Tímarit Máls og menningar - 01.03.1999, Blaðsíða 69
PARMENÍDES KEMUR TIL AÞENU
Anaxagórasi sem var kunnur meðal aþenskra borgara vegna dálætis
sem herstjórinn hafði á honum. Torgið iðaði af mannlífi í síðdegissól-
inni og langir skuggar liðu inn á milli súlnanna. Kaupahéðnarnir
höfðu haldið sig með handvagnana í forsælu súlnagangnanna um
annatímann, en nú var sólin ekki jafn svíðandi og síðustu forvöð að
selja fyrir dagsetur, svo þeir voru komnir út á torgið og buðu hver í
kapp við annan fíkjur, vín, viðsmjör og kálmeti á niðursettu verði.
Hægur andvari blés sem forboði kvöldkulsins og lúnar dægurflugur
suðuðu yfir söluvögnunum úti við altari hinna tólf guða, skeytingar-
lausar eða óafvitandi um dauðann sem brátt biði þeirra.
Virkisborg Aþenu, eins og hún sást í austri, var böðuð gullroðnum
geislum úthallandi sólar. Þar voru menn enn að störfum, enda hafði
herstjórinn fyrirskipað að byggingarframkvæmdum skyldi hraðað.
Múldýr og uxar drógu kerrur hlaðnar þungum marmarablökkum frá
Naxos og Paros brattan veginn upp hlíðina. Hrópandi kúskar börðu
dráttardýrin með keyri ef þau linuðust við, en aðrir ýttu stritandi á eft-
ir hlassinu til að létta undir. Neðst í stígnum sveigði lest dráttardýra
með tóma vagna út á Panaþenska veginn. Ofan af hæðinni mátti heyra
fjarlæg högg steinsmiðanna. Þar bar við hryggbrúnina raðir veggja og
súlna sem voru að rísa, hálfhuldar þéttum timburgrindum verkpalla.
„En það er hönd Pólýgnótosar sem færir okkur fegurðina, mæti
Parmenídes.“ Anaxagóras tók ekki eftir mönnunum tveimur, sem
köstuðu á hann kveðju, og annar þeirra, hár og renglulegur, með skalla
um aldur fram, setti upp þóttasvip. „Án handbragðs hans fengi sálin
ekki að nærast af fegurðinni.“
Parmenídes glotti tannfáum gómi ómarkvisst í átt til leiðsögu-
manns síns. „Þú segir það, ágæti Anaxagóras,“ svaraði hann kersknis-
lega á hinni linmæltu grísku, sem töluð var vestan Jónahafs. „En
setjum svo að allt mannkynið hyrfi af yfirborði jarðarinnar og enginn
væri til að skynja fegurð myndarinnar. Væri hún þá áfram ómetanlegt
listaverk?“
Anaxagóras neri skeggið hugsi. Heimspeki var hans ær og kýr, en
hún átti að vera vitsmunaleg og rökræn. Slíkar hugleiðingar voru
nýjar af nálinni. Til hvers að fá slíkan speking í heimsókn til borgar-
innar, ef hann hafði í flimtingum og talaði í barnalegum gátum?
Anaxagóras ákvað að hafa vaðið fýrir neðan sig. „Ég veit ekki, meistari.
Hvert er svarið?“
TMM 1999:1
w w w. m m. ís
59