Austurland - 19.09.2013, Síða 10
10 19. september 2013
Íþrótt þar sem börn og fullorðnir sameinast
Í tilefni af því að blaðið Austurland fjallar nokkuð um íþróttalíf á Austurlandi
var ákveðið að taka Díönu Mjöll Sveinsdóttur tali en hún hefur verið áberandi í
íþróttalífi í fjórðungnum og meðal annars skipulagt Götuþríþraut á Eskifirði.
Þú hefur skipulagt Götuþríþraut á
Eskifirði um sjómannadagshelgina
undanfarin ár. Hvenær hófst þetta og
hvers vegna var ákveðið að stofna til
þríþrautar hér á Austurlandi?
Aðdragandi þríþrautarinnar er sá
að eftir að ég eignaðist börn fannst
mér alltaf vanta að börn og fullorðn-
ir gætu tekið þátt í keppni saman
og átt góðar samverustundir við að
undirbúa sig og æfa fyrir þá keppni.
Ég æfði sund þegar ég var yngri og
var búin að hugsa um að reyna að
starta einhverju í þeirri grein. Það
atvikaðist svo þannig að ég fór með
nokkrum félögum mínum og tók
þátt í þríþraut í London árin 2007
og 2008 og í framhaldi af því sá ég að
þetta gæti verið það sem ég væri að
leita að. Þríþraut gengur út á sund,
hjól og hlaup en það eru íþróttir sem
henta fjölskyldum mjög vel og ekki
er mikill kostnaður við æfingar eða
kaup á græjum.
Ég viðraði þessa hugmynd óspart
við fólk í kringum mig og árið 2010
réðumst við í þetta ég og vinkona
mín Jóhanna Kristín Malmquist
ásamt fleiru flottu fólki í kringum
okkur. Það þarf nefnilega töluvert
af fólki til að halda utan um svona
keppni og eiga allir sem hafa komið
að þessu, í algjörri sjálfboðavinnu
í gegnum tíðina, ofsalega miklar
þakkir skildar fyrir það.
Við völdum sjómannadagshelgina
af því að þá er margt annað um að
vera á Eskifirði og kannski gætu
keppendur sem kæmu að, því þetta
var hugsað stórt, notið þeirra við-
burða líka, eins og að fara í siglingu
á togara, fylgjast með kappróðri og
enda jafnvel á dansleik.
Hefur þátttakan verið góð?
Telurðu að Götuþríþrautin sé kom-
in til að vera?
Þátttakan hefur verið algjörlega
frábær og hefur okkar helsta áskor-
un verið að halda utan um tímatök-
una, því sumir eru í þessu af meiri
alvöru en aðrir og þá er gaman að
geta gefið upp millitíma, þ.e. hve
lengi verið er að synda, hjóla og
hlaupa og skipta á milli greina. Það
hefur gengið ótrúlega vel hjá okkur
og hafa keppendur sýnt okkur mik-
inn skilning þegar við höfum verið
í því púsluspili.
Gaman er að leyfa nöfnum og
tímum methafanna okkar að fylgja
svo þeir sem vilja slá þau út, viti að
hverju þeir eigi að stefna:
Stúlkur 7-13 ára, Svanhildur Sól
Sigurbjarnardóttir, 01:16:12, met
2012
Drengir 7-13 ára, Mikael Máni
Freysson, 00:54:56, met 2011
Lið barna 7-13 ára, Erla, Hrafn-
kell, Elís, 00:49:51, met 2012
Konur 14-25 ára, Silja Hrönn
Sigurðardóttir, 01:51:09, met 2012
Karlar 14-25 ára, Mikael Máni
Freysson, 01:46:10, met 2013
Konur 25 ára+, Lillý Viðarsdóttir,
01:28:36, met 2012
Karlar 25 ára+, Stefán Viðar Sig-
tryggsson, 01:11:37, met 2011
Lið fullorðinna 14 ára+, Hilmar,
Sigurður, Jón – SóknINNI, 01:22:26,
met 2012
Keppendurnir hafa þessi 4 ár
verið alveg stórkostlegir og hafa
þeir verið á öllum aldri, komið alls
staðar að af Austurlandi og lengra
að. Við höfum verið með fólk sem
hefur tekið þátt í Járnkarli en það
er mesta áskorunin í þríþraut þar
sem syntir eru 3,8 km., hjólaðir eru
180 km. og hlaupið er heilt mara-
þon og við höfum verið með 6 ára
keppanda og upp í 67 ára og allt þar
á milli. Við höfum alltaf aukið við
okkur keppendafjölda á milli ára og
markmiðið er að halda því áfram. Í
fyrra voru keppendurnir 63. Það er
því áskorun að fjölga þeim á næsta
ári, en þá höldum við uppá 5 ára
afmæli þríþrautarinnar og ætlum að
fagna því með því að bæta við einni
vegalengd sem ég veit að margir hafa
beðið eftir. Undanfarin ár höfum
við verið með 2 vegalengdir, annars
vegar Super Sprint, sem er barna-
flokkur og samanstendur af 400 m
sundi, 10 km hjólreiðum og 2,5 km
hlaupi og hins vegar Sprint sem er
fullorðinsflokkur og samanstendur
af 750 m sundi, 20 km hjólreiðum
og 5 km hlaupi. Í liðakeppni barna
má vera einn fullorðinn í liðinu en
það er helst sundið sem hefur vafist
fyrir þeim allra yngstu. Í liðakeppni
fullorðinna mega 2-3 taka þátt. Á
næsta ári bætum við svo ólympískri
vegalengd við, en þar er sundið 1500
m., hjólið 40 km. og hlaupið 10 km.
Það verður spennandi að takast á við
það og hvetjum við fólk til að fara
strax að æfa. Draumurinn er svo að
í framtíðinni verði þessi vegalengd
synt í sjónum.
Þeir sem taka þátt í liðakeppni
eru ekki bara fjölskyldur, einnig
vinahópar og vinnuhópar og það er
svo dásamlegt að sjá fólk undirbúa
sig saman fyrir keppnina og heyra
sögurnar um hvernig hafi gengið og
hvernig fólk hafi hvatt hvert ann-
að áfram. Á þessu ári fengum við
í fyrsta sinn lið fermingarárganga
sem voru komnir á Eskifjörð til að
fagna afmælum. Mér finnst samt
alltaf skemmtilegast að sjá yngstu
krakkana taka þátt. Þau eru svo
ótrúlega dugleg og þeim finnst þetta
svo gaman. Ég veit ekki til þess að
það sé nein önnur svona keppni á
landinu þar sem börn og fullorðnir
keppa á sama tíma og varð einum
keppanda á orði í ár að það væri
stórkostlegt að fá að taka þátt við
hliðina á börnunum og vera þeim
fyrirmynd inn í framtíðina.
Við höfum verið ótrúlega heppin
með styrktaraðila þessi fjögur ár
sem við höfum verið með keppnina
en það er auðvitað alltaf kostnaður
sem fellur til við auglýsingar, kaup
á verðlaunagripum og öðru og kunn-
um við þeim öllum miklar þakkir
fyrir. Þátttökugjald keppenda hef-
ur undanfarin ár runnið til styrkt-
ar unglingastarfi á Austurlandi,
Kuldabola á Reyðarfirði annars
vegar og landsmóts unglingadeilda
björgunarsveitanna sem haldið var á
Norðfirði hins vegar. Þannig ætlum
við að halda því í framtíðinni.
Þeir sem vilja fylgjast með því
sem við erum að gera geta bæði farið
inn á heimasíðuna okkar www.gotu3.
com og einnig fylgt okkur á facebook,
undir Götuþríþraut.
Þú ert einnig viðloðandi aðra
íþróttastarfsemi. Segðu aðeins frá því:
Ég hef verið viðloðandi ket-
ilbjölluþjálfun sem er ótrúlega
skemmtileg líkamsrækt. Við feng-
um frábæran kennara austur fyrir
nokkrum árum síðan þar sem við
lærðum til leiðbeinanda og síðan
þá höfum við verið með námskeið
á Eskifirði. Þetta eru frábærir tím-
ar þar sem við leggjum mikið upp
úr því að hafa gaman og styrkjast í
leiðinni. Það er gaman að segja frá
því að þar sem við erum konur sem
þjálfum þá hafa nánast eingöngu
konur sótt tímana og auglýsum við
hér með eftir karlmönnum sem þora
að láta sjá sig í kvennaveldinu. Við
höfum verið með tímana bæði inni
og úti og farið í sjósund í leiðinni
en það er ótrúlega magnað. Núna
erum við með tíma þrisvar í viku í
íþróttahúsinu á Eskifirði.
Íþróttastarf er þó ekki þitt aðal-
starf eða hvað. Við hvað fæstu dags
daglega?
Nei, mitt aðalstarf er hjá Tanna
Travel þar sem ég starfa sem mark-
aðsstjóri. Tanni Travel er ferða-
skrifstofa á Eskifirði og rekur eig-
in hópbifreiðar. Við bjóðum upp
á heildarlausnir fyrir hópa. Við
skipuleggjum ferðir um allt Ísland
en sérhæfum okkur í Austurlandi
og leggjum metnað okkar í að koma
til móts við óskir viðskiptavinarins
með persónulegri ráðgjöf og þjón-
ustu. Við leggjum okkur fram við að
sinna svæðinu okkar eins vel og við
getum sem og að fá ferðamenn til að
koma og heimsækja okkur.
Það sem við erum að vinna að
núna er verkefnið „Meet the Locals“
eða „Hittu heimamanninn“, sem
miðar að því að ferðamenn komi til
Austurlands sem gestir en fari sem
vinir. Það er mjög skemmtilegt og
gaman að takast á við það og ef það
eru áhugasamir ferðaþjónustuaðilar
sem hafa áhuga á að taka þátt í því
verkefni þá er um að gera að hafa
samband við okkur.
Tanni Travel fagnar 20 ára starfs-
afmæli í ár og erum við afskaplega
þakklát fyrir þau viðskipti sem Aust-
firðingar og aðrir hafa átt við okkur
í gegnum árin og vonum að saman
getum við skapað áframhaldandi
samstarf í ferðalögum og verðmæta-
sköpun fyrir fjórðunginn a
tekið á Í útitíma hjá Díönu Mjöll
feðgar taka Sprettinn í þríþrautinni