Ægir

Árgangur

Ægir - 01.08.2002, Blaðsíða 42

Ægir - 01.08.2002, Blaðsíða 42
42 F R Ó Ð L E I K U R O G S K E M M T U N K R O S S G Á TA N Skarkoli er hár og þunnur beinfiskur með allstóran haus. Á hægri hlið hans sem snýr upp eru 4-7 beinhnúðar í röð. Kjaftur er mjög smár og skástæður og í honum eru smáar en hvassar tennur. Í koki eru flatar tennur. Augun eru allstór og er vinstra augað aftar en það hægra. Bakuggi er langur, nær frá miðju vinstra auga aftur á spyrðustæði og raufaruggi er einnig langur. Sporður er stór en eyr- og kviðuggar hins vegar meðalstórir. Kviðuggar eru nokkuð framan við eyrugga. Hreistur er smátt og slétt og rákin er greinileg og sveigir aðeins yfir eyruggum. Litur skarkola fer eftir lit botnsins sem hann heldur sig á. Hann er oft brúnleitur með þanggrænni slikju á dökku hliðinni. Þar eru áberandi kringlóttir blettir sem geta verið rauðgulir, rauðbrúnir eða ljósrauðir á lit og stundum með ljósum hring í kring. Vinstri hlið skarkolans sem snýr niður er oftast hvít. Þó kemur fyrir að hægri hliðin snúi niður og er þá hvít og sú vinstri dökk og snúi upp. Flekkóttir skarkolar hafa sést og jafnvel alveg hvítir. Seiðin eru grádröfnótt á hægri hlið og á þau vantar rauðu blettina. Skarkoli getur orðið 95-100 cm langur. Algengastur er hann hér 30-50 cm. En lengsti Skarkoli sem mældur hefur verið við Ísland var 85 cm. Heimkynni skarkola eru í Norðaustur-Atlantshafi, Barents- og Hvítahafi suður með strönd Noregs inn í Skagerak, Kattegat og dönsku sundin allt inn í Eystrasalt. Hann er í Norðursjó, við Bretlandseyjar, í Biskajaflóa, suður með strönd Portúgals til Marokkó og inn í Miðjarðarhaf. Hann sést einnig við Suðvestur-Grænland. Þá er hann við Færeyjar og allt í kringum Ísland. Mest virðist þó af honum fyrir vestan- og sunnanverðu landinu en minna fyrir norðaustan og austan land. Skarkolinn er botn- og grunnfiskur sem heldur sig á sand- og leirbotni. Hann syndir allt frá 10 metra dýpi niður á 200 metra og dýpra og einnig flækist hann stundum upp í árósa og lón. Hann grefur sig stundum niður á botninn þannig að upp úr standa aðeins augun. Á sumrin heldur hann sig grynnra en á veturna fer hann á meira dýpi. Fæða skarkolans er mjög breytileg aðallega þó hryggleysingjar eins og skeldýr, smákrabbadýr og burstaormar en einnig ýmis konar smáfiskar eins og sandsíli. Hrygning fer fram á 50-100 metra dýpi sunnan- og suðvestanlands aðallega í mars og í apríl. Fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum fer einnig einhver hrygning fram en þá seinna eða í maí til júní. Hrognafjöldi í hrygnu er 50-500 þúsund eftir stærð hrygnunnar. Eggin eru sviflæg og lirfurnar eru um 6 mm langar við klak. Eftir 1-2 mánuði þegar lirfurnar eru um 10 mm langar, taka þær að breytast í flatfisk og synda með vinstri hliðina niður. Um 12-14 mm löng hverfa seiðin svo til botnlífsins. Talið er að skarkoli geti orðið allt að 50 ára gamall og hefur 40 ára skarkoli verið aldursgreindur hér við land. Mjög mikið er veitt af skarkola í Norðaustur-Atlantshafi og þá aðallega í Norðursjó og eru Hollendingar, Danir og Englendingar helstu veiðiþjóðir. Hér við land hefur aflinn verið um 10.000 - 12.000 tonn á undanförnum árum. Mest hefur verið veitt í dragnót undan Suður- og Suðvesturlandi. Skarkolinn er fluttur út ferskur til Bretlandseyja og Hollands eða frystur heill eða í flökum og fluttur þannig til Bretlands, Þýskalands, Hollands, Belgíu, Spánar og Bandaríkjanna. Pleuronectes platessa Skarkoli

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.