Morgunblaðið - 04.02.2015, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 04.02.2015, Blaðsíða 22
22 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 4. FEBRÚAR 2015 Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/ Hinn 24.aprílnæst- komandi verður þess minnst að þá verða eitt hundrað ár liðin frá upphafi þeirra atburða sem nefndir hafa verið þjóðarmorð Ot- tómanaveldisins á Armen- um. Upp undir ein og hálf milljón manna lést þá í skipulögðum ofsóknum á árabilinu frá 1915 til 1923 og hundruð þúsunda til við- bótar voru neydd til þess að yfirgefa heimili sín og flutt nauðungarflutningum til svæðisins fyrir botni Mið- jarðarhafs, þar sem nú eru Írak og Sýrland. Þegar þangað var komið var þeim sem lifðu af gönguna komið fyrir í fangabúðum. Armen- ar dreifðust um heiminn og búa nú nærri því átta af hverjum tíu Armenum utan heimalandsins. Þessir atburðir fóru ekki mjög leynt á þeim tíma. Í ís- lenskum dagblöðum má lesa frásagnir frá sjónarvottum um hina ólýsanlegu grimmd Tyrkja og Kúrda gagnvart Armenunum og vitað er að til dæmis sendiherra Bandaríkjanna í Ottó- manaveldinu sendi svartar skýrslur til Washington um ástandið. En í miðju heims- stríði hafði heimsbyggðin hvorki getu né vilja til þess að láta sig málið nokkru varða og að stríði loknu féllu voðaverkin fljótt í þagnargildi. Tyrkir hafa alla tíð neitað því að þessar skelfilegu hörmungar falli undir skil- greininguna á þjóðarmorði. Mótbára þeirra er sú að ekki hafi verið um skipu- lagðar aðgerðir Ottómana- veldisins að ræða, heldur hafi Armenar gengið í lið með rússneskum innrásar- her og því hafi verið um eðlilegt mannfall af völdum stríðsins að ræða. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti því reynd- ar yfir í lok janúar að Tyrk- ir væru tilbúnir til að taka á sig ábyrgð, ef sagnfræð- ingar teldu sig geta sannað hana svo óyggjandi væri. Fólst þó í orðum hans mikill efi um að sú væri raunin. Armenska þjóðarmorðið snertir alla heimsbyggðina. Á meðan Tyrkir komast upp með að afneita þessum dökka kafla í fortíð sinni er lítil von til þess að hægt verði að koma í veg fyrir viðlíka atburði í framtíðinni. „Hver man eft- ir Armenunum?“ spurði Hitler hershöfðingja sína stuttu fyrir upphaf síðari heimsstyrjaldar og rétt- lætti þannig þau voðaverk sem Þjóðverjar áttu eftir að fremja. Og sagan hefur end- urtekið sig víðar. Í Rúanda, í Kambódíu, í Darfúr- héraði, í Srebrenica. Í öllum þessum tilfellum og fleiri var heimsbyggðin sein til aðgerða, jafnvel löngu eftir að ljóst var hvað væri á ferðinni. Stundum nær réttlætið að ganga fram seint og um síð- ir, líkt og í tilfelli Srebre- nica, þar sem sérstakur dómstóll í málefnum Júgó- slavíu staðfesti í síðustu viku dóma yfir fjórum hátt- settum liðsforingjum Bosn- íu-Serba og dæmdi tvo þeirra fyrir þjóðarmorð. En línan á milli getur verið óljós, sem sést á því að sami dómstóll sýknaði í gær bæði Króata og Serba af ásök- unum um að hafa skipulagt þjóðarmorð á hinum, þrátt fyrir að hvorir tveggja hafi unnið ótrúleg ofbeldisverk í skjóli borgarastríðsins. Á aldarafmæli voðaverk- anna í Armeníu gefst heimsbyggðinni einstakt tækifæri til þess að sýna það, að viðlíka atburðir og gerðust í Tyrklandi fyrir eitt hundrað árum verði ekki liðnir, með því að við- urkenna það að um þjóðar- morð hafi verið að ræða. 23 þjóðir hafa nú stigið slíkt skref, þar á meðal Svíþjóð, Frakkland og Þýskaland. Að auki hafa Evrópuþingið, Evrópuráðið og 43 af ríkj- um Bandaríkjanna gert hið sama, auk fleiri alþjóða- samtaka. Með slíkri viðurkenningu er ekki verið að krefja Tyrki nútímans um skulda- skil á syndum feðranna, heldur er eingöngu verið að veita fórnarlömbunum þann virðingarvott að þegja ekki lengur um glæpinn. Það er löngu kominn tími til að heimsbyggðin sýni það að hún man eftir Armenunum. Nær öld er liðin frá einu mesta ódæði 20. aldar} Þjóðarmorð í þagnargildi Í þá daga þegar allir blogguðu eða lang- aði til að blogga tóku íslenskir femín- istar sig saman um að blogga á hinu svonefnda Moggabloggi, enda blasti við að umræða á netinu yrði annars undirlögð af körlum, eða í það minnsta umræða á Moggablogginu sem varð fljótlega áberandi vettvangur umræðu á netinu. Eitt af því sem konur í þeirra hópi fundu svo snemma fyrir var að athugasemdir sem þær fengu á síðum sínum voru harkalegri og hranalegri en þegar karlar skrifuðu um sama mál. Þetta hljómar kannski ósennilega, jafnvel fá- ránlega, en það var staðreynd engu að síður og er enn eins og hver sá getur séð sem nennir að skoða umræður á til að mynda Fésbók þar sem konur tjá sig um femínísk efni. Víst fá karlar á baukinn sem hætta sér út í þá umræðu, en þeim eru ekki valin eins slæm orð og, einkennilegt en satt, þeim er aldrei hótað nauðgunum eða annarri kynferð- islegri misbeitingu eins og brenna vill við þegar konur eiga í hlut (og virkir í athugasemdum eru karlar). Eitt af því sem netvæðing fjölmiðla átti að bera með sér var gagnvirkni, þ.e. að lesendur frétta gætu rætt um þær, komið athugasemdum á framfæri eða leiðréttingum og jafnvel með ábendingar um fréttaefni. Annað kom á dag- inn, eins og flestir þekkja, því ekki var bara að fæstir hafa áhuga á að taka þátt í netumræðu almennt, heldur eru þeir sem áhuga hafa og nennu oftar en ekki þeir sem mað- ur vill helst ekki heyra frá. Hvað veldur er erfitt að segja; af hverju þarf fjölmiðill eins og breska blaðið The Gu- ardian, til að mynda, að hafa á annan tug starfsmanna í því verki einu að lesa yfir at- hugasemdir lesenda á vefútgáfu blaðsins og sigta út svívirðingar, hommahatur, kynþátta- níð og kvenfyrirlitningu? Sumir miðlar, til að mynda Twitter, láta það vera að skipta sér af hroða, nema þegar þeim er bent á hann, og bera við að tístin séu svo mörg, um 500.000.000 á dag, að illt sé við að eiga. Þessu hafa konur fengið að kenna á öðrum fremur eins og bandaríski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Lindy West lýsti í vefútgáfu Guardian í fyrradag, en hún fékk yfir sig gusu af viðurstyggilegum hótunum fyrir það að gera athugasemdir við nauðgunarbrandara skemmtikrafta. Fjölmargir þeirra sem tístu um hana hótuðu henni nauðgun, eða hæddu hana fyrir að vera svo ljót eða feit að enginn vildi nauðga henni, en ýms- ir hótuðu líka að myrða hana, limlesta eða pynta á hrotta- legan hátt. Eins og West rekur söguna er lykilatriði fyrir þær fjöl- mörgu konur sem verða fyrir slíkum árásum að svara þeim aldrei eða kveinka sér undan þeim opinberlega. Svo fór þó að hún komst í samband við einn hatursmanna sinna og gat spurt hvað honum gengi til. Hann átti erfitt með að svara en útúr öllu saman mátti eiginlega lesa að hann hataði hana vegna þess að hún hataði sig ekki sjálf. arnim@mbl.is Árni Matthíasson Pistill Um virka í athugasemdum STOFNAÐ 1913 Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík. Ritstjóri: Davíð Oddsson Aðstoðarritstjóri: Karl Blöndal Ritstjóri og framkvæmdastjóri: Haraldur Johannessen SVIÐSLJÓS Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Sykursýki er vaxandi vanda-mál meðal eldra fólks oggetur verið ein af ástæð-unum fyrir flutningi á hjúkrunarheimili. Íbúar með syk- ursýki á hjúkrunarheimilum eru yngri og betur á sig komnir andlega en aðrir íbúar, en margþætt heilsu- farsvandamál fylgja sykursýki aldr- aðra og verði ekkert að gert getur tíðnin aukist enn frekar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn tveggja ís- lenskra hjúkrunarfræðinga og birt- ast niðurstöðurnar í nýjasta Lækna- blaðinu. Hjúkrunarfræðingarnir Ingi- björg Hjaltadóttir og Árún Kristín Sigurðardóttir gerðu rannsókn á heilsufari íbúa á hjúkrunarheimilum hér á landi á árabilinu 2003-2012. Þar kom m.a. fram að hlutfall íbúa á hjúkrunarheimilum sem eru með sjúkdómsgreininguna sykursýki hef- ur hækkað úr 10,3% í 14,2% á tíu ár- um. Ekki er greint á milli þess hvort um er að ræða sykursýki 1 eða 2, en síðarnefnda gerðin kemur m.a. frek- ar fram hjá þeim sem eru of þungir og líkamsþyngdarstuðull íbúa með sykursýki var hærri en hinna. Neikvæð þróun Í grein þeirra Ingibjargar og Árúnar í Læknablaðinu segir m.a. að brýnt sé að koma í veg fyrir þróun á sykursýki 2 hvenær sem er á ævi- skeiðinu. Bættar lífslíkur ásamt auk- inni ofþyngd almennings á Íslandi munu líklega leiða til þess að algengi sykursýki á hjúkrunarheimilum heldur áfram að aukast í framtíðinni. „Vitundarvakning þarf að eiga sér stað á Íslandi til að finna leiðir til að draga úr ofþyngd og offitu, þar þarf að ná til almennings og fá matvæla- iðnaðinn til að auka framboð á holl- um mat og skyndibita,“ segir í grein- inni. „Sykursýki hefur aukist í samfélaginu og þá gerist það líka á hjúkrunarheimilum,“ segir Ingi- björg. Nota fleiri lyf Annað sem rannsóknin leiddi í ljós var að fjöllyfjanotkun, þ.e. þegar fólk notar fleiri en fimm lyf að stað- aldri, er algengari hjá sykursjúkum íbúum hjúkrunarheimila og eykur það hættu á ýmsum aukaverkunum. Ingibjörg segir að erlendar rann- sóknir sýni að íbúar með sykursýki noti fleiri lyf, eða 10,9 lyf að með- altali, borið saman við íbúa án syk- ursýki, sem nota 8,4 lyf að meðaltali. Sérsniðin umönnun Hún segir sykursjúka á hjúkr- unarheimilum þunga í umönnun, því líkamleg heilsa þeirra sé lakari en jafnaldra þeirra sem ekki séu með sykursýki, t.d. séu háþrýstingur, hjartasjúkdómar, nýrnabilanir og of- læti/þunglyndi algengara meðal syk- ursjúkra. Sérsníða þarf umönnunina að hverjum og einum, en á móti hafi þeir betri vitræna getu en aðrir íbúar hjúkrunarheimilanna. „Þess vegna er t.d. þörf á annars konar afþrey- ingu fyrir þennan hóp,“ segir Ingi- björg. Ýmsum spurningum er ósvar- að um þarfir þessa hóps og því þörf á frekari rannsóknum þar sem m.a. meðferð er skoðuð, að mati Ingi- bjargar. „Ef hægt er að fækka þeim sem þróa með sér sykursýki af tegund 2 er möguleiki að fækka yngri íbúum á öldrunarstofnunum,“ segir Ingibjörg og bendir á að ríkið greiði tæplega níu milljónir á ári fyrir hvern ein- stakling á hjúkrunarheimili. „Hvert ár sem einstaklingur dvelur á hjúkr- unarheimili er dýrt fyrir sam- félagið.“ Sykursýki aldraðra fylgir ýmis vandi Morgunblaðið/Eggert Hjúkrunarheimili Rannsókn Ingibjargar og Árúnar leiddi í ljós fjölgun sykursjúkra á hjúkrunarheimilum. Margir þeirra þurfa sérhæfða umönnun. Sykursýki er sjúkdómur, sem veldur því að sykur úr fæðunni kemst ekki inn í frumurnar vegna skorts á hormóninu insúl- íni og því helst sykurinn í blóð- rásinni. Til eru tvö afbrigði af sykur- sýki. Annars vegar tegund 1, sem er insúlínháð sykursýki, en þá framleiðir brisið ekki insúlín. Hún er algengari hjá ungu fólki og börnum. Hins vegar er teg- und 2, insúlínóháð sykursýki sem stundum er nefnd áunnin sykursýki. Þá framleiðir brisið insúlín, en ekki í nægilega miklu magni. Þessi tegund er algeng- ari hjá eldra fólki. Tíðni hennar hefur aukist víða um heim und- anfarna áratugi og hefur sykur- sýki 2 stundum verið kölluð sjúkdómur 21. aldarinnar af þeim sökum. Báðar tegundir sykursýki eru ættgengar, að því er fram kemur á vefsíðum Fé- lags sykursjúkra og Landspít- alans. Sjúkdómur 21. aldar TVÆR TEGUNDIR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.