Tímarit Máls og menningar - 01.07.1971, Blaðsíða 28
Tímarit Máls og menningar
í þeim efnum. Og þó söguefnið komi manni stundum svolítið ókimnuglega
fyrir sjónir í fyrstu, af því það er svo langt liðið síðan allt þetta gerðist,
þá hygg ég alténd að ertingar andskotans við Antoníus helga í öræfunum
eða sjóferðarsaga Máríu egypzku þá er hún fór til Jórsala til hins helga
kross, grípi mitt arma hjarta sízt ófastara en sagan af hinni þrotlausu ein-
veru eða slímusetur hland- og þrekkskáldanna á kamrinum.
Það væri gagnslítið í pistilskorni sem þessu að fjölyrða um allan þann
aragrúa bóka sem til eru á georgisku máli frá miðöldum, enda brestur höf-
undinn til þess vit og kunnáttu. Ég læt mér duga að minna á eina heilagra
manna sögu, en að vísu þá sem líklega hefur hlotið einna mesta frægð allra
rita í þessari bókmenntagrein. Ég á vitaskuld við Barlaams sögu og Jósafats,
eða Sabrdzní Balavarísa (Balavarianí) svo sem hún nefnist á georgisku máli.
í sögu þessari segir frá indverskum konungssyni, Jósafat að nafni, og þeirri
speki og guðhræðslu sem hann nemur að Barlaam, kristnum einsetumanni.
Sagan er fyrir öndverðu komin frá Indlandi, og innir í raun réttri frá upp-
vexti Búddu, en hefur verið snúið upp á kristinn sið. Varla er um það að
ræða að farið hafi verið eftir neinu einstöku indversku riti, a. m. k. er það
þá ekki lengur til, heldur hefur smátt og smátt verið safnað saman í eina
sögu ýmsum þáttum sem í upphafi hafa gengið um Búddu. Þetta verk virðist
mega rekja til Maníka í miðlöndum Asíu, og hefur þá sagan orðið til sem
guðsorðabók í þeim söfnuði. Síðan hefur henni verið snúið á persneskt mál,
og þaðan hefur hún haldið áfram ferð sinni til þjóða í Asíu vestanverðri;
en mjög er torvelt að rekja þann feril. Einhvern tima á tímabilinu milli 8ndu
og lltu aldar hefur sagan verið lögð út á grísku, en enginn veit með vissu
hver það hefur gert, né hvar eða hvenær það hefur orðið. Á latínumál var
henni þvínæst snarað úr grísku, og svo þaðan aftur á allar helztu mennta-
tungur vesturlanda, þar á meðal á norrænt mál í kringum 1250.
í nokkrum handritum grísku útleggingarinnar er þess getið að sögunni
sé snúið á grísku úr georgisku af Evþýmíosi, georgiskum munki á Aþusfjalli
(eitthvað um 1000), og slíkt hið sama segir í æfisögu Evþýmíosar. Önnur
handrit eigna grísku gerðina Jóhannesi frá Damaskus (í broddi lífsins um
700). Nú eru til á georgisku máli tvær gerðir þessarar sögu, önnur styttri
hin helmingi lengri, og mun styttri gerðin vera dregin saman úr hinni lengri.
Líklega hefur georgisku sögninni verið snúið úr serknesku, en óvíst er hvar
umbreytingin úr sið Maníka í kristinn sið hefur orðið, hvort heldur hjá
Georgíumönnum eða hjá einhverjum kristinna manna söfnuði á Serklandi.
Margt bendir þó fremur til þess að Georgíumenn hafi hér um vélað, og sé
18