Tímarit Máls og menningar - 01.12.1979, Page 49
Skipsferð niður Yanglze Kiang
utan þrýsta nefjunum flötum upp við rúðuna. Svipbrigðalaus fylgja þau
hreyfingum mínum eftir með mikilli eftirtekt. Kokkurinn rekur hópinn
frá með jöfnu millibili, en þrjóskustu áhorfendurnir virðast telja að ef þeir
geti grandskoðað mig nógu vel og lengi geti þeir skilið þetta ótrúlega
fyrirbæri, útlending. En þeir eru samt mjög feimnir. Þegar ég sný mér að
þeim brosa þeir hjárænulega og skilja ekkert.
Þíða meðal menntamanna
Þannig var þetta líka áður fyrr. Það hefur ekki orðið raunveruleg
breyting nema meðal farþeganna á öðru farrými — þeim sem eru
menntaðir og í áhrifastöðum. Þeir tala svo opinskátt að maður hrekkur
ósjálfrátt við ef maður hefur reynslu af ástandinu í hópi menntamanna í
Peking á síðustu árum Maó-tímans. Umfram allt spyrja menn, um hvað
sem er, því það er í tísku að hafa yfir að ráða traustri þekkingu frá fyrstu
hendi um það sem gerist erlendis.
Ég átti löng samtöl, næstum trúnaðarsamtöl, við hvíthærða elskulega
konu, stærðfræðing frá Peking. Hún spyr mig nákvæmra spurninga um
Danmörku og sjálfan mig. Þegar ferðin er senn á enda og við förum að
búa okkur undir að stíga á land segir hún: „Þú ert orðinn svolítið
kunnugur Kína, segðu mér í hverju þér finnst alvarlegustu mistök okkar
vera fólgin eða hvað okkur skortir.“ Það liggur beint við að gagnrýna
breytingarnar á menntakerfinu. Ég tala um próf sem eru eingöngu bókleg
sem séu röng og ofnotuð, um ofboðslegt lestrarálag í æðri menntastofn-
unum (og hve mikil og góð orka fari til spillis vegna þess hvað lestrar-
efnið sé oft lítilsvert); hvað börnum menntafólks sé hyglað o.s.frv. Það
kom í ljós að ég hafði fitjað upp á umræðuefnum sem hún hafði miklar
áhyggjur af því hún fór að segja mér hvernig þetta nýja prófkerfi væri líka
farið að hafa áhrif allt niður í barnaskóla, nemendur þyrftu að lesa miklu
meira og jafnframt hefði námsskráin gerbreyst. Dregið hefur verið úr
kennslu í söng, listfræði og þess háttar námsgreinum en meiri áhersla
lögð á stærðfræði, eðlis- og efnafræði og erlend mál. Kröfur til bóklegs
náms hefðu aukist óskaplega. Börnin hefðu bráðum ekki tíma til að leika
sér lengur! Hún sagðist sjálf eiga dóttur í barnaskóla og fýrir nokkru
423