Lögmannablaðið - 01.12.2005, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 01.12.2005, Blaðsíða 4
LÖGMANNABLAÐIÐ FAGNAR 10 ára afmæli sínu um þessar mundir og af því tilefni kemur blaðið í stærra broti en áður og er ætlunin að hafa það svo framvegis. Á þessum áratug hefur blaðið vaxið og þroskast, ef svo má segja, en ritnefndir hvers tíma hafa verið óhræddar við að feta nýja stigu í efnisöflun og útliti. Svo hefur einnig verið undanfarin tvö ár og hafa m.a. birst hringborðsumræður, greinar sem hafa krafist mikillar efnisöflunar o.s.frv. Eftir að hafa ritstýrt blaðinu í tvö ár er kominn tími til þess að hleypa að nýjum ritstjóra og er þetta tölublað það síð- asta sem kemur út undir minni stjórn. Það hlýtur að vera metnaðarmál LMFÍ og félagsmanna þess, sem nú eru tæplega 700, að á vegum þess komi út vandað blað til að miðla upplýsingum sem gagnast geta lögmönnum og fjallar um starfsvettvang þeirra. Félagsmönnum LMFÍ hefur fjölgað um 30 til 40 á hverju ári undanfarin ár og með þeim aukna fjölda ætti að vera hægðarleikur fyrir félagið að gefa út metnaðarfullt blað sem stendur undir nafni. Til þess að svo verði þurfa hinir almennu félags- menn auðvitað að koma ritstjórn til aðstoðar en blað þetta er unnið í sjálfboðastarfi af ritnefnd með dyggri aðstoð Ingimars og Eyrúnar á skrifstofu félagsins. Er þeim, ritnefndarmönnum og greinarhöfundum þakkað kærlega fyrir gott samstarf. Í þessari afmælisútgáfu var leitað til fyrrverandi ritstjóra blaðsins og má sjá afrakstur þess í blaðinu. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir. Mörður lögmaður hefur verið órjúfanlegur þáttur frá árdaga Lögmannablaðsins, og sennilega mest lesna greinin, en gerð er úttekt á skrifum hans frá upphafi og dregin upp mynd af manninum. Í fyrsta skipti er birt viðtal við félagsmann, Örn Clausen hrl. sem hefur lengstan starfsaldur lögmanna, og vonast rit- stjórn til að það veki lukku. Nú um áramótin útskrifast í fyrsta skipti lögfræðingar frá öðrum háskóla en Háskóla Íslands en þá mun Háskólinn á Bifröst útskrifa cand. jur. og í kjölfarið munu svo Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri útskrifa lögfræðinga. Þegar ekki er lengur um að ræða að allir lögmenn hafi nákvæmlega sama uppeldis- og menntun- arbakgrunn þá er enn mikilvægara að þeir eigi sér sam- eiginlegan vettvang og þar getur Lögmannablaðið skipt miklu máli. Viðfangsefni lögmanna eru oft á tíðum ólík en í grunninn felst starfið í því sem Örn Clausen hrl. lýsir í fyrrnefndu viðtali: „Annað hvort er lögmaður að hjálpa mönnum eða hann er ekki í þessu djobbi. Hann má ekki fara eftir því hvað honum finnst frekar en dómari. Lögmaður verður að hjálpa skjólstæðingnum á allan hátt, hann er eiðsvarinn til þess. Lögmaður má ekki fara eftir því hvað honum finnst heldur verður hann að vera algjörlega objectivur og gera allt sem hann getur fyrir skjólstæðinginn án þess að ljúga að dómstólum, aldrei vísvitandi að ljúga.“ Að þessu leyti segir Örn að starf lögmanna hafi ekki neitt breyst þau 47 ár sem hann hefur starfað. Vissulega er þetta hárrétt og því miður að oft á tíðum virðist almenn- ingur ekki gera sér grein fyrir þessu grunneðli lögmanns- starfsins. Því er stundum slegið fram að lögmenn séu málsvarar hins illa og það sem skiptir okkur lögmenn ekki síður máli þegar rýrð er kastað á störf dómara og jafnvel gengið svo langt að persónugera dómara þegar rætt er um einstaka dóma, einkum í refsimálum. Með slíku er grafið undan tilvist réttarríkisins og við því verður að bregðast með betri kynningu á störfum okkar og því hvernig leikreglur réttarkerfisins eru. Að sjálfsögðu er gagnrýni af hinu góða enda sé hún byggð á þekkingu en ekki byggð á æsifréttum og fordómum. Sú skoðun virðist stundum ríkja að við sem höfum streðað við laganám kunnum minna í lögum heldur en aðrir. Öllum er hollt að huga að þeirri lífsspeki sem kemur fram í Hávamálum og enda ég því pistill minn með eftirfarandi vísu: „Meðalsnotr skyli manna hverr, æva til snotr sé.“ Gleðileg jól 4 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 4 / 2005 Frá ritstjórn Guðrún Björg Birgisdóttir hdl.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.