Húnavaka - 01.05.1983, Page 93
HÚNAVAKA
91
yrði mönnum með geðsjúkdóma. Þess galt hann. Þó margir aumkuð-
ust yfir hann og vildu rétta honum hjálparhönd, naut hann þess ekki
vegna mannfælni, tortryggni og eirðarleysis.
Svo illa tókst til um handrit hans, að þau fóru ólesin í eldinn. Áður
en ég vissi af höfðu stúlkurnar brennt skjóðurnar eftir að hafa leitað að
peningum í þeim. Þótti mér þetta allillt, því þó ég byggist ekki við að á
þeim væri mikið að græða fræðilega, var mér forvitni á að kynnast
rithönd hans, stafsetningu og stíl.
Hann talaði vandað alþýðumál, laust við öll slanguryrði, enda hafði
hann ekki komist í kynni við gelgjuómenningu sjávarþorpa og kaup-
staða, þar sem danskra áhrifa gætti mjög um hans daga.
Nálægt 30 árum tróð Jóhann beri stafkarlastigu, tötralegur og
hálfnakinn, sárþjáður af sinnisveiki, lá tímunum saman úti á heiðum
og öræfum, þegar hann fór á milli landsfjórðunga, soltinn og kaldur.
Mál var honum orðið á hvíldinni.
Skrifað 1954.
*
MINNING ÚR SKRAPATUNGURÉTT
Einhverju sinni var það er fjárdrætti var lokið i Skrapatungurétt og menn vildu fara
að reka fé sitt heim, að Þórarinn á Skúfi og Þorbjörn á Geitaskarði urðu eigi á eitt
sáttir um hvor skyldi reka út fyrr. Upphófst allhörð orðasenna á milli þeirra, því báðir
voru skapmenn nokkrir. Stóð svo alllanga hríð að hvorugur vildi vægja, þar til allt í
einu að Þórarinn segir. „Sá verður að vægja sem vitið hefur meira, það er best að þú
farir á undan.“ Glöggt mátti sjá að Þorbirni féll þetta tilsvar bölvanlega, og hefði
jafnvel frekar viljað vægja sjálfur. Þá kvað Þórarinn þessa vísu er Þorbjörn var að reka
í Laxá.
Hún er hvít á hröfnunum
hýjan undir fjöðrunum.
En sumir eru í sinninu
svartir undir skinninu.
Jónas B. Hafsteinsson, Njálsstöðum.