Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Page 110
Tímarit Máls og menningar
Séu sýningar Alþýðuleikhússins eingöngu skipaðar konum sem stendur,
þá gefur EGG-leikhúsið mótvægi, þar hafa fram að þessu aðeins karlar verið
á ferð og þó fremur einn en fleiri. EGG-leikhúsið er, eins og flestum mun
kunnugt, barn Viðars Eggertssonar leikara, hann hefur verið þetta leikhús,
þó að nú síðast hafi þar fleiri komið við sögu. Leikrit Arna Ibsen sem hann
stýrði sjálfur, um skáldin Williams og Pound var merkur listviðburður,
glæsilegur árangur tveggja sem tilbúnir eru að leggja á sig ómælda vinnu til
að koma list sinni á framfæri.
Bæði þessi leikhús ætla, trúi ég, að láta gæðin sitja í fyrirrúmi fyrir
kynjaaðskilnaðinum, og á þessu stigi á þroskaferli þeirra er aðeins eitt að
segja: ÁFRAM!
Hitt-leikhúsið sýndi Litlu hryllingsbúbina og sú sýning var sökksess í
orðsins fyllstu merkingu, enda í alla staði vel gerð, mikið í hana lagt og
fagmannlega unnið. En skemmtilegra hefði verið að sjá meira í uppsetning-
unni frá leikstjórunum sjálfum. Því miður virtust íslensku leikararnir vera
settir um of inn í sýningu að útlenskri fyrirmynd, svo mjög að hreyfingar,
uppstillingar og ýmis smáatriði virtust eftirmynd einhvers annars.
Revíuleikhúsið er og vill vera skemmtileikhús, gamanleikurinn er viðfangs-
efni þess og barnaleikrit sýnir það líka. Yngstu áhorfendurnir hafa löngum
farið varhluta af leiksýningum — en þeir eru óumdeilanlega þakklátastir
áhorfenda. Því er gott að auka fjölbreytni og möguleika barna til að fara í
leikhús og eru ævintýri H.C. Andersen ekki síst til þess fallin að skemmta
börnum.
Gamanleikurinn Grœna. lyftan er heldur innantómt leikrit og margir
betri og bitastæðari farsar til, en það má að sjálfsögðu skemmta sér
þokkalega eina kvöldstund við að horfa á það.
Leikhópurinn Svart og Sykurlaust er blanda áhugaleikara og atvinnuleikara,
en menntaðir leikarar eru burðarás hópsins. Leikhópurinn er feikna
skemmtilegt vandræðabarn í íslensku leikhúsi — það er hvergi hægt að skipa
honum í flokk. Aðallega hefur Svart og Sykurlaust starfað sem götuleikhús,
virkjað með sér hópa af unglingum og sett upp viðamiklar, litríkar og
skrautlegar sýningar hist og her; notað risastórar grímur og stultur. Á
Listahátíð, 17. júní og við önnur tækifæri hefur leikhúsið óneitanlega gefið
annars oft stöðnuðum útihátíðum nýstárlegan og spennandi svip, meðlimir
leikhússins hafa þróað með sér tækni sem fram að því var óþekkt hérlendis
og komið með nýtt blóð og nýtt andlit inn á leikhúsmynd landsmanna.
Af sjálfu leiðir að hópur sem þessi getur svo til eingöngu starfað á sumrin.
508