Tímarit Máls og menningar - 01.12.1957, Síða 9
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Grímsstaðaholti, eða uppi í Hlíðum,
eða inni i Kleppsholti, nei við skulum
hætta.
En þessi tilraun var sem sagt gerð
fyrir nokkrum árum. Og síðan hafa
þeir haldið áfram að gera tilraunir,
bæði þessir, og líka þeir hinir. Við
höfum heyrt í þeim drunurnar,
þyngri og þyngri, til skiptis, vestan
frá Nevada og austan frá Síberíu.
Ennfremur hafa þeir nú gert sér eld-
flaugar sem farið geta heimsálfanna á
milli á örskammri stund og komið
nákvæmlega niður á þann stað sem
sendandinn kynni að telja sér mestan
hag í að sundra og brenna í atómeldi.
Mannkyninu hafa verið færðar heim
órækar sannanir fyrir því að kjarn-
orkudauðinn þyrfti ekki lengur að
ferðast í flugvélum sem kannski yrði
hægt að skjóta niður. Hann mundi
ferðast með eldflaugum sem engin
leið yrði að skjóta niður. Það yrði
ekki lengur með neinu móti fyrir-
byggt að kjarnorkudauðinn kæmist á
sinn ákvörðunarstað.
Og samt, — samt lesum við það í
blöðum bæjarins í gær, að forustu-
menn tveggja af stuðningsflokkum
núverandi ríkisstjórnar telji það óráð
og ábyrgðarleysi að vísa hinum
bandaríska her burt af landinu, því
að við megum ekki missa vernd hers-
ins. Vernd!!! Abyrgir íslenzkir
stjórnmálamenn leyfa sér sem sagt
enn að tala eins og þursar út úr
bjargi, blaðra um vernd í sambandi
við þessa hersetu.
Á ég að segja ykkur hvernig hún
hófst þessi margrómaða vernd? Ég
get nefnilega borið persónulegt vitni
um það, því að strax þann morgun
sem opinbert hernám landsins hófst
af nýju, hinn 7. maí 1951, fór ég sem
blaðamaður suður á Keflavíkurflug-
völl til að fregna um viðbúnaðinn. En
eins og menn muna, þá fékk þjóðin
ekkert að vita um það sem til stóð fyrr
en þennan sama morgun að hið nýja
hernám var orðið að veruleika, og var
þeirri launung haldið af varúðar-
ástæðum og vegna ríkrar ábyrgðartil-
finningar stjórnarvaldanna, eftir því
sem þáverandi forsætisráðherra sagði
í ávarpi sínu til þjóðarinnar, því að
ella hefði hinn rauði óvinur kannski
fengið spurnir af málinu og jafnvel
getað verið búinn að hernema okkur
áður en Bandaríkjamenn kæmu sinni
vernd í framkvæmd. En hver var þá
viðbúnaðurinn? Hver var verndin?
Þrjú til fjögur hundruð bandarískir
hermenn höfðu verið fluttir með flug-
vélum til Keflavíkurflugvallar, og
þegar ég kom þangað suðureftir, voru
þeir á þönum milli ryðbrunninna
bragga frá síðasta stríði, með teppi
og kodda. Þeir ætluðu sem sé að hefja
verndina með því að leggja sig. Enda
voru þeir þreyttir eftir ferðalagið, og
auk þess blánefjaðir og bersýnilega
með kuldahroll í skrokknum, því að
þennan morgun var hann býsna hvass
199