Morgunblaðið - 17.06.2015, Qupperneq 22

Morgunblaðið - 17.06.2015, Qupperneq 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. JÚNÍ 2015 Elsku frænka mín, Helga Magnús- dóttir, er látin eftir harða baráttu við krabbamein. Þó að við Helga værum systra/systkina- börn, leit ég frekar á hana sem stóru systur mína en frænku. Hún var hluti af tilveru minni frá því ég fæddist. Helga var aðeins þriggja ára gömul þegar pabbi hennar lést. Flutti hún þá ásamt móður sinni og tveimur systkinum til ömmu og afa, en þá bjó pabbi minn ennþá í foreldrahúsum. Hún sagði mér að hún hefði alltaf litið á pabba minn sem hálfgerðan pabba sinn og að gott hefði verið sækja stuðning og ráðleggingar til hans og mömmu. Þegar Helga og Þórður giftu sig leiddi pabbi minn hana upp að alt- arinu. Þau bjuggu um tíma hjá okkur á Hlíðarveginum áður en þau fluttu til Njarðvíkur, en þá voru Olga Björt og Kristján Ingi fædd. Það hefur alltaf verið mikill samgangur á milli fjölskyldna okkar. Þegar þau voru í bæjarferð þá var gjarnan komið við á Hlíð- arveginum og eins heimsóttum við þau oft til Njarðvíkur. Helga og Þórður voru svo sannarlega höfð- ingjar heim að sækja. Það var ekki sjaldgæft að við færum til Njarð- víkur í kaffi en enduðum svo einn- ig í kvöldmat. Þá var glatt á hjalla, mikið spjallað og hlegið. Oft var okkur boðið til þeirra á gamlárs- kvöld og það var hjá Helgu og Þórði sem ég smakkaði kalkún í fyrsta skipti. Ég á dýrmætar minningar frá samverustundum okkar Helgu þegar ég fékk að dvelja hjá fjölskyldunni um tíma eitt sumarið eftir að skóla lauk. Helga kenndi mér þá meðal ann- ars ýmis spil og hún virtist hafa endalausan tíma til að sinna litlu fræknu sinni. Þessum gæðastund- um gleymi ég aldrei. Eftir að foreldrar mínir létust héldum við áfram góðu sambandi og kom Helga oft við hjá okkur til Helga Magnúsdóttir ✝ Helga Magnús-dóttir fæddist 24. október 1942. Hún lést 5. júní 2015. Útför Helgu fór fram 15. júní. að spjalla ef hún var innfrá, eins og hún kallaði það. Það hef- ur alltaf verið gaman að heimsækja Helgu, Þórð og börnin, bæði heim til þeirra og ekki síður í fallega bústaðinn í Borgarfirðinum. Alltaf hefur okkur verið vel tekið og við knúsuð í bak og fyr- ir. Hún bar alltaf mikla umhyggju fyrir mér og minni fjölskyldu og fylgdist með því hvernig gengi hjá okkur. Hún fylgdist vel með strákunum mínum og gladdist yfir því þegar vel gekk hjá þeim. Eldri sonur minn sagði við mig, eftir að Helga lést, að hann hefði alltaf hálfpartinn litið á Helgu og Þórð sem ömmu og afa. Í ágúst í fyrra heimsóttum við Helgu og Þórð í bústaðinn þeirra og áttum með þeim skemmtilega stund. Helga leit þá mjög vel út og ekki datt mér í hug að hún ætti stuttu seinna eftir að greinast aft- ur með þennan vágest sem krabbameinið er. Ég heyrði í henni ekki fyrir löngu og þá var greinilegt að henni leið ekki vel. Hún bar sig þó ótrúlega vel eins og alltaf. Elsku Þórður, Olga, Kristján og Imba, makar og börn, við Helgi, Árni og Ágúst, vottum ykk- ur okkar dýpstu samúð. Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tím- um. Minningin um yndislega eig- inkonu, móður, tengdamóður og ömmu mun lifa með ykkur um ókomin ár. Blessuð sé minning Helgu Magnúsdóttur. Ég á eftir að sakna hennar, en er jafnframt þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hana í lífi mínu í tæp 50 ár. Helga Sigurbjörg Árnadóttir. Þau ljós sem skærast lýsa, þau ljós sem skína glaðast þau bera mesta birtu en brenna líka hraðast og fyrr en okkur uggir fer um þau harður bylur er dauðans dómur fellur og dóm þann enginn skilur. En skinið loga skæra sem skamma stund oss gladdi það kveikti ást og yndi með öllum sem það kvaddi. Þótt burt úr heimi hörðum nú hverfi ljósið bjarta þá situr eftir ylur í okkar mædda hjarta. (Friðrik Guðni Þórleifsson.) Takk fyrir allt, mín kæra móð- ursystir. Elsku Þórður, Olga Björt, Kristján Ingi, Imba og fjölskyld- ur, megi minningin um yndislega konu styrkja ykkur í sorginni. Dagný Hlín Ólafsdóttir. Nákvæmni, skipulagsgáfa, fróðleiksþorsti, áhugi, skyldu- rækni, elskusemi, umhyggja og ættrækni eru meðal þeirra orða sem upp koma í hugann þegar ég minnist elskulegrar mágkonu minnar, Helgu Magnúsdóttur. Kennari var hún af guðs náð og þrátt fyrir að ég hafi ekki á tak- teinum hvers til er ætlast og vænst af góðum kennara, þá finnst mér eðlilegt að flest þessi fyrrgreindu orð gætu verið, og ættu að vera í starfslýsingu allra þeirra sem þá göfugu atvinnu stunda. Við vitum að ekki er öllum gefið að stunda nákvæm vinnu- brögð, hafa skipulag á hlutum, leitast sífellt við að auðga andann með því að afla heimilda og hafa áhuga á því sem maður er að gera og á samferðafólki. Það er heldur ekki öllum gefið að vera skyldu- rækinn og hollur þeim sem verið er að miðla þekkingu til, hvort heldur er frá kennarapúlti eða öðrum lífsins skáborðum, og alls ekki sjálfgefið að það sé gert af elskusemi og umhyggju. Af góð- um kynnum mínum af Helgu held ég að öllum þessum góðu kostum hafi hún verið búin og að auki hafði hún mikinn áhuga á fjöl- skyldu sinni og vinum og þess nut- um við sem tengdumst henni í gegnum Þórð bróður minn. Sem dæmi nefni ég að tölvupóstar frá henni Helgu voru yfirleitt þess eðlis að maður reyndi að vanda sig við að svara. Þeir voru alla jafna efnisríkir og fræðandi og báru með sér að ekki var kastað til höndum. Við leiðarlok er margs er að minnast og mér efst í huga þakk- læti fyrir að hafa kynnst þessari mætu konu og þeim eðliskostum sem hana prýddu. Kæri Þórður. Við Þurý og fjöl- skylda okkar öll sendum þér, Olgu Björtu, Kristjáni Inga, Ingi- björgu, tengdasonum, barnabörn- um og fjölskyldu þinni allri ein- lægar samúðarkveðjur. Í huga okkar er bjart yfir minningu heið- urskonunnar Helgu Magnúsdótt- ur. Óli H. Þórðarson. Haustið 1965 byrjaði stór hóp- ur ungs fólks í Kennaraskóla Ís- lands. Við komum víða að og nokkurt aldursbil var í hópnum þar sem sumir komu beint úr landsprófsbekkjum eða úr 4. bekk gagnfræðanáms þ.e. að segja 16 og 17 ára gömul. Aðrir komu inn með reynslu af vinnumarkaði og voru komnir um og yfir tvítugt þegar þeir hófu nám. Ein úr þeim hópi var Helga Magnúsdóttir sem við minnumst hér. Við vorum heppin að fá hana í bekkinn okkar. Hún var með aðra sýn og aðra reynslu sem hún byrjaði strax að miðla á sinn skemmtilega og kóm- íska hátt. Í bekknum okkar voru 25 stúlk- ur og 5 piltar. Það var oft glatt á hjalla og við hristumst fljótt sam- an og eigum margar góðar og ljúf- ar minningar frá þessum árum. Á öðru ári okkar í Kennó tókum við okkur saman og stofnuðum saumaklúbb. Þar var Helga fremst í flokki. Það var gott að koma í herbergið hennar á efstu hæð á Grettisgötu 6 þar sem Helga bjó ásamt móður sinni. Allt var í röð og reglu og snyrti- mennskan í fyrirrúmi. Við sem útskrifuðumst frá Kennaraskóla Íslands vorið 1969 hittumst að jafnaði á 5 ára fresti. Á þessum tímamótum samdi Helga oft gamanbrag um okkur skólasystkinin sem við sungum saman og veltumst um af hlátri því gamanmálin voru í hávegum höfð á þessum stundum. Það var gleði og gaman vorið sem við útskrifuðumst áður en við héldum út í lífið. Helga fékk kennslustarf á Ísafirði ásamt Hildi bekkjarsystur okkar en þær áttu báðar ættir að rekja til Vest- fjarða. Mörg bréf fóru á milli á þessum árum sem sýnir að þráð- urinn slitnaði aldrei. Helga rækt- aði vináttu sína við samferðafólk og átti því stóran vinahóp sem sí- fellt bættist við. Eftir Ísafjarðarárið kom Helga aftur til Reykjavíkur og kenndi um tíma við Breiðholtsskóla áður en hún flutti til Njarðvíkur með Þórði, manni sínum og tvíburun- um, Kristjáni Inga og Olgu Björt og þar fæddist Ingibjörg. Helga kenndi í áratugi við skólann þar og tók að sér margs konar trúnaðar- störf. Í Kennaraskóla Íslands var lögð rík áhersla á það við okkur að kennsla væri skuldbundið lífsstarf og hve mikilvægt það væri bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið. Helga hafði þetta að leiðarljósi í sínu starfi. Hún naut sín vel á þessum vettvangi og gaf af sjálfri sér bæði til nemenda og sam- starfsfólks. Saumaklúbburinn sem við stofnuðum á öðru ári okk- ar í Kennó hittist enn einu sinni í mánuði. Í september hittumst við skólasysturnar og stóð Helga fyr- ir því að kalla okkur saman. Þetta var í síðasta skipti sem við hittum hana í hópnum okkar. Hún var þá á leið í ferðalag með Þórði. Í fram- haldi af þeirri ferð fór hún í upp- skurð og náði sér ekki eftir það. Þórður og börnin þeirra önnuðust hana fram á síðasta dag og gat hún því að mestu dvalið heima. Við kveðjum heilsteypta konu, vinkonu okkar sem ræktaði garð- inn sinn og hélt miklu og góðu sambandi við allt sitt samferða- fólk. Við erum þakklátar fyrir að hafa átt hana að í hópnum okkar. Dýpstu samúð vottum við Þórði, börnunum og fjölskyldum þeirra. Fyrir hönd bekkjarsystra í Kennaraskóla Íslands, Magnea Ingólfsdóttir. Þrátt fyrir sorg í hjarta vegna andláts kærrar vinkonu fyllist ég gleði um leið og ég rifja upp minn- ingarnar um Helgu. Við urðum strax mátar er við kynntumst átján ára gamlar í gegnum Lauf- eyju systur hennar sem þá var í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Helga fór einnig í þann skóla nokkru seinna því að fyrir rúm- lega hálfri öld var það tíska og þótti kostur hverrar konu að hafa verið í húsmæðraskóla. Helga lét það nám ekki nægja og dreif sig síðan í Kennaraskólann, þar með var framtíðarstarf hennar ráðið. Þrátt fyrir að við værum ekki allt- af á sama landshorninu héldum við sambandi og skrifuðumst á til dæmis á meðan hún starfaði við kennslu á Vestfjörðum. Á þeim tíma var ekki GSM eða sími í hverju húsi. Þegar leiðir okkar beggja lágu aftur til Reykjavíkur tóku við ferðalög og tjaldútilegur á sumrin en skíðaferðir og gömlu dansarnir þegar vetra tók. Svo kom Þórður í spilið þá tók lífið nýjan vinkil. Boð- ið var í brúðkaup og fljótlega var barn á leiðinni sem þau sögðu ekki frá að væru tvö fyrr en þau komu í heiminn. Fjölskyldan flutti til Njarðvíkur, litla systirin bættist í hópinn og við tók annasamt kenn- arastarf. Þrátt fyrir það hafði Helga alltaf tíma til að rækta vin- áttuna og kom manna fyrst til að bjóða hjálp þegar ég þurfti á að halda. Örlæti var svo ríkt í fari hennar að oftast kom hún færandi hendi. Heimboðin í sumarbústað- inn þeirra í Borgarfirði í góðra vina hópi skilja eftir ljúfar minn- ingar þar sem Þórður stóð við grillið og Helga tíndi látlaust meiri kræsingar á borðið. Á seinni árum litu þau hjónin oft inn til okkar á ferðum sínum til Reykja- víkur þá voru þjóðmálin krufin en oftar voru þó uppi gamanmál því að gleði og grín var Helgu aðals- merki. Öll okkar samúð er nú hjá Þórði og fjölskyldu. Ingibjörg Sigfúsdóttir og fjölskylda. Okkur hjónin langar til að skrifa nokkur kveðjuorð til okkar yndislegu vinkonu sem lést sl. fimmtudag eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Við höfum þekkst alveg frá árinu 1965 og Þórð eiginmann hennar frá því þau kynntust. Helga var ótrúleg kona í alla staði alltaf ljúf og góð, talaði aldrei illa um nokkurn mann og var hvers manns hugljúfi. Sam- vera okkar hjóna við þau Þórð jukust mikið þegar Þórður kom í land og hóf störf í Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli árið 1972. Þau fluttu í nágrenni við okkur í Breið- holtið og voru samskipti okkar mikil á þessum árum og var margt brallað. Fljótlega kom í ljós að þau hjón höfðu gaman að því að fara í bústað okkar slökkviliðsmanna og ekki minnkaði samgangur okkar við það og vorum við mjög oft saman í Borgarfirðinum. Þá voru ferðir okkar í Þórsmörk á þessum árum alveg ógleymanlegar. Alltaf var Helga okkar til í tuskið hress og skemmtileg og var mikið hlegið í þessum ferðum og lífið blasti við okkur öllum. Það var svo árið 1998 sem við eignuðumst sumarhúsin okkar í Borgarfirði sem við keypt- um af slökkviliðsmönnum sem setti punktinn yfir þessi kynni okkar. Það var alveg yndislegt að eiga þau sem granna í sveitinni og manni var sko ekki í kot vísað þeg- ar maður kom í Brekkuselið. Það fer nú ekki mikið fyrir innrétting- um þar en það sem hún Helga gat dregið fram og lagt á matar eða kaffiborðið var með hreint ólíkind- um Það var svo að Þórði þótti stundum nóg um og spurði: „Helga, hvar geymirðu allar þess- ar kræsingar?“ og hún svaraði að bragði: „nú í innréttingunni mað- ur“. Svona var hún Helga, sá skemmtilegu hliðar á öllum mál- um. Þá var hún óþreytandi að dunda í kringum húsið snyrta, punta og lagfæra á meðan Þórður tók á stórverkefnunum. Þá voru þau hjónin hrókar alls fagnaðar í brekkunni og þar var Helga sér- staklega natin við að heimsækja fólkið og spjalla um daginn og veginn eins og henni var einni lag- ið. Þá má ekki gleyma Helgu mömmu og ömmu. Helga lagði sig svo sannanlega fram við barna- uppeldið og fer það ekki á milli mála að mikil væntumþykja var milli þeirra allra. Þegar barna- börnin komu í heiminn eitt af öðru var Helga amma stolt af sínu fólki og má svo sannarlega vera það. Það hefur verið okkur hjónum óendanleg ánægja og gleði að fá að njóta samvistar við Helgu og öllu hennar fólki og ég veit að sú vinátta nær út yfir gröf og dauða. Því var það okkur mikil harmaf- rétt að heyra af andláti hennar. Það verður skrítið að koma í sveit- ina og engin Helga. Að lokum vil ég segja að hugur okkar hjóna er hjá fjölskyldu Helgu á þessum erfiðu tímum og viljum við biðja góðan guð að fara mjúkum hönd- um um hjörtu þeirra og vottum þeim öllum okkar dýpstu samúð á þessari kveðjustund. Helga Takk fyrir allt og allt. Brekku eina væna ég veit, verndar drottinn þann reit. Allt hið besta þar blómgast hann lætur. Þar er loftið svo tært, þar er ljósblikið skært. Þar af lynginu er ilmurinn sætur. (Hugrún.) Þínir vinir, Jónas og Björg. Eitt af því dýrmætasta, sem nokkur unglingur getur eignast er traustur og góður vinur. Ég var svo heppin að eignast Helgu að vinkonu þegar ég settist á skóla- bekk í Gagnfræðaskóla verknáms í Brautarholtinu. Það voru aðeins stelpur í bekknum okkar. Ég þekkti enga, en var svo heppin að setjast hjá Helgu Magnúsdóttur. Þegar við Helga komumst að því að við værum báðar að vestan, hún ættuð úr Súgandafirði, ég frá Flateyri urðum við strax góðar vinkonur og hefur sú vinátta hald- ist síðan. Það má segja að Helga hafi haldið í höndina á mér fyrstu dag- ana í skólanum. Ég gleymi aldrei fyrsta ritgerðarefninu okkar í ís- lensku, en það var fegurð Esjunn- ar. Ég þekkti enga Esju, nema strandferðaskipið Esju, en það gat varla verið að það væri átt við það. Þá kom til kasta Helgu að bjarga mér. Helga leiddi mig út að glugga og benti mér á Esjuna. Ekki man ég hvernig mér tókst að bjarga mér út úr þessari ritgerð- arsmíð, en Helga hefur eflaust farið á kostum, eins og hennar var von og vísa. Einu sinni kom Helga vestur til Flateyrar og dvaldi hjá minni fjöl- skyldu yfir páska. Oft höfum við rifjað upp og hlegið, þegar ég fór með stolti að sýna Helgu heima- byggð mína. Við gengum um eyr- ina og alls staðar var flaggað í hálfa stöng. Ég gat ekki sagt Helgu hver væri dáinn, en datt í hug gamall maður sem var orðinn lasburða. Þegar heim kom spurði ég mömmu hvort hún vissi hver væri dáinn. Ég gleymi aldrei svipnum á mömmu þegar hún sagði að við ættum að vita það, gagnfræðaskólastúlkurnar, því það væri föstudagurinn langi. Við Helga flýttum okkur út, en þar gátum við hlegið í næði. Helgu hafði dreymt um að fara í Kennaraskólann, en engir pen- ingar voru til. Þegar að því kom að Helga hafði tækifæri til að setjast á skólabekk aftur, sagði hún mér að hún væri að íhuga að sækja um í Kennaraskólanum. Mikið gladdist ég með henni. Ég var þá að kenna í Kennara- skólanum og þótti mér vænt um að geta farið til doktors Brodda, rektor skólans, og mælt með Helgu og tíundað kosti hennar. Oft hefur Helga þakkað mér fyrir og þykir mér vænt um að hafa stuðlað að því að draumur hennar rættist. Við vorum 24 stelpur sem vor- um saman í bekk í GSV og er Helga sú þriðja sem hverfur úr hópnum. Ég hef heyrt að það sé svolítið sérstakt hvað þessi bekkur hefur haldið hópinn, en það er ekki síst Helgu Magnúsdóttur og Auði Aradóttur að þakka. Við höfum oft borðað saman og á síðasta ári héldum við upp á 55 ára afmælið. Og ekki má gleyma ferðinni 27. maí í fyrra en þá fór Helga með okkur í skoðunarferð um Reykja- nesið. „Þið getið safnast saman á ákveðnum stað á höfuðborgar- svæðinu og fyllt 4-5 bíla, komið heim til mín að Hraunsvegi 12 Ytri-Njarðvík.“ Þannig hljóðaði byrjunin á skipulaginu hjá Helgu. Og til að allt væri fullkomið í ferð- inni var Helga búin að fara ásamt fararstjóra og þræða alla þá staði, sem hana langaði að sýna okkur. Enda varð þessi ferð ógleyman- leg. Það er sagt að maður komi í manns stað en það kemur enginn í Helgu stað. Um leið og ég þakka Helgu vin- áttuna sendi ég Þórði og fjölskyldu innilegar samúð- arkveðjur. Ólöf Soffía (Lóa). Helga var blómakona. Hún lagði mikla rækt við garðinn sinn enda klæddu litir sumarsins hana sérlega vel. Við kenndum saman mörg ár, oft sömu árgöngum og höfðum mjög svipaðar skoðanir á kennsluháttum. Helga var góður og farsæll kennari. Hún talaði ætíð fallega um nemendur sína og hafði mik- inn metnað fyrir þeirra hönd. Mörg kvöld sátum við saman uppi í skóla og undirbjuggum kennslu og aldrei minnist ég þess að litið hafi verið á þær stundir sem kvöð Elsku eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og systir, STEINUNN EDDA NJÁLSDÓTTIR, Tröllakór 6, Kópavogi, lést á heimili sínu, í faðmi fjölskyldunnar, föstudaginn 5. júní. Útför hennar fer fram fimmtudaginn 18. júní kl. 13 frá Bústaðakirkju. Þeim sem vilja minnast hennar er bent á Karitas og Krabbameinsfélagið. . Hans B. Guðmundsson, Guðmundur Hansson, Kristín Donaldsdóttir, Elín Rós Hansdóttir, Birgir Birgisson, Berglind Íris Hansdóttir, Bjarni Ólafur Eiríksson, barnabörn, barnabarnabarn og systkini. Okkar ástkæri, REYNIR ÓLAFSSON viðskiptafræðingur, Heiðarbakka 1, Reykjanesbæ, verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 18. júní kl. 13. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir. Þeim sem vilja minnast hans er bent á Krabbameinsfélag Íslands. . Drífa Maríusdóttir, Gestur Páll Reynisson, Inga María Vilhjálmsdóttir, Kristín Guðrún Reynisdóttir, Sigurður Helgi Tryggvason, Magnús Ólafsson, Telma D. Guðlaugsdóttir og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.