Skessuhorn


Skessuhorn - 03.09.2014, Blaðsíða 31

Skessuhorn - 03.09.2014, Blaðsíða 31
31MIÐVIKUDAGUR 3. SEPTEMBER 2014 Hin þýska Svenja Neele Verena Auhage er mikið náttúrubarn og íþróttakona. Hún syndir í sjónum við strendur Íslands, fer í hestaferð­ ir upp á hálendið, hleypur maraþon og starfar meðal annars við að telja fugla víðsvegar um landið. Svenja er gift Ágústi S. Harðarsyni, Dala­ manni og býr með honum á Akra­ nesi ásamt tveimur hundum og ketti. Að auki eiga þau sextán hesta. Hann starfar sem leiðsögumaður hjá Íshestum og fer um landið til að veita ferðamönnum leiðsögn. Hún er fuglafræðingur hjá Náttúru­ fræðistofnun Íslands. Blaðamað­ ur heimsótti Svenju í hús Náttúru­ fræðistofnunar sem stendur í fal­ legu umhverfi í útjaðri Heiðmerk­ ur. Reið lengstu mögulegu leið yfir landið Svenja hefur haft nóg fyrir stafni í sumar. Hún er búin að ferðast víða um landið vegna vinnunnar, fara í langa hestaferð þvert yfir landið og hlaupa í Reykjavíkur maraþon­ inu strax þar á eftir. Þetta var fyrsta maraþonið sem Svenja hleypur. „Ég var búin að hugsa svolítið um það áður að hlaupa maraþon en hélt að ég gæti það ekki. Ég byrjaði að æfa um áramótin fyrir maraþonið. Ég vissi samt af hestaferðinni framund­ an og hélt að ég gæti ekki gert bæði. Dean Martin, knattspyrnumað­ ur og þjálfari, benti á að það væri allt í lagi að ég færi í þessa ferð rétt fyrir maraþonið sjálft, því það væri gott að hvíla aðeins fyrir maraþon­ ið,“ segir Svenja. Hestaferðin sem um ræðir var þriggja vikna ferð, þar sem Svenja fór ásamt fimm öðr­ um þvert yfir landið á hestum. „Við keyrðum hrossin á Font á Langa­ nesi og riðum svo ská yfir landið, líklega lengstu mögulegu leið sem hægt er að fara yfir landið,“ útskýrir Svenja. Hópurinn endaði á Reykja­ nestá en ferðin var alls 715 kíló­ metra löng. Svenja hefur ekki áður farið í svo langa hestaferð, mest verið á ferð í viku og segir það ekk­ ert í samlíkingu við þessa ferð. „Við vorum sex ríðandi og með í för voru einn kokkur og einn sem sá um trússið. Við skiptum um hest á u.þ.b. tíu kílómetra fresti og trúss­ inn útbjó stoppistöðvar fyrir okk­ ur. Á heildina litið vorum við hepp­ in með veður en fengum einn rign­ ingardag. Þá vorum við í Þistilfirði og bíllinn með trússkerrunni festist. Það þurfti traktor til að ná honum upp.“ Svenja segir þau hafa farið yfir nokkrar jökulár á leiðinni og að þau hafi einna helst kviðið því. Það reyndist þó óþarfi því þau komust vel yfir árnar. Svenja náði að hlaupa nokkrum sinnum í ferðinni, til að æfa fyrir maraþonið sem var fram­ undan. „Ég hljóp fimm sinnum á þessum þremur vikum. Ef það kom hvíldardagur eða dagur þar sem við vorum minna á baki. Ég var sem sagt að hlaupa á meðan hinir hvíldu sig,“ segir hún og hlær. Svaf undir berum himni Eftir að hestaferðinni löngu lauk var Svenja ekki alveg ákveðin hvort hún ætti að láta verða af því að taka þátt í maraþoninu, enda kom hún þreytt heim eftir ferðina. „En ég ákvað að láta slag standa og næstu tíu daga eftir hestaferðina notaði ég því í að sofa og hlaupa. Mara­ þonið sjálft gekk ótrúlega vel. Það var gaman allan tímann og veðrið hjálpaði mikið. Þetta var allt eins gott og hugsast getur. Ég vissi að fjórir tímar væru góður byrjenda­ tími en ég undirbjó mig undir að ná því ekki og hélt að ég yrði um fimm tíma að hlaupa.“ Hún segist ekk­ ert hafa hugsað um tímann á með­ an hún hljóp og því hafi það komið henni ánægjulega á óvart þegar hún sá að hún náði að hlaupa maraþon­ ið á fjórum tímum. Hún segir það næsta takmark að bæta tímann enn betur. Hún hefur gaman af bæði hlaupunum og hestamennskunni en hún stundar einnig sjósund, þó ekki yfir harðasta vetrartímann. „Ég bý alveg við Langasand og fer bara þar út. Mér finnst allt í lagi þótt sjór­ inn sé kaldur, mér hefur alltaf þótt gott að synda í sjónum,“ segir hún. Svenja hefur ekki einungis synt í sjónum við strendur Íslands. Hún hefur einnig notað tækifærið og skellt sér í sjóinn ef hún er á ferða­ lögum erlendis. 19 ára gömul fór hún ein í ferðalag um Noreg, á lít­ illi Nissan Micru. „Vinur minn ætl­ aði upphaflega að fara með mér í þessa ferð og við ætluðum að keyra frá Þýskalandi til Nordkapp, sem er nyrst í Noregi. En hann hafði ekki úthald í svona langa ferð og tók flug til baka í Osló. Ég fór því ein næst­ um því að Nordkapp, svaf ýmist úti eða í bílnum og baðaði mig oft í sjónum á morgnanna,“ segir hún. Bíllinn, Micran litla, fór víða. Hún fylgdi Svenju á endanum til Íslands og notaði hún bílinn einnig til ferðalaga hérlendis. „Ég fór meðal annars og plantaði trjám á Breiða­ bólsstað fyrir neðan Bröttubrekku og keyrði á honum utan vegar þar,“ segir Svenja. Eitt leiddi af öðru Svenja kemur upprunalega frá Hamborg. Hún kom fyrst til Ís­ lands fyrir rúmum þrettán árum, ætlaði að vera hér í hálft ár að temja hesta í Dölunum, á Hamraendum í Miðdal og Vatni í Haukadal. „Mig langaði að gera eitthvað skemmti­ legt eftir að ég lauk stúdentsprófinu. Vildi helst vinna úti með dýrum og frétti af svona starfi í gegnum stúd­ entamiðlun. Ég sótti því miður of seint um og fékk ekkert svar. Vin­ kona mömmu vann hjá lögfræðingi í Þýskalandi og dóttir hans bjó á Ís­ landi. Það æxlaðist svo þannig að ég kom hingað og hugsaði um hrossin á bænum.“ Henni líkaði starfið svo vel að hún framlengdi dvölinni. Svo kynntist hún manninum sínum og framlengdi aftur. „Einu og hálfu ári eftir að ég kom hingað fór ég svo í háskólann á Hvanneyri, þar sem ég lærði umhverfisskipulag. Eftir það langaði mig að læra meira nátt­ úrutengt og skráði mig í líffræði og jarðfræði við Háskóla Íslands og tók þar nokkra kúrsa. Með þann grunn fór ég í mastersnám í Eng­ landi og lærði vistfræði. Ég skrifaði lokaritgerðina um margæsir á Ís­ landi í samvinnu við kollega mína. Mér var í framhaldi boðið sumar­ starf hér á Náttúrufræðistofnun en hef unnið hér síðan.“ Telur fugla eftir heyrn Svenja segir vinnuna hjá Náttúru­ fræðistofnun skemmtilega og fjöl­ breytta en hún starfar meðal annars við að telja fugla úti í náttúrunni. „Við fylgdumst með margæsunum, litamerktum fuglana og fylgdumst svo með hópum og lásum á merkin. Þetta voru bæði litakóði og stafa­ kóði, þannig að maður er eiginlega að vinna með kennitölur fuglanna. Þetta tekur nokkrar vikur á vorin.“ Í júní telur Svenja mófugla. Þá er tilhugalífið í gangi og mesta virknin hjá fuglunum. „Við erum á ferðinni allan júnímánuð og fylgjum veðr­ inu. Við getum ekki talið ef það er mikill vindur eða rigning þannig að við fylgjum bara veðurspánni og förum þangað sem besta veðrið er. Við teljum fuglana og merkjum þá inn á blað og getum metið þéttleika út frá því. Maður stendur í fimm mínútur á hverjum punkti og tel­ ur aðallega eftir heyrn. Þá þarf ég að meta fjarlægðina frá mér í fugl­ inn. Svo gengur maður áfram um 300 metra og gerir það sama,“ seg­ ir hún. Byrjað var á þessari rann­ sóknarvinnu í hitteðfyrra og er hún unnin um allt land, á talninga­ svæðum sem eru valin af handahófi. „Þetta var gert í tengslum við IPA vinnu, við fengum styrk til að m.a. kortleggja dreifingu mófugla á Ís­ landi til að skilgreina verndarsvæði. Núna er styrkurinn að hverfa þar sem hann var fenginn í tengslum við umsóknarferlið í ESB. Við get­ um klárað að skilgreina verndar­ svæðin en mikilvæg langtímavökt­ un dettur út og það er mjög leitt,“ segir Svenja alvarleg í bragði. Fær heimþrá til Íslands Svenja hefur ferðast víða um land í starfi sínu og séð meirihluta Ís­ lands. Taugarnar liggja þó á Vest­ urlandi og segir hún Snæfellsnes­ ið vera eftirlætis stað sinn á land­ inu. „Það er svo mikil fjölbreytni þar, hægt að sjá svo margt áhuga­ vert á svo stuttum tíma. Djúpa­ lónssandur er í algjöru uppáhaldi.“ Hún ætlaði upphaflega að ferðast meira um heiminn en segist hafa orðið ástfangin af Íslandi og víð­ áttunni hér. „Ég hef mjög gaman af því að fara til Þýskalands í heim­ sókn en fæ heimþrá til Íslands. Þá sakna ég fjallanna og sjávarins, það er alveg sérstakt að geta séð bæði á sama tíma fyrir mér,“ útskýrir hún. Þau hjónin eiga sumarbústað und­ ir Hafnarfjalli og segir Svenja það vera besta stað í heimi. „Þegar það er gott veður og skjól af bústaðnum. Við keyptum okkur gamlan bústað og létum flytja hann þangað. Hann hefur reyndar lent í ýmsu. Þakið fauk til dæmis af honum í vondu veðri eitt sinn og svo í annað skipti ýtti vindhviða einni hlið inn. En við erum búin að styrkja hann núna.“ Þá fauk gámur nokkrum metrum frá bústaðnum, í sama veðri og þak­ ið fauk af. Hún segir að förin eft­ ir gáminn sjáist greinlega rétt við bústaðinn. „Ætli Pétur heitinn í Höfn hafi ekki sett olnbogann fyr­ ir og bægt gámnum frá, til að hann myndi ekki eyðileggja bústaðinn“ segir hún og hlær en bústaðurinn er á skika úr landi Hafnar. Hestamennskan lífsstíll Í dag er hestamennskan aðaláhuga­ mál hjónanna sem eiga sextán hross. Svenja segist ekki hafa verið alin upp við hestamennsku en báð­ ir langafar hennar voru þó mikl­ ir hestamenn. „Ég segi að þetta sé meðfætt, kemur með blóðinu. Ég var orðin hestasjúk áður en ég byrj­ aði að tala. Sex ára gömul var ég byrjuð í hestamennskunni og hef verið í henni síðan.“ Hún segir að hestamennskan sé lífsstíll. „Ég er ekki trúuð, þannig að fara út í haga og heilsa upp á hrossin ­ það er mín kirkja og gefur mér mikið.“ Hún bætir því við að það gæti vel farið svo að þau fari aftur í langa hesta­ ferð næsta sumar. „Það er spurning um að „x­a“ Ísland og fara næst frá Vestfjörðum til Hornafjarðar. En nú tekur smalamennskan við hjá mér og hrossunum, vel þjálfuðum eftir sumarið,“ segir Svenja Auhage að lokum. grþ Riðið yfir landið í góðu veðri. Frá vinstri: Ævar Ásgeirsson, Jörundur Jökulsson, Ágúst S. Harðarson og Svenja Auhage. Ljósm. Steinunn Guðbjörnsdóttir. Varð ástfangin af Íslandi Rætt við náttúrubarnið og fuglafræðinginn Svenju Auhage sem í sumar hljóp maraþon stuttu eftir þriggja vikna hestaferð þvert yfir landið Hestakonan Svenja Auhage. Ljósm. Steinunn Guðbjörnsdóttir. Á hestbaki í smalamennsku. Ljósm. Kristján E. Karlsson. Hress og kát í Reykjavíkurmaraþoninu í ágústmánuði síðastliðnum. Ljósm. úr einkasafni.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.