Skessuhorn


Skessuhorn - 24.09.2014, Blaðsíða 26

Skessuhorn - 24.09.2014, Blaðsíða 26
26 MIÐVIKUDAGUR 24. SEPTEMBER 2014 Roggnir og svásir en rámir og hásir - því það var svo þurrt að kalla Vísnahorn Ferðalög á sjó byggjast núorðið mest á ann- arri orku en vindi og vöðvum en allir ættu þó að vera óskemmdir af þessum leiðarvísum milli Akraness og Reykjavíkur og gæti jafnvel ýmislegt af þeim verið í fullu gildi enn: Kollafjörðinn miðjan má maður talinn vera Lágafell og Lundey þá lítur saman bera. Fjarðamótum einatt á er að vænta hviðu. Bragnar segja beri þá Borg í Vallárskriðu. Beri ekki bátinn fall brimils kviku jarðar múlinn undir Akrafjall er á miðju fjarðar. Þeir sem ekki þjáir stolt þurfa ei dýpra að slaga. Beri háls í Brautarholt brimleið fyrir Skaga. Það er nú svo í blessaðri pólitíkinni að nán- ast það eina sem allir eru sammála um er að allir hinir hafi rangt fyrir sér. Ekki veit ég með vissu hvort Bjarni frá Gröf orti eftirfarandi í orðastað stjórnmálamanns en frekar finnst mér það líklegt: Endalaust ég alltaf finn annarra sálir grunnar. Ég er sjálfur manni minn miðja tilverunnar. Margir eru þeir sem berjast í bökkum við að standa fjármálastofnunum skil á sínum verðtryggðu lánum og hafa ýmsar skoðanir á útreikningum þeirra sem og fjármálastofn- unum yfirleitt. Auðvitað er eðlilegt að menn borgi sínar skuldir en ef til vill ekki marg- faldar. Ég man líka fullvel þá tíma þegar all- ir græddu á að skulda en peningarnir brunnu upp í verðbólgunni ef þeir voru lagðir í banka. Eitthvert basl hefur þó trúlega verið á Hjálm- ari frá Hofi þegar hann kvað: Ennþá ber ég baggann minn brekkuna heim að leiði. Það er aumi áfanginn yfir Þrælaheiði. Hvernig sem fer nú um þann áfanga eða aðra þá þurfa flestir einhvern náttstað þangað til kemur að þeim síðasta. Um næturgistingu kunningja síns kvað Pétur Jónsson frá Stökk- um á Rauðasandi: Einn á kvisti Ari gisti, ekki tristur var. Hrund ei missti heldur kyssti hana lystugt þar. ,,Alltaf breytist ástand lýða, eyðikotum fölgar víða,“ sagði Lúðvík Kemp hér um árið og enn finnst mér óþarflega mikið af eyðibýl- um. Við eyðirúst kvað Hjálmar frá Hofi: Yfir nóttin færir frið, fegurð óttu þrotin, því er hljótt að hlusta við húsatóftarbrotin. Almennt hugsa bændur vel um heilbrigði bústofns síns enda eiga þeir allt sitt undir því að bústofninn sé hraustur og afurðagóð- ur. Þjónusta dýralækna hefur reyndar aukist mjög á undanförnum áratugum og þar með kostnaður sem ýmsum þykir alveg nógur þeg- ar á að borga, hvort sem dýralæknarnir eru nú eitthvað ofsælir af sínum hlut. Ég held að það hafi verið Sigmundur Jónsson á Vestara Hóli sem orti um sinn dýralækni: Á mér svínar óþokkinn, ekkert hag minn bætti. Ég dýralæknis djöfulinn, dræpi ef ég mætti. Þó fyrri hluti sumarsins hafi ekkert verið okkur of góður er svosem ekkert hægt að vera að kvarta undan haustinu, enda orti Magnús Halldórsson: Blasir við oss boðlegt haust, blíðuveður löngum. Því mun vera þrautalaust, að þvælast um í göngum. „Mér er alveg sama hverju hann spáir. Bara að veðrið verði gott,“ var haft eftir einum látnum vini mínum eitt sinn sem hann reið í leit og kom við á bæ og fékk sér kaffisopa örlítið bragðbættan. Veðurstofan er líka sí- fellt að spá einhverju og oftast góðu. Stund- um hljóðar spáin uppá „þurrt að kalla“ og um það veðurlag kvað Björn Ingólfsson: Bændurnir flykktust til fjalla og færðu heim sauðina alla, roggnir og svásir en rámir og hásir því það var svo þurrt að kalla. Sigurlín Hermannsdóttir bætti síðan við: Menn sóttu sitt fé upp til fjalla og fundu víst sauðina alla. Þreyttir og þurrir þrumuðu kjurrir en vættu svo kverkar að kalla. Það hefur löngum verið hentugra að sem gangnaforingjar séu valdir vaskir menn sem ganga ódeigir að hverju því verki sem þarfnast framkvæmdar og ljúki því rösklega með skjót- um og skilvirkum hætti. Eftirfarandi bragur mun vera eyfirskur að uppruna þó ekki þekki ég tilurð hans nánar: Frækinn maður til fjalla reið, fáknum lipra hleypti á skeið sem gangnaforingi lagði leið um Leirdalsheiði og Hnjúka Og göngunum þarf með glæsibrag að ljúka. Féð var til réttar rekið hratt, regnið í fossum niður datt, fáum var þá í geði glatt en gangnaforinginn kenndur hver viskýdropi var sem af himnum sendur. Dálítill kom á doði í hann datt hann í blund sem á hann rann í réttinni svefnstað reyndar fann en rollurnar á hann skitu. Þeir sáu það glöggt er sofandi manninn litu. Inni í réttinni hrýtur hátt, hóar stöðugt í norðurátt, munnurinn opinn upp á gátt, í honum klígja að vonum því rolluskíturinn rataði í munninn á honum. Í draumalandi hann drakk um stund dreypti á veig með ungi hrund allt í einu hrökk upp af blund. andann við það að missa, því rollubjálfi var rétt í þessu að pissa. Svona er þegar sofið er á svefnstað er fáir velja sér, margt gerist þar sem miður fer og mönnum verður að grandi því skepnurnar fylla allt af skít og hlandi. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Dag ur í lífi... Nafn: Haraldur Sigurðsson. Starfsheiti/fyrirtæki: Eldfjalla- fræðingur hjá Eldfjallasafninu í Stykkishólmi. Fjölskylduhagir/búseta: Ein- hleypur, bý í Stykkishólmi. Áhugamál: Náttúra, vísindi, saga, listir og stjórnmál. Vinnudagurinn: Mánudagur 22. september 2014. Mætt til vinnu og fyrstu verk: Klukkan 06 vaknaði ég og athug- aði strax vefsíðu Veðurstofu Ís- lands varðandi jarðskjálftavirkni undir Bárðarbungu og nágrenni. Einnig GPS mælingar á sigi öskju Bárðarbungu. Skoða helstu fréttir á mbl.is, New York Times og Gu- ardian. Athuga tölvupóstinn og svara sumum. Klukkan 10: Fundur með bæjar- stjóra og ritara Stykkishólmsbæj- ar um skipulagsmál varðandi söfn í Stykkishólmi. Klukkan 11: Opna Eldfjallasafn. Hringi í rafvirkjann til að fá gert við ljós í safninu. Hádegið: Gönguferð á Kothraun- skúlu og Berserkjahraun í Helga- fellssveit, í rigningu og hvassvirði en hressandi ganga, um einn og hálfur tími. Klukkan 13: Klára grein fyrir Iceland Review um óróann und- ir Bárðarbungu og gosið í Holu- hrauni. Sendi greinina inn til rit- stjórans. Skipulegg fund hjá Ferðafélagi Íslands í Reykjavík nk. fimmtudag, þar sem ég flyt mynd- skreytt erindi um Bárðarbungu og gosið í Holuhrauni. Klukkan 15: Vinn að grein fyr- ir Morgunblaðið um ferð mína til Scoresby Sunds á Grænlandi í lok ágúst mánaðar. Klukkan 17: Vinn við að skrifa blogg mitt fyrir daginn. Blogg- ið er vulkan.blog.is og ég reyni að senda inn nýtt efni á hverjum degi. Í þetta sinn fjallar bloggið um sig öskjunnar í Bárðarbungu. Hvenær hætt og það síðasta sem þú gerðir í vinnunni? Það er aldrei hætt í þessu starfi, sem er reyndar ekki starf heldur lífið sjálft. Fastir liðir alla daga? Lesa og svara tölvupósti, lesa helstu frétt- ir frá fjölmiðlum á netinu, fara í göngu. Helst á fjöll, ef veður leyf- ir, í tvo til þrjá tíma. Skrifa blogg, koma við í Eldfjallasafni til að at- huga stöðuna. Hvað stendur upp úr eftir vinnudaginn? Spennandi undir- búningur fyrir myndskreytt erindi í Reykjavík um Bárðarbungu og gosið sem nú stendur yfir. Var dagurinn hefðbundinn? Nokkurn veginn. Hvenær byrjaðir þú í þessu starfi? Árið 1963. Er þetta framtíðarstarfið þitt? Ég vona það. Hlakkar þú til að mæta í vinn­ una? Vissulega. Eitthvað að lokum? Nei. eldfjallafræðings Félag eldri borgara í Grundarfirði stóð nýlega fyrir heilmikilli sviða- veislu í samkomuhúsi bæjarins. Þar voru heit og köld svið, sviðalappir, kartöflumús og rófustappa á borð- um. Það fór því enginn svangur heim frá þessari veislu enda svign- uðu borðin undan kræsingunum hjá eldri borgurum. tfk/ Ljósm. sk. Sviðaveisla í Grundarfirði

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.