Lögmannablaðið - 01.12.2005, Blaðsíða 28

Lögmannablaðið - 01.12.2005, Blaðsíða 28
Af Merði lögmanni 28 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 4 / 2005 Mikil ógnar Guðsblessun er nú lögfræðilega smæðin, að vera lögfræðilegt smámenni, og þurfa ekki endalaust að hafa skoðanir á öllu því þrasi og þrátti sem fjölmiðlunum dettur í hug að þyrla upp. Geta bara setið við sinn leist og velt vöngum yfir innheimtanleika víxil- blaðsins sem Guðmundur gamli múrari, blessaður kallinn, lét einn teinóttu-jakkafata-að- græða-rosa-feitt piltinn svindla inn á sig upp í vinnulaun. Mörður var bara eiginlega hálf feginn að vera í þessari stöðu, að þurfa ekki sífellt að vera að glenna sig í fjölmiðlum. Honum taldist til að það hefðu verið einn til tveir lögmenn í hverjum einasta Kastljósþætti þessa vikuna. (Þarna þættinum sem unga huggulega fólkið með brúnkukremin stjórnar eftir að Sjónvarpið henti óísitjanlegu stólunum og hleypti endanlega lögmannahjörðinni inn!) Í þessum þáttum er stundum lögmannafjölmenni að þjarka um arðrán á aumingjans útlendingum sem hingað eru sendir í ljótum úlpum til að vinna upp um allar koppa- grundir á sultarlaunum. Næst eru helstu forsjársérfræðingar á flot settir til að romsa út spekinni um þau mál. Og varla er það búið þegar hinstu rökum lögfræðinnar er sveiflað á loft til að rökræða og rökstyðja í hvaða húsum ætti að ræða við börn sem búið er að plaga og hvur það mætti nú gera, digrar löggur eða sálfræðingar með órætt blik í augum. Er þá nú ekkert farið að minnast á Hringsmálið mikla. Almáttugur, þá fyrst kastar nú tólfunum og vandi vex af vegsemd hvurri. Eða heldur fannst Merði þægilegt til þess að vita að þurfa ekki að taka þátt í skipulögðum uppákomum á vegum útlendra Pé err fyrir- tækja. Geta frekar tjáð sig, ef einhver vill hlusta, út frá brjóstvitinu þegar slíkt dettur í mann á Kaffivagninum eða í heitu pottunum í laugunum, frekar en að þurfa að láta skáka sér inn á fjölmiðlavöllinn eða út af honum aftur eftir dyntum svoleiðis forretninga. Eða hvurnig annars hefði verjandi einhverra endurskoðenda getað fullyrt í eitt skipti fyrir öll að aðalviðskiptajöfurinn, í því málinu stóra væri saklaus, sem verjandinn var ekki einu sinni að verja. Gömlu brúnu flauelsjakkafötin hans Marðar hefðu svo líka að öllum lík- indum stungið dálítið í stúf í Dressmann göngunni í Austurstræti! Nema þá kannski að það hefði verið hægt að svíða eins og ein ný frá Guðsteini út á tilefnið. Nei, Mörður ornar sér við tilhugsunina um að lögfræðilega smæðin og heimóttarskap- urinn eigi sína kosti, til dæmis þann að þurfa ekki að tapa alveg sjálfstæðinu til verka og hugsunar. Þó svona verk hljóti að vera voðalega vel borguð, og hægt að rekstrarleigja ansi flotta jeppa út á þau, þá er Mörður ekki frá því að það geti líka verið pínulítið gott að geta lesið Moggann á morgnana án þess að þurfa að vera í boxhönskum með eða á móti aldna ritstjóranum og konunni í bleika dressinu. Og svo að geta látið gamminn geysa í heitu pottunum um menn og málefni án þess að vera endilega stimplaður sem liðsmaður í einhverjum liðssafnaði, með eða á móti einhverjum sakborningum, með eða á móti lögg- unni, með eða á móti börnum eða hvað það nú er sem lögmenn eru samkenndir við á hverjum tíma. Eða eru það kannski þeir sjálfir, lögmennirnir, sem eru að gleyma fjarlægð- inni, og gleyma því að samkenna sig ekki málstaðnum Þá er nú smæðin betri og með góðri friðsemd og yfirvegun hægt að skreppa og fá sér kjötbollur í brúnni og sultutau í kvöldmatinn hjá mútter gömlu!

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.