Tímarit Máls og menningar - 01.05.1961, Page 52
TIMARIT MALS OG MENNINGAR
líf hans og framtíð. Hann ætlaði að ráðast á hann og myrða hann, en þá lauk
öldungurinn upp augunum, og það færðist svo angurvært og milt bros yfir
andlitið, að það afvopnaði lærisvein hans. „Hafðu það hugfast, Han Fook,“
sagði öldungurinn lágum rómi, „að þér er í sjálfsvald sett að gera það sem þú
vilt. Þú getur farið til heimkynna þinna og gróðursett tré, þú getur hatað mig
og drepið mig, það skiptir ekki miklu.“
„Æ, hvernig ætli ég gæti hatað þig,“ sagði skáldið og var mjög hrærður.
„Það væri eins og ég ætlaði mér að hata sjálfan himininn.“
Og hann var um kyrrt og lærði að leika á hörpu og því næst á flautu, og
síðan fór hann að yrkja kvæði undir handleiðslu meistarans og lærði smám
saman þá leyndardómsfullu list að segja að því er virtist aðeins hið einfalda og
látlausa, en koma jafnframt með því slíku róti á sál áheyrandans, að það var
eins og þegar stormur geysist yfir spegilslétt vatn. Hann lýsti uppkomu sólar-
innar, hvernig hún hikar við brúnir fjallanna, hvernig fiskarnir skjótast hljóð-
laust eins og skuggar undir vatnsfletinum, hvernig hið unga pílviðartré vaggast
í vorvindinum, og þegar menn hlustuðu á þetta, þá var það ekki einungis sólin,
leikur fiskanna og hvískur pílviðartrésins, heldur virtist svo í hvert sinn sem
himinn og jörð hljómuðu eitt andartak saman í fullkominni tónlist, og sérhver
áheyrandi hugsaði þá í gleði eða sársauka um það sem hann elskaði eða hat-
aði, drengurinn um spegilinn, unglingurinn um unnustu sína og hinn aldraði
um dauðann.
Han Fook vissi ekki lengur, hve mörg ár hann hafði dvalið hjá meistaranum
við upptök hins mikla fljóts; oft fannst honum sem hann hefði komið í fyrsta
sinn í þennan dal kvöldið áður og verið boðinn velkominn af strengleik öld-
ungsins, en oft fannst honum, að tíminn og allir mannsaldrar hefðu hrunið
saman að baki honum og hann hefði glatað öllum veruleika.
Svo vaknaði hann eitt sinn um morgun og var aleinn í kofanum, og enda
þótt hann leitaði að meistaranum og kallaði á hann, þá reyndist hann horfinn
fyrir fullt og allt. Um nóttina sýndist haustið allt í einu vera gengið í garð, það
hrikti í gamla kofanum í snörpum vindhvin, yfir fjöllin flugu stórir skarar af
farfuglum, enda þótt tími þeirra væri enn ekki kominn.
Þá tók Han Fook litlu lútuna sína með sér og hélt niður til heimkynna sinna
og allstaðar, þar sem fólk varð á vegi hans, heilsaði það honum á þann hátt
sem hæfir öldungum og tignum mönnum, og þegar hann kom til ættborgar
sinnar, voru faðir hans, unnusta og ættingjar látnir, og annað fólk bjó í hús-
um þeirra. En um kvöldið var blyshátíðin haldin á fljótinu, og skáldið Han
Fook stóð á dimmum bakka fljótsins og hallaði sér upp að gömlum trjástofni,
130