Tímarit Máls og menningar - 01.12.1979, Side 9
Adrepur
tilraunum sínum til að skýra þetta tímabil: Sá slæmi Stalín hafði fengið alltof
mikil völd sem hann misnotaði hrapallega, hefði þetta ekki gerst hefði þróunin
orðið á annan veg og svo framvegis. Diabolismus Árna er af þessum toga. Með
ofuráherslu á snilli leikhúsmannsins mikla eru viðbrögð fólks við réttar-
höldunum útskýrð sem óhjákváemileg. Röksemdafærsluna fær Árni ekki til að
ganga upp, skiljanlega, nema með því að skjóta inní hana svæsinni alhæfingu,
eða réttara sagt fölsun á sögunni. Þeir voru vissulega til, meiraðsegja hér á landi,
sem reyndu að leggja saman og draga frá og fengu dæmin til að ganga nokkuð
réttilega upp miðað við þær stærðir sem þá voru þekktar; drógu síðan af þessu
margvíslega lærdóma og flestir fremur uppgjafarkennda. Og þó Trotskí og
Deutscher hafi ekki vitað hvað gúlagið var stórt, kom það ekki í veg fyrir að þeir
og margir fleiri tækju afstöðu gegn þeim hluta þess sem þeir vissu um, án þess
þó að umturnast í andstæðinga alls sósíalisma.
En „leikritið“ var meira en réttarhöld og gúlag; þetta tvennt er aðeins það
áþreifanlegasta núna eftirá. Stalínisminn var andleg miðöld, í allri hugsun
kippur langt afturfýrir Marx og í sumum greinum afturfyrir vestrænan
húmanisma. Og þá vaknar spurning sem vafist hefur fyrir fleirum en mér:
hvernig stóð á því að svona margir aðhylltust þessi ósköp, flestir gersamlega
gagnrýnislaust og sumir af trúarlegri ákefð? Hér hrökkva ekki til þær ástæður
sem menn höfðu til að styðja Sovétríkin sem tilraun til sósíalisma (að þeirra
mati) og öflugan bandamann gegn fasismanum. Enn síður „djöfulleg snilli
Stalíns". Sem hugmyndafræði var stalínisminn hvorki djöfullegur né snjall og
þaðanafsíður djöfullega snjall. Hann var moð.
Utbreiðsla stalínismans er órækur vottur um afhroð gagnrýninnar hugsunar
meðal flestra sósíalista á þessum árum, þörf þeirra á andlegu haldreipi hvað sem
það kostaði, pólitískan þolandahátt og oft á tíðum sefjunarkennda auðsveipni;
eftir að dýrðin þvarr hefur mörgum reynst leiðin æði létt undir guð almáttugan,
þjóðina, nýja flokka, nýja leiðtoga og fleira sem þægilegt þykir að beygja sig undir.
Þessi hlið stalínismans er ekki aðeins eftirgjöf sósíalista gagnvart borgaralegri
hugmyndafræði og lífsmynstri, hún er samrunnin aldagömlum leifum af ýmsu
því versta sem bæði borgaralegum og sósíalískum byltingum var ætlað að vinna
gegn. Skýringa á henni er að leita í menningarsögulegu samspili margra þátta en
ekki persónunni Jósep Stalín.
Þó ádrepa Árna sýni ljóslega að gamall sovétátrúnaður er ennþá nokkuð
viðkvæmt mál, þá er hún samt gleðilegt viðbragð á tímum þegar flestir kæra sig
kollótta um sögu „hreyfingarinnar“ svo ekki sé minnst á gamla og nýja drauma
um annarskonar mannlíf.
383