Lögmannablaðið - 01.03.2004, Blaðsíða 23

Lögmannablaðið - 01.03.2004, Blaðsíða 23
23L Ö G M A N N A B L A Ð I Ð Af Merði lögmanni Mörður hefur aldrei getað skilið konur neitt sérstaklega vel enda eru þær allt öðruvísi en karlar. Lífsviðhorf þeirra og gildi eru allt önnur og svo eru konur hræddar við að axla ábyrgð og taka ákvarðanir. Konur geta svo sem verið þokkalegir lögmenn en þær eru óþarfa smámunasamar enda eru konur með næmt auga fyrir allskonar smáatriðum í umhverfi sínu eins og ryki og svoleiðis pjatti. Slík mál lenda sjaldnast á borðum lögmanna. Mörður skammast sín ekkert fyrir að viðurkenna að hann var hálfhræddur þegar konum fór að fjölga í hinni virðulegu stétt lögmanna. Honum fannst það svo sem sleppa fyrir horn að konur væru að vesenast í þessu á lögmannsstofum með eiginmönnum sínum og feðrum en einhvers staðar verður nú líka að draga mörkin. Nú eru þær í auknum mæli farnar að böðlast í þessu sjálfar. Opnandi stofur einar og sér eða, það sem verra er, í samstarfi við aðrar konur eða jafnvel með öðrum karlmönnum sér alls óskyldum og ótengdum. Og ekki nóg með það heldur eru þær núna búnar að smala sér saman og mynda einhvern minnihlutahóp innan Lögmannafélagsins til að styrkja tengslin sín á milli og auka hlut kvenna í lögmennsku. Einhvern svona væluskjóðu- saumaklúbb. Það þarf nú engan Einstein til að átta sig á því að þetta er klárlega brot á jafnréttislögum sem þarfnast rækilegrar skoðunar færustu karlkynslögmanna. Kvenlögmennirnir eru klárlega vanhæfir. Merði finnst að þetta sé nú kannski ekki alveg málið, enda mjög slæmt til afspurnar, að Lögmannafélag Íslands þurfi að burðast með svona femíniska slagsíðu á bakinu og þá kannski einhvern stimpil að strákarnir séu vondir við stelpurnar. Það er í lagi að hafa þessar konur með en ekki að þær verði of áberandi. Hvað gerðist ekki líka með lækna í Rússlandi þegar konum fór að fjölga í stéttinni? Launin lækkuðu. Sama hefur gerst í fleiri stéttum þegar konur koma þar inn. Strákarnir verða að passa upp á að það gerist ekki hjá þeim, nógu lág eru launin samt. Fjöldi dæma hefur sýnt og sannað að þetta gerist um leið og konur sem eiga góðar fyrirvinnur fara að taka upp karríer svona í hobbíi í stað þess að bútasauma og hugsa um heimilið. Mörður er líka hræddur um að þetta brölt kvennanna verði til að eyðileggja ímynd lögmanna. Það fyrsta sem kemur nefnilega upp í huga fólks er að lögmenn séu virðulegir og snyrtilegir miðaldra karlmenn í dökkum jakkafötum, í skyrtu og með bindi, en ekki einhverjar ómálaðar, fótafúnar mussukonur með skegg og kröfuspjöld. Mörður hefur alltaf verið jafnréttissinnaður. Fyrir nokkrum árum ætlaði Mörður að ráða sér fulltrúa og það var ein kona sem sótti um. Hann var mikið að hugsa um að ráða hana en hann var alveg í stökustu vandræðum með það hvað hann ætti að borga svona kvenlögfræðingi svo hann sleppti því bara. Mörður er ekki alveg viss um það hvað strákunum í boltanum, golfinu og í gufunni finnist um þetta kvennasamkrull um að styrkja tengslin. Hver getur tilgangurinn líka annar verið en að klekkja á þeim? Eru allar þessar konur vinalausar eða hvað? Eiga strákarnir líka að bera hallann af því að þessar stelpur hættu að leika sér um aldur fram og misstu af öllum tengslum við gömlu leiksysturnar? Mörður er nú enginn asni. Hann áttar sig alveg á því hvað þær ætla sér og það verður að stöðva strax. Þær ætla greinilega að taka yfir lögmannastéttina, svona eins og geimverur, og gera karlana að minnihlutahópi. Þeir strákarnir verða að snúa vörn í sókn og það strax. Mörður hefur reyndar alltaf verið frekar vinalaus. Frá æsku hefur glumið í hausnum á honum röfl móður hans: „Mörður af hverju áttu enga vini?” Æi kannski vilja strákarnir alls ekki leika við hann. Mikið vildi Mörður að hann væri kona. Aldrei gera þeir strákarnir neitt svona skemmtilegt saman og styrkja tengslin sín á milli.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.