Lögmannablaðið - 01.03.2008, Blaðsíða 24

Lögmannablaðið - 01.03.2008, Blaðsíða 24
24 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 4 / 2007 Af Merði lögmanni Eðli málsins samkvæmt hefur Mörður svolítið gaman af fólki sem hvorki er í útliti né hegðun eins og flestir aðrir. Hluti af þessu fólki er oft nefnt í daglegu tali „nerðir“ eða hreinlega „lúðar“. Yngsti sonur Marðar, sem hann átti í lausaleik og kom undir á skemmtikvöldi Framsóknarfélagsins á Hólmavík fyrir næstum 20 árum, telst hafa einkenni lúða. Eins og við mátti búast fékk drengurinn ekki líkamlegt atgervi í vöggugjöf en því meira af ýmsum sérkennum, s.s. áhuga á skák og tölvuleikjum alls konar. Hann hyggst því nema lögfræði að loknu stúdentsprófi. Mörður tefldi sjálfur á sínum yngri árum, sérstaklega í lagadeildinni eins og algengt var á þeim tíma. Þeir hörðustu urðu síðar stórmeistarar og nutu gríðarlegrar kvenhylli þrátt fyrir sérviskuna en Mörður var ekki í þeim hópi. Sem áhugamaður um skák og sérkennilegt fólk hefur Mörður stundum fylgst með skákmótum, sérstaklega þegar sonurinn er meðal þátttakenda. Einnig finnst Merði hann vera svolítið á heimavelli á skákmótum enda keppendur ekki ólíkir Merði í öllu atgervi og holningu. Klæðaburður frekar gamaldags, buxur gjarnan of stuttar enda buxnastrengurinn oftast dreginn upp að brjósti. Hárið svolítið kleprað og oftar en ekki skipt með áberandi hætti. Virka gjarnan hálflamaðir í andliti og þá sjaldan þeir opna munninn er ekki nokkur leið að skilja þá. Þrátt fyrir þetta allt er ákveðinn sjarmi yfir þeim og sennilega eru þeir nokkuð glaðir í hjarta sínu þótt orðin „stuð og stemning“ (eins og unglingarnir segja) eigi ekki beinlínis við um þá. Á tímum opinberra lausna á öllu er Mörður hræddur um að útrýma eigi lúðum. Við verðum öll að vera eins því annars er hætta á því að okkur líði illa. Það er engin nýliðun í Downs­heilkenninu, enginn má vera yfir kjörþyngd og eiginlega ekki undir henni heldur. Við megum heldur ekki gera neitt sem gæti talist óhollt, eins og að reykja og borða skyndibita. Það er ennþá verra ef við vogum okkur að spila fjárhættuspil eða fletta klámblöðum, þá er andleg heilsa í húfi. Ekki er hægt að ná þessum göfugu markmiðum nema með því að beita refsingum. Þannig verður maðurinn smátt og smátt fullkominn. Hann hættir að hafa áhuga á klámi, öll fíkn hverfur og hann valhoppar bara um í stanslausri gleði. Auðvitað í kjörþyngd og reyklaus. Mörður er ekki viss um að hann vilji lifa í fullkomnum heimi af augljósum ástæðum. Hann yrði fljótlega það sem kallað er í fræðunum „vanaafbrotamaður“ en meðal almennings heitir það að vera „góðkunningi lögreglunnar“. Mörður hefur alltaf haldið því fram að það sé beinlínis hættulegt að búa í lastalausum heimi í kjörþyngd. Í slíkum heimi sé hætta á að menn drepist úr leiðindum og ef það gerist ekki sjálfkrafa þá fyrir eigin hendi. Mörður er langt yfir kjörþyngd, hefur spilað rassinn úr buxunum, reykir þegar hann drekkur og drekkur þegar hann reykir og er landsfrægur klámhundur. Samt er hann svo glaður að hann myndi valhoppa ef hann gæti fyrir offitu. Að vísu veldur Mörður ekki mikilli gleði hjá öðrum en það er annað mál.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.