Tímarit Máls og menningar - 01.12.1972, Qupperneq 132
Tímarit Máls og menningar
er oss virðast eigi ósannlegri en sumt það er alþýðu er kunnara af hinum
fyrri bókum.“ Gerpla fær á þennan hátt að dæmi Islendingasagna sann-
sögulegt snið eða yfirvarp, en höfundur um leið tilefni að skjóta inn nú-
tíma atviki á stöku stað, eins og þegar liann lýsir Hringisakri er „eg fór
þar um einn morgun síð vors“ eða segir frá því að dýrlingahausar „vóru
geymdir að kirkju Heilagrar Vizku í Kænugarði alt frammá daga Sigur-
geirs biskups, og sénir af oss er af stóru fátæki höfum þessa litlu bók saman
skrifaða“.
Gerpla tekur einnig snið af íslendingasögum í samsetningu, og er í því
að mörgu leyti óhk fyrri skáldsögum Halldórs. Hún er atburðasaga fremur
en persónusaga. Hvorki Þorgeir né Þormóður bera söguna eins uppi og til
að mynda Bjartur í Sumarhúsum Sjálfstætt fólk. Menn muna hvað athafna-
sviðið í Sjálfstæðu fólki er þröngt, mestmegnis einn kotbær. Hér er sögu-
vettvangur meginhluti heims er kunnur var á tíð þeirra fóstbræðra. Utan
íslands, á Vestfjörðum og í Borgarfirði, gerist hún á írlandi, Englandi, í
Normandí á Frakklandi, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, í Kænugarði í
Garðaríki, á Grænlandi, í Páfagarði í Róm. Sögunni er skipt í 54 kafla,
hvern með sínu fasta móti, og sviðsetning breytileg í fjölmörgum þeirra.
A hverjum stað og með hverri þjóð sem höfundur her niður gefur hann
hvorutveggja skýr einkennismót svo að á bak við jafnvel smákafla í Gerplu
hlýtur víða að liggja geysimikil þekkingarleit í landssögu og þjóðfélagshátt-
um á því tímabili er sagan gerist, því að höfundur gerir sér far um að
standa alstaðar á föstum sagnfræðilegum grunni með skáldskap sinn, og
hann hefur jafnvel sjálfur komið á flesta staði sem hann lýsir, utan Græn-
lands, og „skoðað þá gaumgæfilega“ (eins og höf. sagði í viðtali við Tím-
ann) og „reynt að drekka staðblæinn inn um húðina og komast í snertingu
við upprunalegt leiksvið viðburðanna“. Og þó að náttúrulýsingar séu ekki
miklar og einungis til að sviðsetja og auðkenna atburði og láta þá speglast
í margbrotnara ljósi, eru áhrifin þeim mun eftirminnilegri og staðfesta orð
höfundar.
Efnismagn bókarinnar með þeirri víðáttu sem hún tekur yfir þyngir að
sjálfsögðu lestur hennar og bitnar á einfaldleik söguþráðarins, og ekki eru
höfuðpersónur alltaf jafnt frammi. Framan af eru Þorgeir og Þormóður
oftast báðir samt, síðan slitnar samfylgd þeirra og fylgir þá sagan Þorgeiri
um skeið, og síðan Ólafi hinum digra, unz Þorgeir er úr sögu og Þormóður
verður höfuðpersónan. í páfagarði er enginn þeirra, heldur Grímkell biskup
einn af persónum sögunnar. Eitt mesta átakið í Gerplu er að halda í spennu
274