Ægir

Árgangur

Ægir - 01.04.2003, Blaðsíða 50

Ægir - 01.04.2003, Blaðsíða 50
50 F R Ó Ð L E I K U R O G S K E M M T U N K R O S S G Á TA N Skata er flatur brjóskfiskur með langa og oddmjóa trjónu. Stórir og breiðir eyruggar renna saman við haus og bol og mynda svokallaða skífu. Efri og neðri hlutar skífunnar eru sléttir hjá ungum skötum en hrufóttir hjá þeim eldri. Smá augu eru ofan á haus og aftan við þau eru innstreymisop þar sem inn streymir súrefnisríkur öndunarsjór sem spýtist síðan út um fimm tálknaop sem eru neðan á skífunni. Þar eru ennig nasaop og þverstæður kjafturinn. Aftur úr skötunni gengur stuttur hali og á honum eru 12-18 gaddar. Á ungum skötum eru oft einnig gaddar í kringum augun en þeir hverfa með aldrinum og myndast þá fleiri raðir gadda á halanum, oftast tvær til þrjár. Kviðuggar eru frekar smáir og hjá hængnum mynda þeir göndla. Tveir aðskildir bakuggar eru aftast á halanum. Skatan getur náð að minnsta kosti 250 cm lengd. Sögur fara þó af ótrúlegum stærðum sem veiðst hafa hér við land, allt upp í þriggja metra á breidd en ekki eru til staðfestar heimildir þar um. Algengasta stærðin á þeim er 100-150 cm. Skatan er grá, mó- eða gulgrá á lit að ofan og oft með dökkum eða ljósum blettum. Að neðan er hún hvítleit eða gráleit með hríslóttum blásvörtum rákum. Heimkynni skötu eru í Norðaustur-Atlantshafi frá Múrmansk meðfram strönd Noregs suður í Kattegat, Skagerak og dönsku sundin og inn í vestanvert Eystrasalt. Hún er umhverfis Bretlandseyjar, í Biskajaflóa og suður í vestanvert Miðjarðarhaf. Hún er við Norður-Afríku og Madeira og einnig við Færeyjar og Ísland. Algengust er hún hér í hlýrri sjó suðaustan-, sunnan, og suðvestanlands en finnst þó annarsstaðar allt í kringum landið, þó minna norðanlands og austan. Skatan er botnfiskur sem heldur sig mest á sand- og leirbotni en sést þó stundum við yfirborðið, hugsanlega í leit að æti. Algengust er hún á 100-200 metra dýpi. Á vorin og sumrin gengur hún þó upp á grunnmið en hverfur aftur í dýpið á haustin. Hrygnan gýtur eggjum, svokölluðum pétursskipum, sem eru 14-25 cm löng og 5-15 cm breið. Hængarnir hafa þegar frjóvgað þau í hrygnunni nokkrum mánuðum áður. Þau eru sægræn á lit en verða gul þegar þau þorna. Seiðin eru um 21 cm við klak. Gotið fer sennilega fram frá vori allt til hausts. Vöxtur skötunnar er fremur hægur. Hængarnir verða kynþroska um 150 cm en hrygnur eru lengri við kynþroskaaldur. Fæða skötunnar eru alls kyns botndýr á yngri árum en græðgin er mikil hjá fullorðnum skötum og éta þær fiska af ýmsu tagi, þar á meðal þorsk, ýsu, lýsu, keilu, skarkola, skrápflúru, sandsíli, hrognkelsi og fleiri tegundir. Veiði á skötu hér við land hefur verið stunduð frá því elstu menn muna. Hún er ýmist étin kæst eða söltuð og mörgum finnst nauðsynlegt að borða skötu á Þorláksmessu. Áður fyrr var skatan verkuð eins og hákarl, kæst og síðan hengd upp og þurrkuð. Tindaskata hefur einnig verið notuð vegna minnkandi afla skötu fyrir ofveiði í gegnum árin og er hún nú talin vera í útrýmingarhættu. Skata hefur mest verið veidd á línu en einnig veiðist hún í dragnót, botnvörpu og dálítið í net. Hún er verkuð fyrir innanlandsmarkað en einnig er talsvert af henni flutt á erlendan markað, einkum til Frakklands. Raja (Dipturus) batis Skata

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.