Lögmannablaðið - 01.11.2008, Side 22

Lögmannablaðið - 01.11.2008, Side 22
22 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 3 / 2008 Af Merði lögmanni Mörður lögmaður gekk æstur í skapi út um dyrnar á Grund, reif upp sígarettupakkann og fékk sér rettu til að róa taugarnar. Hann hefði svo sem mátt vita að hann hefði ekki erindi sem erfiði úr þessari ferð. Allt síðan hann lauk lagaprófi hafði móðir hans látið þannig við hann að peningar yxu á trjánum og hann hefði alltaf eitthvað aflögu handa henni. Þar sem Mörður stikaði eftir Hringbrautinni á leið niðrí dómhúsið við Lækjartorg, þar sem hann átti að mæta í fyrirtöku, rifjaði hann upp í huganum 79 ára afmælisdag móður sinnar í júlí á síðasta ári. Hann hafði verið í ljómandi skapi, úrvalsvístalan í toppi og hann nýbúinn að tryggja framlengingu á hlutabréfaláninu. Stefna hans um helmings lán á móti eigin fé í hlutabréfasafninu hafði gefið góða raun og ekki skemmdu vaxtakjörin á lánum í erlendri mynt fyrir gleðinni. Að vera fjárfestir var nú eitthvað annað en þrældómurinn í lögmennskunni! Mörður fjárfestir græddi pening meðan hann svaf en Mörður lögmaður varð að vinna fyrir hverri krónu. Á þessari viðkvæmu gleðistund hafði hinn annars aðhaldssami maður, Mörður, boðið móður sinni í þriggja vikna skemmtiferð til Flórída að ári, þegar hún yrði áttræð. Þeim mæðginum hafði sammælst um að haustið 2008 myndi vera heppilegasti ferðatíminn. Nú, ári síðar, var Mörður fjárfestir gjörsamlega rúinn öllum eignum, krónan farin beina leið niður til helvítis og úrvalsvísitalan hafði tekið sér bólfestu ekki fjarri þeim stað. Mörður lögmaður sá fram á að geta ekki reiknað með framlagi frá fjárfestinum til að fjármagna skemmtiferðina og ekki var unnt að treysta á að stopul greiðsla reikninga vegna vinnu lögmannsins gerði það heldur. Hann hafði því ákveðið að fara í heimsókn til móður sinnar á elliheimilið Grund og tilkynna henni að af ferðinni gæti ekki orðið. Erindi hans mætti engum skilningi hjá gömlu konunni. Hún bar honum á brýn að vera nánös og heimsóknin endaði með því að Mörður rauk á dyr með fúkyrðaflauminn á eftir sér. Mörður var kominn hálfa leiðina niðrí dómhús þegar hann reif sig upp úr þessum þönkum og fór að rifja upp málið sem taka átti fyrir. Hans umbjóðandi var annar fallinn fjárfestir, gamall kunningi úr MR. Sá hafði í einu og öllu farið að ráðleggingum greiningardeilda bankanna þegar hann tók fjárfestingarákvarðanir. Mörður dauðsá eftir að hafa látið hann telja sig inná að stefna greiningaraðilum til greiðslu skaðabóta vegna rangrar ráðgjafar. Mörður vissi sem var að um leið og stóru orðin streymdu úr munni þeirra streymdi smáaletrið út um nefið á þeim. „Engin ábyrgð, kæru kúnnar.“ Þetta var skíttapað mál og Mörður hefði átt að segja sér það. Álíka gáfulegt og að stefna Veðurstofunni fyrir að spár um blíðviðri á þjóðhátíð í Eyjum gengu ekki eftir. Gamli kunninginn hafði boðið honum upp á nokkra drykki á Mímisbar áður en hann bað hann um að taka að sér málið og Mörður kunni hreinlega ekki við að neita. Mörður vissi líka að gamli kunninginn mundi alls ekki skilja af hverju málið hefði tapast og að öllum líkindum neita að greiða reikninginn. Mörður hugsaði með sér að í besta falli gæti honum tekist að herja út drykk á Mímisbar upp í kostnað næst þegar hann hitti kunningjann þar. Mörður lögmaður gekk því daufur í dálkinn inn um dyrnar á dómhúsinu.

x

Lögmannablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.