og sagðist vera að fara í land. Þeir höfðu verið tveir með Gísla Árna, hann og Sigurður Sigurðsson frá Húsavík. Þá auðvi- tað sleppti ég því ekki. Gísli Árni var gott skip og þar var ég í 20 ár á þessu skipi. Fyrstu átta árin hjá Eggert og svo seldi hann bátinn til Grindavíkur þar sem hann fékk nafnið Sunnuberg og þar var ég í átta ár. Aftur fylgdi ég með þeg- ar Sunnubergið var selt til Vopna- fjarðar. Ég lagði það fyrir konuna hvort ég ætti að fara með til Vopna- fjarðar og hún samþykkti það. Þetta var árið 1996.“ Kona Magnúsar var Katrín Hjartardóttir frá Knarrar- höfn í Hvammssveit í Dölum. Hún lést fyrir ári síðan. Hann býr nú einn í Reykjavík en segist hafa það fínt og vera pakkaður inn í bóm- ull hjá stjúpsyni, tengdadóttur og barnabörnum. Tveir skipstjórar á nýju Sunnubergi Magnús var skipstjóri á þessu sama Sunnubergi á Vopnafirði í þrjú ár en 1999 keyptu Vopnfirðingar stærri bát frá Noregi sem fékk líka nafnið Sunnuberg. „Þá kom Lár- us Grímsson sem skipstjóri á móti mér. Hann hafði áður verið á Júp- íter og var nýhættur þar en Tangi á Vopnafirði átti hlut í því skipi. Þetta gekk ágætlega hjá okkur og þarna var ég þangað til ég tók við Víkingi. Svo æxlaðist þetta svona að Tangi á Vopnafirði endaði hjá HB Granda.“ Sagan á undan var nokkuð löng og ströng því Tangi var settur á hluta- bréfamarkað og Eskja á Eskifirði eignaðist fyrirtækið að mestu. Það stóð þó ekki lengi og Vopnafjarð- arhreppur keypti Eskju út úr fyr- irtækinu af ótta við að missa allan kvótann úr sveitarfélaginu. Hrepp- urinn seldi síðan HB Granda og í kjölfarið hafa fylgt miklar endur- bætur á öllum vinnslustöðvum á Vopnafirði þar sem nú er aðal upp- sjávarfiskvinnslustöð HB Granda með öflugt frystihús og góða fiski- mjölsverksmiðju. Fjármálastjóri Tanga á þessum árum og síðar framkvæmdastjóri var Vilhjálmur Vilhjálmsson, sem nú er forstjóri HB Granda. Gott að trappa sig niður á Víkingi „Tíminn á Víkingi var ágætur fyr- ir gamlan karl til að trappa sig niður, tveir til þrír mánuðir á ári. Þetta var stutt úthald á hverri ver- tíð. Þetta var frábær endir á ferlin- um og listagott að vinna hjá þessu frábæra fyrirtæki og vera á þessu listaskipi sem hefur alltaf farið vel með mann,“ segir Magnús. „Verð- ið á uppsjávarfiskinum hafði líka hækkað svo mikið að þótt Víking- ur væri bara að fleyta rjómann af vertíðinni gaf það manni jafnmiklar eða meiri tekjur en að vera í hálfu skipstjórastarfi allt árið.“ Hvernig fannst svo Magnúsi að stýra Víkingi í hinstu höfn, þessu skipi sem hann kunni svo vel við og hældi á allan hátt? „Ég er auðvitað bara stýri- maður hérna. Gunnar vinur minn hringdi í mig og bað mig að koma með sér. Það er ekkert við því að segja að skila af sér skipinu. Þetta er bara gangur lífsins, skip ganga úr sér eins og annað. Ég hef bara gam- an að þessari ferð og ánægjulegt að fá að fylgja þessu skipi síðasta spöl- inn. Þar hefur verið gott að vera um borð og þetta skip er búið að skila sínu. Ég hef sloppið vel í gegnum sjómennskuna alla tíð og án áfalla, þetta hefur slampast. Fyrir þetta allt er ég þakklátur,“ segir þessi gamal- reyndi og farsæli skipstjóri. hb Magnús í skipstjórastólnum á Víkingi rétt ókominn til Danmerkur. Magnús Þorvaldsson setur inn lokstefnuna til Grenå. Gunnar Gunnarsson og Sigurður Villi Guðmundsson fylgjast með. Á stími yfir hafið á leið í lokahöfn. Magnús Þorvaldsson stýrimaður og Gunnar Gunnarsson skipstjóri. Víkingur bundinn við bryggju í síðasta sinn. Að þessu sinni utan á danskt flutningaskip í höfninni í Grenå. Pétur Baldvinsson háseti um borð í Víkingi en á móti endanum tekur Frank frá Bluewater, sem sá um móttöku skipsins ytra. Finnst skrítið að rífa systurskip síns gamla skips Akureyringurinn Stefán Einarsson hefur starfað hjá Fornæs í Grenå í ellefu ár. Hann segist að sjálfsögðu hafa leitað að starfi nálægt höfn- inni þegar hann kom til Danmerk- ur. „Þangað sækist maður alltaf. Ég hafði verið á sjó heima og því fannst mér líklegast að fá starf hér niður við höfn.“ Hjá Fornæs eru rifin fjölmörg skip en aðallega eru það flutninga- skip frá ýmsum löndum þótt eitt og eitt fiskiskip sé líka rifið. Stefán seg- ir það svolítið öðruvísi tilfinningu að vinna við niðurrif íslenskra skipa en annarra. „Ég vann til dæmis við að rífa togarann Víði frá Akureyri. Ég var á Akureyrinni sem er systurskip Víðis og mér fannst það voðalega skrítin tilfinning að rífa þetta skip. Sérstaklega fann ég til þess þegar ég sá myndir um borð af mörgum sem höfðu verið með mér á sjó og það var mjög leiðinlegt að sjá.“ Nýleg skip rifin vegna kvótamála Stefán segir að ef þeir sjái góð- ar myndir af skip- um, sem þeir rífi, um borð í þeim þá taki þeir þær til hand- argagns og hengi upp á kaffistofunni. „Það er nóg að gera í að rífa skip. Fiskiskipin koma mörg hver vegna þess að það er minni fiskur í sjónum víðast hvar og minni kvóti á hvert skip þannig að þau elstu er látin fara. Það eru líka til dæmi um að tiltölulega ný skip hafi verið rifin vegna kvótamála.“ Stef- án segir skip koma víða að til þeirra. „Þau eru víðs vegar úr heiminum en auðvitað er mest af þeim af Norð- urlöndunum, sem koma hingað og frá öðrum Evrópulöndum. Þetta eru mest fraktskip og svolítið af ferj- um líka. Svo kemur mikið af skipum sem hafa verið í þjónustu við olíu- borpallana en þykja ekki henta þar lengur. Þau koma frá Noregi og líka héðan frá Danmörku og Skotlandi,“ segir Akureyringurinn Stefán sem unir hag sínum vel í Danmörku. hb Stefán um borð í Víkingi. Málin rædd yfir nýbökuðu dönsku brauði með morgun- kaffinu um borð í Víkingi.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.