Vesturbæjarblaðið - 01.12.2005, Blaðsíða 14

Vesturbæjarblaðið - 01.12.2005, Blaðsíða 14
DESEMBER 200514 Vesturbæjarblaðið VESTURBÆJARBLAÐIÐ leitaði svara tveggja þingmanna um ýmiss mál sem brenna á fólki í Vesturbænum. Þetta eru þeir Ágúst Ólafur Ágústs- son, þingmaður Samfylkingarinnar og íbúi á Framnesveginum og Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðis- flokksins, en hann býr á Víðimelnum. Ágúst Ólafur Ágústsson: - Hvað er brýnast að hrinda í framkvæmd í skipulagsmálum Vesturbæjar? „Vesturbærinn er að mínu mati ein af perlum borgarsamfélagsins. Þetta sést m.a. á því hversu eftirsóknarvert er að búa hér og að fólk sem elst upp í Vesturbænum vill oft líka búa sér framtíðarheimili hér. Við fluttumst hingað fyrir tæpum þremur árum síðan og okkur hefur liðið mjög vel í Vest- urbænum. Þetta er rótgróið hverfi, þar sem stutt er að sækja alla þjónustu og sjálfum finnst mér kostur að vera í KR-hverfi. Margt fjölskyldufólk velur sér auðvitað bú- setustað m.a. út frá skólum. Vesturbærinn státar af góðum skólum og ég veit af eigin raun að hér eru frábærir leikskólar. Vestur- bærinn er hins vegar með gamla sál sem ber að virða og þess vegna verður að vanda vel skipulagsmál hér. Mjög spennandi verkefni eru framundan á Slippsvæðinu og við Mýrargötuna. Nú liggur fyrir áhugaverð skipulagstillaga um fallegt íbúðarsvæði á svæðinu og þess efn- is að gamli Slippurinn fari. Samkvæmt til- lögunni er ætlunin að þar rísi íbúðahverfi með gönguleiðum um höfnina ásamt marg- víslegri starfsemi. Mér finnst þurfa að endurskipuleggja svæðið þar sem BYKO stendur en í tengsl- um við íbúðafjölgun á svæðinu þarf vænt- anlega að stækka Vesturbæjarskóla. Á Lýsi- slóðinni verður reist hjúkrunarheimili sem ég tel vera gleðiefni fyrir alla Vesturbæ- inga. Ég vona bara að húsið verði þannig hannað að útsýnið nýtist sem flestum sem þar munu búa. Reglulega heyrast hugmyndir um land- fyllingu út frá Eiðisgrandanum og ber að skoða allar slíkar hugmyndir vel áður en lagst er í slíkan leiðangur. Ef af slíku yrði væri um að ræða eitt stærsta skipulags- verkefni Vesturbæjar í langan tíma. Mér finnst að það verði að gæta þess að hugsa skipulagsmál frá mörgum sjónar- hornum, m.a. frá sjónarhorni fjölskyldu- fólks þannig að gönguleiðir og útivera verði aðlaðandi. Elísabet dóttir mín er mik- ill talsmaður þess að fara á róló þannig að hún myndi sennilega svara því til að mjög brýnt sé að fjölga þeim. Það gleymist hins vegar oft í umræðu um skipulagsmál að til þess að skipulag verði gott þarf að hleypa fólki með fagmenntun og fagþekkingu í umræðuna. Skipulagsmál eru of mikilvæg til þess að menn ákveði bara að setja niður heilu hverfin, göturnar eða stokkana án þess að hafa það hugfast að það þarf menntun og þekkingu á mála- flokknum til þess að ná fram bestri niður- stöðu. Mér finnst mörg skipulagsmistök blasa við í borginni og má finna ný og göm- ul dæmi þess. Þess vegna finnst mér brýnast í skipu- lagsmálum að umræðan verði fagleg, en ekki lituð af tímabundnum hagsmunum.“ - Ertu sammála mörgum íbúum Vesturgötu um að þar eigi að vera einstefna? „Áður en við fjölskyldan fluttum í Vestur- bæinn bjuggum við í Þingholtunum þar sem margar einstefnugötur er að finna. Þar hefur reynslan almennt séð verið góð. Ég tel að íbúar á viðkomandi svæði eigi að hafa mikið um það að segja hvernig um- ferðinni er háttað um þeirra hverfi, þó að auðvitað verði alltaf að líta til hagsmuni borgarinnar allrar. Ég tel því að einstefna á Vesturgötunni gæti átt vel við.“ - Þegar (eða ef) flugvöllurinn í Vatnsmýr- inni hverfur, á þar að rísa eingöngu íbúða- byggð, eða hvernig sérðu fyrir þér uppbygg- inguna. Hvernig er hagkvæmast að tengja framtíðarbyggð í Vatnsmýrinni byggðinni í miðbænum, þ.e. Kvosinni? „Verði byggt í Vatnsmýrinni þá þætti mér eðlilegt og rökrétt að þar yrði lifandi framhald af miðbænum. Þar ætti íbúða- byggðin að vera þétt eins og t.d. í Þingholt- unum og göngugötur og torg. Verslun og kaffihús þarf að geta þrifist þar ásamt blómlegri atvinnustarfsemi og þekkingar- þorpi. Þingholtin og Kvosin eru án efa eitt eftirsóknarverðasta hverfi landsins og það sýnir að margir vilji búa þétt í borgarsam- félagi þar sem nálægðin við verslanir, skemmtistaði, leikhús, kaffihús, veitinga- staði er mikil. Skipulagning Vatnsmýrarinn- ar gefur okkur einstakt tækifæri á skipu- lagningu heils hverfis. Tengingin við Öskju- hlíðina, Hljómskálagarðinn, Tjörnina, Há- skólann og fjöruna býður upp á ótal mögu- leika. Það mætti einnig byggja á ákveðnum stöðum í Vatnsmýrinni nokkuð duglega upp í loftið verði af byggð þarna.“ - Er rétt að úthluta KR því svæði sem nú standa skemmur SÍF á? Ef ekki hvernig sérðu fyrir þér framtíðaruppbyggingu fyrir KR? „Það þarf að huga að frekari uppbygg- ingu KR og tryggja félaginu það svæði sem þörf krefur til að hægt sé að standa fyrir öflugri íþrótta- og tómstundastarfsemi. KR er einn af máttarstólpum Vesturbæjarins og stolt. Skemmur SÍF eru hins vegar í einkaeign og þar af leiðandi er nauðsynlegt að ná samkomulagi um eignina áður en lengra er haldið. Ég get vel ímyndað mér að í framtíðinni verði þarna annað að finna en þessar skemmur.“ - Hefur þú trú á að það sé rétt stefna að opna þjónustumiðstöðvar í hverfum Reykja- víkur, eins og t.d. Vesturgarð við Hjarðar- haga? Hverjum þjóna þessar hverfismið- stöðvar helst? „Já, mér finnst það og það hefur reyndar sýnt sig að almenn ánægja hefur verið með slíkar þjónustusmiðstöðvar víða um borg- ina og þær hafa verið nýttar vel af borgar- búum. Það er mikilvægt að nærsamfélagið sé eflt og boðleiðirnar séu einfaldaðar. Við eigum ekki að hafa alla stjórnun miðstýrða eins og Sjálfstæðismenn gerðu þegar þeir voru í meirihluta í borgarstjórn og þeir gera enn í landsmálunum, ekki síst í menntamálum. Þessar þjónustumiðstöðvar færa þjón- ustuna út í hverfin og samþætta margs konar félags- og velferðarþjónustu fyrir íbúana ásamt starfsemi ólíkra hagsmuna- hópa. Þessi starfsemi mun þróast áfram og vel er hægt að hugsa sér að Vesturgarður verði í vaxandi mæli miðstöð menningar- starfs í Vesturbænum og verði hvati fyrir félagsstarf og uppákomur í hverfinu.“ - Sem þingmaður Reykjavíkur og Vestur- bæjar, hvernig þjónar þú best íbúum þess svæðis? „Mér finnst eðlilegt að þingmenn líti á sig sem þingmenn þjóðarinnar fyrst og fremst. Ég hef því beitt mér í málum sem ég tel varða alla landsmenn burtséð frá því hvar þeir búa. Það er auðvitað líka þannig að margir veigamestu málaflokkarnir svo sem heilbrigðismál og menntamál snerta lands- menn alla. Ég hef hins vegar beitt mér í málum sem varða marga íbúa Vesturbæjar, t.d. með því að tala fyrir gjaldfrjálsum leikskóla, sem yrði gríðarleg kjarabót fyrir fjölskyldu- fólk, bættu heilbrigðiskerfi, aðbúnaði eldri borgara og bættum kjörum þeirra. Ég hef viljað lækkað matarverð með skattalækk- unum og barist fyrir afnámi fyrningarfrests í kynferðisafbrotum gegn börnum og viljað að lagaákvæði gegn heimilisofbeldi verði sett. Ég vil að frelsi fólksins sé sem mest og staðið að fjölmörgum þingmálum sem auka það ásamt gegnsæju og réttlátu samfélagi. Svona mætti lengi telja en með því að hugsa um hagsmuni heildarinnar mun ég þjóna íbúum Vesturbæjar best,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar og Vesturbæingur. Birgir Ármannsson: - Hvað er brýnast að hrinda í framkvæmd í skipulagsmálum Vesturbæjar? „Vesturbærinn er eitt þéttbýlasta svæði borgarinnar og svigrúm í skipulagsmálum því minna en víða annars staðar. Vestur- bæingar þurfa auðvitað á því að halda að samgöngur til og frá hverfinu séu greiðar og jafnframt er rétt að skoða hvort landfyll- ingar og breytt nýting svæðisins í kringum höfnina og Örfirisey getur skapað nýja möguleika fyrir aukna íbúðabyggð. Hug- myndir borgarstjórnarflokks sjálfstæðis- manna um Eyjabyggð eru svo að mínu mati spennandi framtíðarsýn þegar horft er lengra fram í tímann.“ - Ertu sammála mörgum íbúum Vesturgötu um að þar eigi að vera einstefna? „Ég held að það sé alltaf ástæða til hlusta á sjónarmið íbúa varðandi einstefnuakstur og þess háttar og taka mið af óskum þeirra þegar unnt er. Umferðin um Vesturgötu er auðvitað mikil og áhyggjur íbúa skiljanleg- ar í því ljósi. Borgaryfirvöld verða hins veg- ar að taka mið af fleiri þáttum sem lúta að heildarskipulagi umferðarmála á viðkom- andi svæði. Einstefnuakstur um eina götu hefur auðvitað áhrif á umferð um næstu götur, umferðarhraða og þess háttar og ég hef ekki forsendur til að meta hvort ein- stefna á Vesturgötu sé endilega rétta leiðin í því ljósi.“ - Þegar (eða ef) flugvöllurinn í Vatnsmýr- inni hverfur, á þar að rísa eingöngu íbúða- byggð, eða hvernig sérðu fyrir þér uppbygg- inguna. Hvernig er hagkvæmast að tengja framtíðarbyggð í Vatnsmýrinni byggðinni í miðbænum, þ.e. Kvosinni? „Flugvöllurinn mun fara á endanum en ég tel ekki raunsætt að vænta þess að það gerist á allra næstu árum. Þegar hann fer er hins vegar mikilvægt að fyrir liggi skýrar hugmyndir um nýtingu svæðisins. Þetta er stórt svæði sem býður upp á marga mögu- leika persónulega get ég séð fyrir mér stækkun Háskólasvæðisins út frá núver- andi svæði skólans og íbúðarbyggð út frá núverandi byggð í Skerjafirði og á austur- hluta svæðisins. Mér finnst mikilvægt að varðveita Öskuhlíð og Nauthólsvík sem úti- vistarsvæði og sama skapi þætti mér æski- legt að hægt væri að byggja upp miðbæjar- starfsemi í sem bestum tengslum við Kvos- ina. Breikkun Hringbrautar auðveldar það ekki en mér finnst mikilvægt að finna ein- hverja lausn í því sambandi.“ - Er rétt að úthluta KR því svæði sem nú standa skemmur SÍF á? Ef ekki hvernig sérðu fyrir þér framtíðaruppbyggingu fyrir KR? „KR gegnir gríðarlega mikilvægu hlut- verki fyrir okkur Vesturbæinga, ekki síst börnin og unglingana, og nauðsynlegt að félagið hafi svigrúm til frekari uppbygging- ar. Það liggur beint við að skoða SÍF-lóðina í því sambandi, en það hafa líka komið fram athyglisverðar hugmyndir um land- fyllingar út frá Skjólunum, þar sem hugsan- lega væri hægt að koma upp æfingaað- stöðu fyrir félagið. Byggðin í Vesturbænum er afar þétt og því er mikilvægt að skoða nýjar lausnir af þessu tagi til að tryggja KR nauðsynlegt svigrúm. Borgin þarf að taka tillit til óska félagsins í því sambandi og jafnframt er samráð við íbúa viðkomandi svæða nauðsynlegt.“ - Hefur þú trú á að það sé rétt stefna að opna þjónustumiðstöðvar í hverfum Reykja- víkur, eins og t.d. Vesturgarð við Hjarðar- haga? Hverjum þjóna þessar hverfismið- stöðvar helst? „Ég tel að það geti verið skynsamlegt að samræma þjónustu borgarinnar í einstök- um hverfum innan þjónustumiðstöðva. Það er jákvætt í sjálfu sér að færa þjónust- una nær borgarbúum og bjóða upp á fjöl- þætta þjónustu á sama stað. Það sem verð- ur að passa í þessu sambandi er það að raunveruleg hagræðing eigi sér stað og þjónustumiðstöðvarnar verði ekki bara viðbót við borgarkerfið, því það getur bæði aukið kostnað og búið til enn einn millilið milli borgarans og þeirra sem taka ákvarð- anir innan kerfisins.“ - Sem þingmaður Reykjavíkur og Vestur- bæjar, hvernig þjónar þú best íbúum þess svæðis? „Verkefni mín á þingi eru yfirleitt þess eðlis, að þau snerta landsmenn óháð bú- setu. Það á bæði við lagasetningu þingsins almennt en líka þau verkefni sem ég hef helst sinnt, sem eru mest á sviði efnahags- og skattamála annars vegar og réttarfars- og stjórnskipunarmála hins vegar. Þar af leiðandi er ég ekki mikið í kjördæmapoti. Það er helst á sviði samgöngumála sem við þingmenn Reykjavíkur þurfum að vera á vaktinni. Í því sambandi má nefna að sú ákvörðun að ráðstafa hluta af söluandvirði Símans til Sundabrautar er jákvætt mál,“ segir Birgir Ámannsson, þingmaður Sjálf- stæðisflokksins. ■ Þingmenn búsettir í Vesturbænum sitja fyrir svörum Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar . Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

x

Vesturbæjarblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vesturbæjarblaðið
https://timarit.is/publication/1114

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.