Skessuhorn


Skessuhorn - 13.08.2014, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 13.08.2014, Blaðsíða 16
16 MIÐVIKUDAGUR 13. ÁGÚST 2014 Guðjón Sveinbjörnsson verkamaður á Akranesi „Þetta var ferlegur tími þegar ég var rekinn úr vinnunni“ Guðjón Sveinbjörnsson fluttist til Akraness frá Norðurfirði á Strönd- um 28 ára gamall ásamt foreldrum sínum. Nokkur systkina hans höfðu áður flutt til Akraness. Þau eru sjö systkinin og fimm þeirra eru nú bú- sett á Akranesi. Guðjón fór strax að vinna í fiskvinnslu hjá Heima- skaga hf og var þar fyrstu árin en síðan lá leiðin til HB&Co þar sem hann starfaði næstu árin. Eftir það hefur hann farið á vertíðir og unn- ið við aðgerð og fleira í Grindavík en síðan starfað í sláturhúsum víða um land á haustin. Nú segist hann alveg hættur að vinna enda sé stutt í að hann fari á ellilífeyri. Hann verður 67 í mars á næsta ári. Var nærri sjónlaus fram á fullorðinsaldur Í æsku gekk Guðjón ekki alveg heill til skógar og var frekar seinþroska og á eftir jafnöldrum sínum. Sjón- depra og málhelti háðu honum mjög. Hann kláraði þó barnaskól- ann á Finnbogastöðum á Strönd- um og segist síðan hafa unnið við það sem til féll með föður sínum og fleirum. Ekki fór Guðjón mikið á sjó en þó alltaf á vorin á grásleppu- veiðar á þriggja tonna trillu sem fað- ir hans átti. „Síðan vann ég svo við það sem til féll í sveitastörfum og fiskinum. Ég var bara með 6% sjón þar til ég var 26 ára gamall að ég fór í aðgerð á augum sem tókst það vel að þegar ég var búinn að jafna mig eftir hana var ég kominn með 70% sjón.“ Guðjón segir sjóndepr- una meðal annars hafa orðið til þess að hann lærði aldrei á bíl. „Þegar ég var kominn með góða sjón hefði ég alveg getað keypt mér bíl því ég átti peninga en þá fannst mér betra að kaupa íbúð, sem ég gerði. Þessa íbúð hérna keypti ég 1984 og hef búið í henni síðan.“ Hann býr vel í snyrtilegri tveggja herbergja íbúð og segist kunna vel við sig þar enda búinn að búa í sömu íbúðinni í 30 ár. Guðjón hefur alltaf gengið til vinnu en farið í ferðalög í hópferð- um og með ættingjum og vinum. Hann segist líka nota strætó þegar hann fari til Reykjavíkur. Var rekinn úr vinnu eftir einelti Þegar Guðjón flutti á Akranes fór hann strax að vinna ýmis verka- mannastörf í fiski hjá Heimaskaga hf. Þar starfaði hann í fjögur ár en fór þá að vinna hjá HB&Co hf. „Ég var að vinna þar þangað til 1990 og það endaði illa skal ég segja þér. Ég var rekinn.“ Af hverju var hann rek- inn? „Það voru nokkrir vitleysingar að vinna þarna með mér. Þeir voru alltaf að djöflast í mér þessi strák- ar sem unnu með mér. Þeir stríddu mér, hrintu, börðu mig og lömdu. Ég lamdi eitthvað á móti þegar þeir létu sem verst og þá sögðu verk- stjórarnir að ég mætti það ekki. Ég mátti ekki verja hendur mínar, þetta var svo furðulegt. Þeir stóðu með strákunum og sögðu að þetta væri allt mér að kenna en ég hafði bara gert það sem ég átti að gera í vinnunni. Þetta var ekki út af því að ég ynni illa. Þeir vildu bara losna við mig, það held ég. Svo var ég bara rekinn. Ég talaði við Verka- lýðsfélag Akraness en það gerði ekki neitt. Þetta var alveg ferlegt. Ég var bara algjörlega búinn á því. Núna væri þetta kallað einelti á vinnu- stað en öllum fannst þetta í lagi þá. Ég var alveg miður mín eftir þetta og svaf ekki í margar nætur næstu vikuna. Ég píndi mig bara en ég hefði átt að hafa vit á því að vera hættur áður en ég var rekinn en gerði það samt ekki,“ segir Guð- jón, en það tekur á hjá honum að rifja þetta upp og hann kemst við þegar hann segir frá þessu. „Þetta var alveg ferlegur tími en svo varð ég bara að hrista þetta af mér og fór að vinna á vertíðum í nokkur ár suður með sjó.“ Vertíðir suður með sjó og í sláturhúsin Á Suðurnesjunum var Guðjón að vinna í Grindavík. Þar var hann nokkrar vertíðir hjá nokkrum fisk- vinnslufyrirtækjum. „Þar bjó ég í verbúð og var margar vertíð- ir. Byrjaði í janúar og var fram í maí. Ég vann í slægingu og öllu sem til féll. Á haustin fór ég að vinna í sláturhúsum. Fyrst hérna upp við Laxá en svo í sláturhúsinu á Hvammstanga. Síðan á Sauðár- króki og loks í sláturhúsinu á Sel- fossi. Þar vann ég ýmislegt, var oft í vömbunum og svo í gærunum. Þetta hefur verið ágætis vinna.“ Guðjón hefur farið að vinna í slát- urhúsum á hverju hausti síðustu árin og á síðasta hausti var hann að vinna í sláturhúsinu á Sauðárkróki. „Ég ætla nú ekki að fara oftar og er bara hættur að vinna. Ég fer að komast á ellilaun, verð 67 ára 20. mars á næsta ári.“ Var orðinn þreyttur á einangruninni Guðjón segir að það hafi verið allt í lagi að flytja frá Norðurfirði á Ströndum til Akraness. Hann hefði hvort eð er orðið einn eftir af fjöl- skyldunni ef hann hefði ekki flutt með foreldrum sínum. „Það var mikil einangrun þarna og ég var orðinn svolítið þreyttur á henni. Ekki síst öllum snjónum á veturna og veturnir voru langir. Það var mikil breyting að koma á Akranes, enginn vetur hér.“ Hann bjó heima hjá þeim gömlu í Grund á Vestur- götunni alveg þar til þau fóru á dvalarheimilið Höfða. „Þar voru þau þangað til þau dóu. Mamma dó á undan pabba en pabbi hafði aðeins unnið hjá Haferninum við að skera af netum og fleira. Hann var eitthvað að dunda svona, en hann var orðinn fullorðinn þegar við fluttum hingað.“ Hífir fyrir trillukarlana Nú þegar Guðjón er hættur að vinna er hann líka aðeins að dunda svona, eins og hann sagði um pabba sinn. Hann fer oft á bryggjuna al- gallaður þegar trillukarlarnir eru að koma að landi og hífir fyrir þá í land með löndunarkrananum. Þetta ger- ir hann bara sér til ánægju án þess að fá nokkuð fyrir. Aðspurður um þakklæti frá trillukörlunum seg- ir hann það misjafnt, sumir þakki honum oft og vel fyrir en aðrir taki þetta sem sjálfsögðum hlut. Oft- ar en ekki grípur hann líka slöng- una og spúlar bryggjuna ef honum finnst óþrifalegt þar. „Þeir kunna best að meta þetta þegar lágsjávað er og þeir einir um borð. Þá er svo hátt fyrir þá að príla upp á bryggj- una fyrir hverja hífingu.“ Hann seg- ist ganga mikið en þó sé það enginn ákveðinn rúntur sem hann fari. „Ég fer þó alltaf niður á bryggju, stund- um alveg niður á Breið og svo fer ég svona einhvern hring um bæ- inn. Svo fer ég stundum í ræktina í íþróttahúsinu.“ Með mikinn dansáhuga Guðjón er ánægður í íbúðinni sinni á Skarðsbrautinni. „Það er nýbúið að taka þetta allt í gegn. Þegar var verið að skipta um vatnslagnir hérna í blokkinni fór að leka hérna fyrir ofan mig og lak allt hérna nið- ur. Mér leist nú ekkert á þetta fyrst því allt parket var ónýtt og máln- ingin á veggjunum. Tryggingarnar borguðu svo allt. Það var lagt nýtt parket og allt málað. Svo var skil- rúm hérna í stofunni, sem ég lét fjarlægja og íbúðin er mikið betri síðan. Ég var þá bara heppinn eft- ir allt,“ segir hann og hlær sínum smitandi, einlæga hlátri. Hann á sér áhugamál og þar er dansinn fremst- ur. „Ég fer alltaf að dansa í Breið- firðingabúð í Reykjavík á veturna einu sinni í viku. Svo fer ég á all- ar harmonikkuhátíðirnar á sumrin úti um allt land. Þar er alltaf dansað og mér finnst sko gaman að dansa. Svo fer ég oft á einhverja viðburði hér á Akranesi, sérstaklega ef það er tónlist. Áður fyrr fór ég oft á böllin á Hótelinu. Ég fór í dansskóla hér á Akranesi til að læra almennilega að dansa. Dansinn og harmonikku- tónlist eru aðaláhugamálin mín.“ Hann segist ekki horfa á fótbolta og aldrei hafa haft gaman af honum. Hann segist ekki eiga tölvu. „Ég fór þó á tölvunámskeið en það var ekkert vit í því og mér leist ekkert á þetta. Ég á gott sjónvarp og er með nokkrar stöðvar. Einu sinni var ég búinn að taka mikið upp af efni úr sjónvarpinu á spólur en svo keypti ég mér tæki sem ég get fært allt af spólunum og yfir á DVD diska. Ég horfi oft á það,“ segir hann og sýnir stoltur diskasafnið sitt. „Svo keypti ég mér flakkara og lét setja allt yfir á hann svo ef þetta bilar fara mynd- irnar ekkert. Það eru svo margir bara með þetta í tölvunni sinni og svo hrinur hún og þá er allt týnt,“ segir hann og veit greinilega sitt- hvað um tæknina. Eftirminnileg ferð Sneriltromma í stofunni vekur at- hygli blaðamanns og Guðjón tekur smá sóló fyrir hann. Hann segist að- eins hafa lært á trommur í tónlistar- skólanum á Akranesi en eigi þó bara sneriltrommu og leiki sér á hana. Af öðrum áhugamálum nefnir Guðjón ferðalög. „Þegar ég var með fulla vinnu allt árið fór ég stundum með Ferðafélagi Íslands í ferðir og einni ferð gleymi ég aldrei. Þetta var al- deilis eftirminnileg ferð og ég verð að segja frá henni. Við fórum fyrst til Akureyrar og gistum þar. Fór- um svo um morguninn yfir í Fljót. Fórum þá yfir Lágheiðina. Ferðin er eftirminnileg af því að þá bjarg- aði ég hér um bil tveimur börn- um. Fyrst stoppuðum við neðan við bratta hlíð og þar var grasflöt fyr- ir neðan. Með í ferðinni var kona með fimm ár barn. Þarna fóru allir út að skoða sig um fyrir neðan. Ég fór svo fyrstur upp hlíðina aftur í átt að veginum. Þegar ég er kominn langleiðina upp er eins og einhver segi við mig að stoppa og líta við. Þá sé ég að barnið er að príla þarna upp bratta hlíðina á eftir mér. Svo ég hljóp aftur fyrir það og þá datt það bara á höndina á mér. Ég leiddi það svo upp. Þarna hefði það get- að dottið niður snarbratta hlíðina og slasast eða dáið. Í hitt skiptið var það átta ára snáði þegar við fórum út í Þórðarhöfða í Skagafirði. Þeg- ar allir voru komnir út ætlaði bíl- stjórinn á rútunni að færa bílinn til að leggja honum. Þá sá ég að strák- urinn fór fyrir bílinn og bílstjór- inn sá hann ekki. Ég var stutt frá og reif í öxlina á stráknum. Þannig gat ég kippt honum frá bílnum, ann- ars hefði hann orðið undir honum. Strákurinn var öskureiður fyrst en foreldrar hans þökkuðu mér mik- ið fyrir. Í ferðalokin tilkynnti far- arstjórinn að ég væri bjargvættur ferðarinnar og ég fékk mikið klapp. Þetta var ánægjulegt að geta bjarg- að þessum börnum, annars hefði ferðin ekki orðið ánægjuleg,“ sagði öðlingurinn Guðjón Sveinbjörns- son, sem alltaf hefur skilað sínu en kannski ekki alltaf fengið það sem hann hefur átt skilið frá samfé- laginu. hb Guðjón á þjóðhátíðardaginn 17. júní á Akratorgi. Ljósm. Guðmundur Bjarki Halldórsson. Á löndunarkrananum á bryggjunni á Akranesi. Ljósm. hb. Það er stutt í brosið. Ljósm. hb. Guðjón á sneriltrommu heima í stofu. Ljósm. hb.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.