Ský - 01.02.2008, Side 48
4 ský | 1. tbl. 2008
Í tvo mánuði í vetur stóð yfir ljósmynda- og gjörningasýningin ,,För hersins“ í Þjóðarbókhlöðunni. Þar voru meðal annars til sýnis ljósmyndir sem Sólveig Dagmar Þórisdóttir tók á varnarsvæðinu og öryggissvæðinu á Miðnesheiði - svo sem af
flugskýlum fyrir F-15 orrustuþotur, sprengjugeymslum og stærsta
flugskýli landsins. Þá voru fjórir strigar í sýningarrýminu þar sem gestir
og gangandi gátu skrifað hugleiðingar sínar um veru og för hersins.
Á meðal setninga sem voru á strigunum þegar blaðamaður
staldraði við í Þjóðarbókhlöðunni var: ,,Langafi minn var hermaður.“
,,Erlendsson. Hermannsson.“ ,,Bye, bye Yankees. The Russians are
coming.“ ,,NATO er hrunið og svo má einnig fullyrða um EES og
ESB.“ ,,Við erum frjáls.“
Eldfimt efni
Fyrir utan að hafa starfað lengi sem myndlistarmaður og grafískur
hönnuður hefur Sólveig Dagmar starfað sem fararstjóri í rúman
áratug og þá aðallega innanlands. Hún var einmitt fararstjóri á Ítalíu
þegar hún skoðaði ,,hús Júlíu“ - Júlíu hans Rómeós - í Veróna. Þar er
almenningslistaverk þar sem fólk getur tjáð sig með skrifum sínum
um þann sem það elskar. Þá fékk Sólveig Dagmar þá hugmynd að gera
tilraun til að gera almenningslistaverk heima á Íslandi en biðja þar um
tjáningu um veru og för hersins. Þessa hugmynd notaði hún í tengslum
við lokaverkefni sitt í MA-námi í hagnýtri menningarmiðlun við
hugvísindadeild Háskóla Íslands.
Sýningin ,,För hersins“ var liður í
lokaverkefni Sólveigar Dagmarar
Þórisdóttur myndlistarkonu,
í MA-námi hennar í hagnýtri
menningarmiðlun við Háskóla
Íslands. Á sýningunni gafst fólki
kostur á að tjá sig um veru og för
varnarliðsins og sjá og fræðast um
byggingar þær sem eftir standa á
Miðnesheiði. Myndlist og hönnun
hefur verið rauður þráður í lífi
listakonunnar sem segir að það
að geta miðlað til fólks gefi sér
lífsfyllingu, ánægju og gleði.
Sólveig Dagmar Þórisdóttir. ,,Ég fór þá djörfu leið að fjalla um hið viðkvæma efni sem herinn er.“
Speglun þjóðfélagsins
Texti: Svava Jónsdóttir
Myndir: Geir Ólafsson o.fl.