Neytendablaðið - 01.06.2008, Blaðsíða 12
Leiðakerfi neytenda
Í mars var opnaður nýr upplýsingavefur, www.neytandi.is. Um er að ræða yfirgripsmikið
safn upplýsinga og leiðbeininga um flestallt er viðkemur neytendarétti og stöðu neytenda.
Þar er hægt að fá gagnvirkar leiðbeiningar um kvörtunarferli komi upp ágreiningur milli
neytanda og seljanda. Bent er á þau úrræði sem eru fyrir hendi og finna má rafræn eyðublöð
fyrir kvartanir til úrskurðarnefnda. Leiðakerfið er unnið á vegum talsmanns neytenda.
Neytendablaðið spurði Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, hvernig þetta
verkefni hefði komið til.
„Ég var svo heppinn að frétta í gegnum viðskiptaráðuneytið af styrkmöguleikum frá
upplýsingasamfélaginu á vegum forsætisráðuneytisins – sem veitti verkefninu styrk. Enn
heppnari var ég – og neytendur allir – að fá sem verkefnisstjóra Leiðakerfis neytenda
Liselotte Widing, sérfræðing í neytendarétti, sem hefur lyft grettistaki við að koma þessu
kerfi á laggirnar á undraskömmum tíma með aðstoð Outcome. Ég er mjög ánægður með
árangurinn og vona að sem flestir nýti sér leiðakerfið.“
Björgvin G. Sigurðsson neytendamálaráðherra, Liselotte Widing verkefnastjóri leiðakerfisins og Gísli Tryggvason
talsmaður neytenda við formlega opnun vefgáttarinnar í mars.
Nöldrarinn
Ég keypti mér nýtt reiðhjól um daginn.
Amerískt gæðahjól sem kostaði 45.000
kr. En, viti menn, á leið til vinnu fyrsta
daginn eftir kaupin komst ég að því
að eitthvað amaði að gírabúnaðinum
og að keðjan var greinilega ónýt. Ég
fór strax aftur í verslunina með nýja
hjólið mitt og var tjáð að það færi á
verkstæði og yrði í síðasta lagi tilbúið
eftir 5 daga. Mér var ekki boðið nýtt
hjól eða annað að láni á meðan
viðgerð stæði yfir. Ég var frekar fúll,
enda var ég að byrja í hjólreiðaátaki
með vinnufélögunum og missti nú
heila viku úr.
Þegar ég var búinn að afhenda
versluninni hjólið rifjaðist upp fyrir
mér að seljandinn hafði tjáð mér
að það væri tveggja ára ábyrgð á
gírabúnaðinum. Hún var þó háð því
að hjólið fengi eðlilega meðferð og
viðhald af hálfu eiganda. Ég vildi vita
hvað væri eðlileg meðferð og hvort
ég gæti fengið notkunarleiðbeiningar
með hjólinu. Þegar ég spurði um slíkar
notkunarleiðbeiningar var mér sagt
að þær væru ekki til, en bent á að ég
gæti keypt bók um viðhald á hjólum
fyrir 4.500 kr. Mig langaði ekki að
borga fyrir eitthvað sem ætti að fylgja
með hjólinu. Ég bara spyr, hvernig
getur verslun skilyrt ábyrgð á búnaði
við eðlilega meðferð ef hún gerir
neytandanum ekki kleift að kynna sér
leiðbeiningar um notkun. Ég var ekki
sáttur og skv. lögum um neytendakaup
er söluhlutur gallaður ef honum fylgja
ekki nauðsynlegar upplýsingar um
uppsetningu, samsetningu, notkun,
umönnun og geymslu.
Þegar ég fékk loksins hjólið mitt aftur
– eftir 9 daga en ekki 5 eins og lofað
var – kvartaði ég við verslunarstjórann
yfir þessari lélegu þjónustu og því að
notkunarleiðbeiningar höfðu ekki
fylgt með hjólinu. Þá kom í ljós
að ég hefði vissulega getað fengið
notkunarleiðbeiningar – þeim hafði
bara láðst að afhenda mér þær, þrátt
fyrir að þær væru til og að ég hefði
beðið sérstaklega um þær. Hvort þetta
er sérstök stefna frá verslunarinnar
hendi til þess að fá viðskiptavinina
til að kaupa rándýrar bækur um hjól
eða bara ótrúlega léleg þjónusta get ég
ekki dæmt um.
Rannsókn á transfitusýrum
Neytendasamtökin keyptu af handahófi 7 gerðir matvæla sem flestar eiga það sameiginlegt
að innihalda hálfherta jurtaolíu og geta þar af leiðandi innihaldið transfitusýrur. Matís
hafði milligöngu um að senda matvælin á rannsóknarstofu í Þýskalandi sem mældi magn
transfitusýra í þeim. Matvælin voru: Kitkat súkkulaði, Betty Crocker kökukrem, þýsk
súkkulaðikaka frá Kuchen Meister, Oreo kex, muffin frá Aunt Mabel´s og franskar kartöflur
frá McDonald´s og Kentucky Fried Chicken.
Jákvæð niðurstaða
Í ljós kom að hlutfall transfitusýra í sýnunum reyndist vera lágt eða á bilinu 0,6-1,3%
af öllum fitusýrum. Í Danmörku er hámarksgildi fyrir transfitusýrur úr iðnaðarhráefni 2%
af öllum fitusýrum. Öll sýnin eru því vel undir þessum mörkum og eru niðurstöður til
marks um þann góða árangur sem náðst hefur við að draga úr transfitusýrum í matvælum.
Þótt þessi rannsókn sé afar smá í sniðum eru niðurstöðurnar jákvæðar og gefa tilefni til
bjartsýni.
Umdeild litarefni
Neytendablaðið hefur áður fjallað um asó-litarefnin (3. tbl. 2007) en kannanir hafa
sýnt að samhengi getur verið á milli þessara litarefna og hegðunarvanda barna.
Matvælaöryggisstofnun Evrópu tók málið til skoðunar og var það von Evrópusamtaka
neytenda (BEUC) að stofnunin myndi banna notkun efnanna. Svo fór þó ekki og taldi
matvælaöryggisstofnunin að niðurstöður rannsóknarinnar væru ófullnægjandi, þ.e. að ekki
væri sannað að efnin væru skaðleg börnum. Á það hefur verið bent að neytendur eigi að
njóta vafans og allt of algengt er að of langur tími líði frá því að grunsemdir vakna um
skaðsemi efna og þar til gripið er til aðgerða (transfitusýrur eru gott dæmi um það). BEUC
hefur sent ráðherra heilbrigðismála hjá Evrópusambandinu bréf og hvatt til þess að litarefnin
verði bönnuð. Undir áskorunina skrifa 41 samtök neytenda og önnur hagsmunasamtök sem
starfa í þágu almennings. Neytendasamtökin eru þar á meðal.
12 NEYTENDABLA‹I‹ 2. TBL. 2008