Ægir

Árgangur

Ægir - 01.09.2003, Blaðsíða 25

Ægir - 01.09.2003, Blaðsíða 25
25 „Stimpilklukka á að vera á einhverjum allt öðrum stað en í mínu lífi. Ég hef prófað dæmigerða færi- bandavinnu í landi og hún á engan veginn við mig. Ég kann betur við frjálsræðið á sjónum,“ seg- ir Hafnfirðingurinn Ólafur Helgi Sigþórsson, trillukarl á Jóni Pétri RE-411 sem hann gerir út ásamt Pétri Ólafssyni. Þeir félagarnir hafa róið saman undanfarin ár og á síðustu vikum og mán- uðum hafa þeir fiskað skötusel í Faxaflóa. „Þetta er þrettán tonna bátur,“ svarar Ólafur Helgi þegar tíðindamaður Ægis spyr hann út í útgerðina, „ég er búinn að vera í þessu í um þrjú ár.“ - Hvernig gengur? „Þetta svona rétt sleppur.“ - Af hverju fórstu út í trilluútgerð? „Maður þekkir ekkert annað en sjóinn. Ég hef verið meira og minna á sjónum frá fjórtán ára aldri og nú er ég þrjátíu og fimm.“ - Hefurðu þá verið á togurum? „Nei, aldrei á togurum, alltaf á minni bátum.“ - Er þetta lífið? „Já, þetta er það sem skiptir máli og ég kann best við mig úti á sjó.“ - Eruð þið með kvóta? „Nei, við höfum engan kvóta. Við erum of ungir til þess að hafa veiðireynslu.“ - Hvað er þá til ráða? „Að leigja kvóta af þeim sem eru úti á Bahamaeyj- um og leika sér. Það er ekkert annað í stöðunni.“ - Gengur það dæmi upp? „Við getum sagt að þetta rúlli, það er ekki mikið meira en það. Leiguverðið á kvótanum er alltof hátt.“ - Hvað hafið þið verið að leigja mikið yfir árið? „Þetta eru eitthvað á bilinu 100 til 200 tonn af þorski á ári. Í sumar höfum við verið á skötusel í Faxa- flóanum og það hefur bara gengið ágætlega.“ - Sýnist þér vera nóg af skötusel í Faxaflóanum? „Ég gæti best trúað því að það sé meira af honum en menn halda. Ég hef róið í Faxaflóanum síðustu tuttugu árin og það hefur verið hending að fá skötusel í þorskanetin. Síðustu þrjú árin hefur skötuselsgengd aukist verulega á þessu svæði.“ - Kanntu skýringu á því? „Líklega er helsta skýringin hlýnandi sjór við land- ið. Skötuselurinn hefur fært sig nær landinu. Við höf- um verið að fá hann í net á allt niður í fimm faðma.“ - Hvernig veiðið þið skötuselinn? „Við tökum hann í grásleppunet. Við erum með um 150 net úti og vitjum að jafnaði tvisvar í viku.“ - Hvert fer skötuselurinn? „Hann er allur seldur í gegnum fiskmarkað. Mark- aðurinn leigir okkur kvóta og við seljum aflann þar.“ - Hvert er leiguverðið fyrir kílóið af skötusel? „Það er rétt um hundrað kall.“ - En þið hafið verið að fá ágætis verð fyrir skötu- selnum á markaðnum? „Já, það var ágætt til að byrja með - yfir þrjú hund- ruð krónur á kílóið. Síðan fór verðið niður í 180 krón- ur, en hefur aðeins þokast upp aftur.“ - Komið þið til með að stunda þetta áfram í haust? „Já, ég á von á því á við reynum að hanga á þessu á meðan tíðin leyfir. Það er í það minnsta ekki í mikinn þorsk að sækja eins og er.“ - Þú segir að útgerðin geri ekki mikið meira en rétt sleppa? „Nei, maður gæti vel þegið að fá meira út úr þessu. Við þyrftum að skipta um vél í bátnum, en eins og er er það ekki auðvelt.“ - Hvað myndi kosta að skipta um vél? „Ætli það gæti ekki verið rétt um þrjár milljónir króna.“ - Hvernig stóð á því að þú lagðir fyrir þig sjó- mennsku? „Þetta byrjaði þannig að pabbi fór með mig á snur- voð með þá von í brjósti að ég yrði ekki sjómaður. Það fór hins vegar á allt annan veg. Ég sannfærðist um að þetta skyldi ég leggja fyrir mig. Þetta er lífið.“ - Þrátt fyrir að útgerðin sé nokkuð erfið fjárhags- lega, þá ætlarðu að halda áfram í þessu? „Já, á meðan ég hef gaman af þessu.“ B RY G G J U S P J A L L I Ð Þetta er lífið! Ólafur Helgi Sigþórsson. Jón Pétur RE-411.

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.