Dagblaðið Vísir - DV - 18.04.2012, Blaðsíða 13

Dagblaðið Vísir - DV - 18.04.2012, Blaðsíða 13
Fréttir 13Miðvikudagur 18. apríl 2012 Þóra Arnórsdóttir býður sig fram til embættis forseta Íslands. Hún segir dónaskap að spyrða framboðið við stjórnmálaflokk Eðlilegt að settar séu siðareglur Örn Leó Guðmundsson Komdu sæl, Þóra. Nú er þitt stærsta bakland frá Samfylkingu sem vill áhrif forseta sem minnst á lýðræðið og afskipti hans af þingræðinu helst engin. Af hverju ætti fólk að kjósa þig?  Þóra: Ég fagna öllum stuðningi, sama hvaðan hann kemur. En löngun fólks til að spyrða mitt framboð við flokkspólitík fellur um sjálfa sig og felur í sér dónaskap í garð alls þess góða fólks sem vinnur að því um allt land. Allra flokka, en mest utan flokka. Heiðar Hrafn Halldórsson Sæl, Þóra. Ertu hlynnt þeirri hugmynd að Ísland gangi í Evrópusambandið?  Þóra: Ef samningar nást og nefndin kemur heim með aðildar- samning, mun ég einfaldlega taka afstöðu til hans eins og allir aðrir Íslendingar í þjóðaratkvæða- greiðslu. Eins og staðan er í Evrópu núna er ómögulegt að segja til um hver sú niðurstaða verður. Elín Hermannsdóttir Sæl, Þóra. Hefur þú í hyggju að taka þátt í Útsvari fyrir Álftaneshrepp ef þú nærð kjöri?  Andrea: Mér er sagt að þar séu svo mikil gáfumenni að það sé óvíst að ég kæmist í liðið. Guðrún Konný Pálmadóttir Sæl, Þóra Hvernig hugnast þér tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá? Ertu sammála eða andvíg því að haldin verði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á árinu um þessar tillögur og tiltekin álitamál?  Þóra: Það er í höndum Alþingis að breyta stjórnarskránni og ákveða hvernig er farið að því. Þ.e. hvort breytingarnar séu lagðar í þjóðar- atkvæðagreiðslu. Forsetinn hefur engin áhrif á það ferli og á að mínu viti að treysta þingi og þjóð til þess. Forsetinn á fyrst og fremst að virða þá stjórnarskrá sem er í gildi á hverjum tíma. Stephen Björnsson Fátt hefur birst um stefnubreyt- ingar og markmið þín. Hvar sérðu Ísland eftir 4 ár ef þú verður kosin? Ætlarðu þér að virkja þjóðstefnu til bata eða sitja eins og Ólafur Ragnar Grímsson?  Þóra: Forsetaembættið á að vera farvegur fyrir þá sátt sem nauð- synleg er meðal þjóðarinnar. Hann er eini þjóðkjörni embættismað- urinn og á að tala milliliðalaust við fólkið í landinu. Áhrifavald forsetans getur verið mikið ef rétt er á málum haldið. Ég er ákaflega bjartsýn á framtíð lands og þjóðar og vona svo sannarlega að eftir 4 ár verði hrunið uppgert og meiri ró og jákvæðni ríkjandi. Tinna Magnúsdóttir Af hverju finnst þér nauðsynlegt að hafa forsetaembætti á Íslandi ?  Þóra: Forsetaembættið opnar dyr á alþjóðavettvangi sem ill- mögulegt er að komast í gegnum eftir öðrum leiðum. Þetta getur tvímælalaust styrkt stöðu okkar út á við. Innanlands getur forsetinn stuðlað að sátt og samheldni sem ég held að sé meiri þörf á nú en oft áður. Guðrún Sæmundsdóttir Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara í framboð? Og hvað ætlar þú að gera betur en þeir sem hafa setið í forsetastólnum á undan þér?  Þóra: Hver forseti mótar embættið á sinn hátt. Ég ákvað að bjóða mig fram vegna þess að mig langar til að stuðla að því að við sem þjóð förum að horfa fram á veginn í stað þess að horfa um öxl. Sá mikli meðbyr sem ég hef fundið hefur styrkt mig í þeirri trú að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Anton Kristinn Guðmunds- son Sæl, Þóra. Ef þú nærð kjöri og verður forseti Íslands munt þú taka þér barneignarleyfi í kringum næstu barneignir þínar?  Þóra: Ég mun taka orlof frá fæðingu þess barns sem við eigum von á nú í maí og til júlíloka, nái ég kjöri. Embættið er þess eðlis að ég myndi að sjálfsögðu taka við því 1. ágúst eins og lög gera ráð fyrir við erum nú ekki farin að velta fyrir okkur frekari barneignum. Bjarki Hilmarsson Sem forseti, hvernig myndir þú taka á móti þjóðhöfðingjum ríkja sem brjóta mannréttindi á þegnum sínum?  Þóra: Þetta er góð spurning. Forseti hefur ákveðnar skyldur og ber að framfylgja utanríkis- stefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Hann getur þó komið á framfæri sjónarmiðum Íslendinga, sem eru aðilar að öllum helstu alþjóðlegu mannréttindasáttmálum. Guðbjartur Kristjánsson Þú kallaðir kínverska ráðamenn fjöldamorðingja í blaðagrein fyrir 17 árum. Margir þeirra eru ráðamenn í Kína í dag. Hvernig sérðu fyrir þér samskipti þín við þessa ráðamenn ef þú verður forseti?  Þóra: Ég á ekki von á öðru en að þau yrðu kurteisleg. Þórarinn Einarsson Hefðir þú undirritað Icesave-lögin (þrátt fyrir mikla andstöðu þjóðarinnar og fjölda undirskrifta)?  Þóra: Forsetinn setti viðmið árið 2004 þegar hann hafnaði fjöl- miðlalögunum eftir að hafa fengið tæplega 32.000 undirskriftir. Inde- fence-hópurinn vann kraftaverk við að kynna Icesave I og safna gríðarlegum fjölda undirskrifta. Hann var því í raun samkvæmur sjálfum sér og það hefði verið erfitt fyrir nokkurn forseta að horfa fram hjá þeim skýra þjóðarvilja. Það er hins vegar ekki mitt að dæma verk fyrri forseta. Björgvin Björgvinsson Ertu hlynnt upptöku annars gjaldmiðils en ISK á Íslandi?  Þóra: Forsetinn hefur engin áhrif á þá ákvörðun. Það er Alþingis að móta stefnu í gjaldeyrismálum. Ragnar Þórisson Kemur þú til með að nota 32.000 manna markið ef þú nærð kosningu þegar kemur að því að skrifa undir lög eða ekki, burtséð frá um hvað þau fjalla?  Þóra: Synjunarvald forseta sem falið er í 26. gr. stjórnarskrár- innar er virkur og raunverulegur öryggisventill sem aðeins ætti að nota í neyð. Í stjórnarskránni er ekki að finna nein viðmið um hvenær forseti eigi eða megi beita synjunarvaldinu. Það er ekki mögulegt að segja til um það fyrir- fram hvenær því yrði beitt. Að gefa út um það reglur eða viðmið myndi veikja þetta vald. Sigurður Jónsson Hver er skoðun þín á beinu lýðræði, finnst þér að forsetinn ætti að beita sér fyrir því að þjóðin fái að kjósa um öll helstu deilumál?  Þóra: Eins og er, er enginn rammi um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ef stjórnarskránni verður breytt, má gera ráð fyrir að hann verði settur. Það er hins vegar Alþingis og þjóðarinnar að ákveða hvernig sá rammi eigi að líta út og ég tel ekki að forsetinn eigi að beita sér í því ferli. Forsetinn á að standa vörð um hið lýðræðislega ferli, en ferlið er ákveðið af þingi og þjóð. Jósef Jobbi Gunnarsson Sæl, Þóra og takk fyrir að gefa kost á þér. Ef þú nærð kjöri, ætlið þið að búa á Bessastöðum? Hefurðu hug á að opna Bessastaði meira fyrir almenningi?  Þóra: Já, við höfum hugsað okkur að búa á Bessastöðum ef ég næ kjöri – en ég verð að viðurkenna að við höfum ekki hugmynd um hvernig húsakosturinn er. Ég er viss um að Svavar mun bjóða upp á bakkelsi um helgar, ef ég þekki hann rétt. Henry Henrysson Ætlarðu ekkert að gefa upp hverjir borga í kosningasjóð? P.s. Þú verður að segja þínar skoðanir á hlutunum hérna. Fólk verður að fá að vita hvaða mann þú hefur að geyma.  Þóra: Lög og reglur um fjár- mögnun forsetaframboðs eru mjög skýrar. Eftir kosningarnar verður reikningum skilað til ríkis- endurskoðanda. Þeim fylgir listi yfir alla lögaðila sem hafa lagt eitthvað í kosningasjóðinn og alla einstaklinga sem hafa lagt fram meira en 200.000 krónur. Svo það sé á hreinu, þá má enginn leggja fram meira en 400.000 krónur. Stephen Björnsson Finnst þér að eigi að fyrirgefa misgjörðir fyrrverandi ríkisstjórnar og ráðamanna gagnvart lögum landsins ef þau voru brotin eða eigum við að líta fram hjá því í nafni „framtíðarinnar“?  Þóra: Það er nauðsynlegt að gera upp hrunið og láta þá sæta ábyrgð sem hana bera. Við eigum ekki að sópa öllu undir teppi og láta sem ekkert hafi gerst. En þetta uppgjör á ekki að hamla uppbyggingu, við eigum líka að nota tækifærið sem felst í því að byggja upp eftir þennan stóra skell. Það er hægt að gera hvort tveggja. Sigurður Sólmundarson Þóra! Munt þú nota málskotsréttinn ef þér sýnist vera gjá milli þings og þjóðar?  Þóra: Í stuttu máli: já. Pétur Heimisson Nú hefur þú framúrskarandi menntun, en telurðu þig búa yfir nægri lífs- og starfsreynslu til að sitja á forsetastóli og sinna þeim mikilvægu alþjóðlegu samskiptum sem eiga sér stað í gegnum embættið?  Þóra: Já, annars hefði ég ekki boðið mig fram. Þorsteinn Vilhjálmsson Telur þú við hæfi að beita forsetaembættinu í þágu einstakra einkafyrirtækja, til dæmis vegna útflutnings?  Þóra: Allir forsetar hafa lagt atvinnulífinu lið með einhverjum hætti og það myndi ég líka gera. Það þarf þó að gæta þess að fara að öllum siðareglum í því efni eins og öðrum. Garðar Sigurðar Sæl, Þóra. Hverrar trúar eru?  Þóra: Ég er skírð og fermd innan þjóðkirkjunnar en er ekki í trúfélagi. Bjarki Hilmarsson zMyndir þú beita þér fyrir því að embættinu yrðu settar þær siðareglur sem ÓRG hafnaði á sínum tíma?  Þóra: Ég hef ekki kynnt mér þær reglur í þaula, en finnst eðlilegt að þessu embætti séu settar siða- reglur eins og öðrum opinberum embættum. Ragnar Þórisson Ertu sammála því að Ólafur Ragnar hafi breytt forsetaembættinu og ef svo er, ertu hlynnt þeirri breytingu?  Þóra: Hver forseti setur sitt mark á embættið. Ef ég næ kjöri mun ég gera það með mínum hætti. Ég ætla ekki að leggja mat á feril þeirra forseta sem við höfum átt fram að þessu eða fella um þá dóma. Haraldur Björnsson Sæl, Þóra. Hefur þú verið skráður félagi í Samfylkingunni? Og ef svo er, ertu skráður félagi í dag?  Þóra: Ég var skráð í Alþýðuflokkinn þegar ég var 22 ára – hann var lagður niður og rann inn í Sam- fylkinguna. Ég hef aldrei starfað fyrir þann flokk og er ekki skráð í neinn stjórnmálaflokk. Þorsteinn Vilhjálmsson Takk fyrir gott svar, Þóra. Hvernig líst þér á tillögur stjórnlagaráðs varðandi forseta- embættið?  Þóra: Ég tel ekki við hæfi að ég tjái mig um þær tillögur. Það er annarra að taka afstöðu til þeirra tillagna og afgreiða það mál. Ragnar Þórisson Finnst þér ekki sanngjarnt að kjósendur fái að vita það hvernig þú ætlar að setja þitt mark á embættið áður en gengið er til kosninga?  Þóra: Í öllum mínum málflutningi hef ég lagt áherslu á að embættið eigi ekki að vera pólitískt. For- setinn eigi að beita sínu áhrifavaldi til að stuðla að sátt í samfélaginu og halda uppi merkjum lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Viktor Ragnarsson Sæl, Þóra. Ert þú ennþá meðlimur í Evrópusamtökunum?  Þóra: Nei. Drífa Snædal Komdu sæl og takk fyrir að bjóða þig fram. Hvernig sérðu fyrir þér að forseti geti beitt sér fyrir auknu jafnrétti kynjanna á Íslandi?  Þóra: Fyrst og fremst með því að vera góðar fyrirmyndir, bæði tvö. Við sem ólumst upp með Vigdísi Finnbogadóttur á forsetastóli vitum hversu miklu máli það skiptir. Ég vildi reyndar gjarnan getað stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna utan landsteinanna líka, til dæmis með því að styðja við Jafnréttisskóla SÞ sem starf- ræktur er hérlendis. Sigurður Sigurðsson Hver er þín afstaða til að skipa utanþingsstjórn, t.d. á tímum sem þessum þegar gífurlegt vantraust ríkir og stjórnmálaflokkar virðast spóla fastir í gömlum hjólförum?  Þóra: Vald forseta er þríþætt – fyrir utan áhrifavaldið og það vald sem 26. greinin færir honum, verður forseti að tryggja að hér sé starfhæf ríkisstjórn. Núverandi ríkisstjórn hefur stuðning meiri- hluta þingsins. Ég lít svo á að vegna þessa hlutverks sé mikilvægt að traust ríki á milli forseta og stjórn- málaleiðtoga landsins. Í þessu sem öðru er mikilvægt að ýta undir sátt. Óli Gunnarsson Af hverju á ég að kjósa þig enn ekki einhvern annan frambjóð- enda sem forseta?  Þóra: Forsetinn á að vera mann- eskja sem flestir geta litið til, samsamað sig með og sameinast um. Það er engan veginn útilokað þótt þjóðin hafi að einhverju leyti sundrast síðustu árin. Það er margt sem sameinar okkur, svo miklu meira en það sem skilur okkur að. Þetta er það sem ég hef að leiðar- ljósi, en valið er auðvitað þitt. Nafn: Þóra Arnórsdóttir Titill: Forsetaframbjóðandi Aldur: 37 ára Menntun: BA-próf í heimspeki og framhaldspróf í alþjóðastjórn- málum og þróunarhagfræði frá John Hopkins-háskólanum í Washington og Bologna.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.