Skessuhorn


Skessuhorn - 29.10.2014, Blaðsíða 26

Skessuhorn - 29.10.2014, Blaðsíða 26
26 MIÐVIKUDAGUR 29. OKTÓBER 2014 Féll kylliflatur fyrir stórkostlegu landi og yndislegri þjóð Pálmi Pálmason segir frá margháttaðri reynslu og lífshlaupi meðal annars í Víetnam „Það er sama hvar frómur flæk- ist,“ er gamalt orðatiltæki. Sagt er að sá sem er vakandi fyrir umhverfi sínu taki alltaf eftir einhverju sem er þess virði að segja frá. Skaga- maðurinn Pálmi Pálmason hefur flækst víða og starfað á svæði sem Íslendingar þekkja almennt ekki mikið til. Það er Víetnam og Indó- nesía, en fyrrgreinda landið kemur næst Norður-Kóreu sem lokaðasta kommúnistaríkið í Asíu. Pálmi býr yfir margháttaðri starfsreynslu frá sinni ævi, þótt þekking hans á fisk- vinnslu og sjávarútvegi hafi nýst best síðustu árin. Þá þekkingu öðl- aðist hann í uppvextinum á Akra- nesi. Í Víetnam starfaði hann við fiskvinnslur í risastærð, miðað við vinnslurnar hjá HB og fleirum, sem hann vann við sem ungur maður á Skaganum. Pálmi var m.a. virkur í framkvæmdum á „gróðæristíman- um“ sem margir hafa kallað svo og var á Íslandi í aðdraganda hrunsins. Hann flutti nú í vor aftur á Akranes eftir að hafa verið í burtu í 30 ár. Blaðamaður Skessuhorns hitti hann að máli á dögunum. Pálmi segir hér frá lífsreynslu sinni í Asíu. Hann er reyndar að glíma við illvígan sjúk- dóm og kýs því sem mesta nálægð við Landspítalann í dag. Það varð aftur til þess í haust að ljúka hans Asíuævintýri. Pálmi er hins vegar enn að, í beinu Skype sambandi við fólk og starfsmenn í Vietnam marg- ar nætur, enda er sjö klukkustunda tímamismunur þar og hér heima. Tæknin þjappar veröldinni saman og eyðir landamærum. Úr markaðsstjórn í fjár­ festingabransann Þegar Pálmi er spurður hvað hafi orðið til þess að hann fór að starfa í Asíu, rekur hann það til þess að árið 2005 skipti hann um starfsvett- vang. „Ég var búinn að starfa í ára- tugi við markaðsstjórn hjá leiðandi fyrirtækjum í innflutningi, dreif- ingu og sölu. Lengst í áratugi hjá Íslensk-Ameríska og Globus. Árið 2005 skipti ég um starfsvettvang og fór að vinna með tengdum aðilum í fjárfestinga- og fasteignafyrirtæki. Stærsta verkefni okkar þar var öll hönnun og skipulag á Akrahverfinu í Garðabæ frá A til Ö. Byggðum þar fyrstu fjölbýlin og seldum síðan það verkefni með verktakasamningum og áhöfn sem þeim fylgdu. Hér á Akranesi vorum við með eitt lít- ið verkefni, létum teikna og hanna fjölbýlishúsið við Sólmundarhöfða. Fullklárað verkefnið seldum við til þekkts byggingaverktaka sumarið 2008 sem þegar hóf undirbúning að byggingu hússins. Þá voru fram- undan ýmis verkefni á höfuðborg- arsvæðinu, Selfossi, Borgarfirði og Árnessýslu. Við vorum rétt á milli stórra verkefna og ég við undirbún- ing nokkurra annarra, m.a. í Reykja- nesbæ, þegar hrunið varð haustið 2008. Allt botnfraus á einni nóttu í fasteigna- og byggingaiðnaðinum, fjárfestingafélögin héluðu.“ Allt að fara til andskotans Pálmi segir að þetta hafi verið svakalegur tími, hreint ótrúlegur. „Ég man enn þar sem ég sat með þekktum forstjóra á kaffihúsinu Segafredo á Lækjartorgi. Síminn hringdi, hann lauk stuttu símtalinu, horfði lengi í augu mér þegjandi og sagði svo: „Glitnir er fallinn, það er allt að fara til andskotans Pálmi.“ Hafði nú gengið á ýmsu hjá okkur áður í samskiptum við banka sem virtust stundum vera leppar manna úti í bæ við að þefa uppi góð verk- efni annarra og ná þeim til sín. Það var búið að vera sjúkt ástand og við þurftum að vera stöðugt með topp lögmenn á vaktinni fyrir okkar hagsmuni. Ekki var það nú frítt.“ Reynslan af Skaganum nýttist vel Árið eftir hrun hér heima fór Pálmi til Bandaríkjanna að setja sig inn í verkefni hjá Portunus Group á sviði fiskkaupa og vinnslu fisk- afurða frá Kína, Vietnam og Chile. Afurðir sem fóru síðan fullunn- ar inn á markaði í USA, S-Amer- íku, Evrópu og Ástralíu. „Ég hafði áður komið tvisvar til S-Ameríku að skoða fiskiðnað. Sjálfur hafði ég alist upp með slorinu á Skaga þar sem faðir minn var skipstjóri, síðar fiskverkandi og loks harðfiskverk- andi. Mín bernska var fléttuð við frystihúsin á Akranesi, HB & Co, Heimaskaga, Fiskiver og útgerð og vinnslu Þórðar Óskarssonar. Í þess- um vinnsluhúsum var unninn all- ur sjávarafli; bolfiskur, síld, slitinn humar, unninn hvalur, súrsað, reykt og soðið niður í niðursuðu HB & Co. Í tvö ár eftir viðskiptanám ók ég fiskflutningabíl þar sem sóttur var humar í Þorlákshöfn og bolfisk- ur og skel á allar hafnir á Snæfells- nesi fyrir Þórð Óskarsson hf. Við vorum tveir æskufélagar sem unn- um á sitt hvorum fiskflutningabíln- um, sváfum í sex tíma og af stað aft- ur. Þetta var tveggja ára törn. Það voru uppgripstímar, geðveik vinna. Við félagarnir byggðum okkur sam- an tvíbýlið að Hjarðarholti 9, mest fjármagnað fyrir þessa botnlausu vinnu og sölu lítilla íbúða sem við áttum fyrir. Svo kom tölvuskeyti einn daginn Veturinn 2009 til 2010 notaði Pálmi síðan til að auka við sína þekkingu og tók lögfræðikúrsa á Bifröst. „Það var frábær tími og mikil þekk- ing á skömmum tíma. Oft bölv- aði ég því að hafa ekki vitað þetta eða hitt fyrr. Þá hefði eitt og ann- að spilast betur í viðskiptunum sem voru að baki. Á sama tíma var sífellt verið að skoða tækifæri sem komu upp á borðin, sem sífellt strönd- uðu svo á frostinu í öllu fjármála- kerfinu. Snemma árs 2010 komu stutt e-mail frá USA: „Ertu til í að fara til Víetnam? Setja upp skrif- stofu fyrir Portunus, ráða og þjálfa mannskap og ef vel gengur að vera þar til lengri tíma, búa í Asíu og sjá um allt þar Asíu tengt?“ Ég sagðist þurfa að ráðfæra mig, mundi svara fljótt. Svaraði svo í kjölfarið með þrem orðum: „Klár, pantaðu far- seðlana.“ Hvað mig varðaði þá vissi ég flest allt um fisk, veiðar, vinnslu og meðferð sem á þurfti að halda frá fornu fari, enda hafði ég fylgst vel með allri þróun á því sviði. Ég hafði einnig borið ábyrgð á stórum sölu- og markaðsdeildum í ára- tugi og það myndi nýtast þarna vel, lögfræðikúrsarnir líka. Ég var alveg tilbúinn, enda allt í kalda kolum í miðju hruninu.“ Pálmi segir að þetta tækifæri hefði ekki getað komið á betri tíma, bæði fyrir sig og þá sem honum tengdust. „Ég flaug síðan til Hong Kong og hitti þar forstjóra Portunus sem kom frá Bandaríkjunum. Eftir nokkurra daga fundi með aðilum þar, var flog- ið til Víetnam og komið á HCMC alþjóðaflugvöllinn snemma dags. Hong Kong er gríðarlega nútímaleg borg og vel skipulögð, hef oft kom- ið þar síðan. Þannig að þessi fyrstu kynni mín af Asíu voru nútímaleg.“ Allt öðruvísi land Það voru algjörlega nýir hlutir sem blöstu við Pálma þegar hann kom til Asíu. „Víetnam var allt, allt öðruvísi. Þegar við ókum af flugvellinum á hótel í miðborg HCMC-Saigon var ég ein augu og eyru. Það sem fyrir augu bar hafði ég aldrei séð nema á myndum. Fáir bílar á ferli en þús- undir á þúsundir ofan af vegfarend- um á mótorhjólum og vespum fylltu göturnar. Mér fannst óhugsandi hvernig þessi umferð gæti gengið skipulega fyrir sig, sem hún gerði samt. Húsagerðin var fyrir mig afar sérstök og allt skipulag, hafandi arki- tektúr sem áhugamál og unnið við þessar greinar heima á Íslandi árum saman. Þarna er hver lóð verðmæt og byggt upp í loftið. Algengt er að einbýli sé byggt inni í borgunum á 150-200 fermetra lóð, lóðin nýtt sem byggingarreitur og byggt upp, þrjár til sex hæðir. Það er einnig algengt að fólk með rekstur sé með verslun eða þjónustu á jarðhæð og skrifstofu og íbúð fyrir fölskylduna á næstu hæðum fyrir ofan. Í HCMC-Saigon búa tíu milljónir manna, borgin er sú nútímalegasta í Víetnam. Víetnamar eru mjög vel menntuð þjóð, öflugt skólakerfi og mikill mannauður með æðri menntun. Komið í týpíska víetnamska borg Long Xuyen, 500.000 manna borg á Mekong Delta svæðinu, var síð- an áfangastaðurinn. Þar voru þær verksmiðjur sem Portunus var í samstarfi við. Til Long Xuyen er fimm stunda akstur suður frá HCMC-Saigon. Farið er yfir fljót- in á stórum ferjum sem ganga stans- laust allan sólarhringinn á mörgum stöðum. Long Xuyen hefur orðið til sem miðstöð hins stóra og frjósama An Giang héraðs. Borgin byggist á þjónustu og vinnslum fyrir land- búnaðarhéruðin allt í kring, fisk- eldi, fiskvinnslum og tengdum hrá- efnisvinnslum af öllum toga. Sam- fara margvíslegum iðnaði, verslun og þjónustu fyrir allar þessa fjöl- breyttu greinar, eru einnig marg- háttaðir flutningar um Mekong árnar allt upp til borga Cambodíu og Phnom Penh.“ Eini útlendingurinn Pálmi segir að lífið fyrir hann í Long Xuyen hafi verið afar sér- stakt. „Þetta er dæmigerð víet- nömsk borg þar sem erlendir ferða- menn hafa varla sést. Þess vegna er enginn ferðamannaiðnaður í gangi. Long Xuyen er höfuðborg An Gi- ang héraðs. Í þessari hálfrar millj- óna manna borg var því aðeins fyr- ir einn útlendingur sem var gæða- stjóri Portunus frá Chile. Vietnam- ar töldu hann svona næsta bæ við sig vegna litarháttar og stærðar, hann skar sig lítið úr, hvarf meira inn í þeirra mannlífsmyndir. Pálmi var því eini útlendingurinn að þeirra mati í borginni og var veitt mikil athygli af innfæddum. „Nú kom ég, hvítur, skeggjaður með frekar sítt grátt hár og var eins og endurskinsmerki um alla borg. Ég fór mest gangandi í byrjun á meðan ég var að bíða eftir að húsið sem ég hafði leigt væri tekið í gegn og ég fengi víetnamskt ökuskírteini auk eigin mótorhjóls. Fljótlega varð ég þekktur í borginni sem „útlend- ingurinn“. Leigubílstjórar vissu t.d. hvar ég bjó. Yfirmenn og aðil- ar í her og lögreglu sem þarna eru um allt vissu nákvæmlega hver ég var, hvar ég byggi og hverja ég um- gekkst. Allir vildu þeir og íbúarn- ir greiða götu mína. Ef ég staldr- aði við á götu, þá kom óðara ein- hver. Ég skrifaði nafn á blað og sá leiðbeindi mér með handapati og brosi. Þar sem ég verslaði var mér tekið afar vel og jafnan kvaddur með brosi, hneigingum og oft með handabandi. Þegar á leið var mér oft boðið heim til fólks í dýrind- is matarboð. Þá var stórfjölskyld- Saigon er falleg borg. Nguyen Tan Dung forsætisráðherra Víetnam, Pálmi og Pálmi Sveinn Pálmason hjá Portunus í USA sem reyndar er sonur Pálma. Pálmi til hægri með samstarfsfólki í hádegishléi í fiskiðjuverinu í Víetnam.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.