Lögmannablaðið - 01.06.2008, Blaðsíða 30

Lögmannablaðið - 01.06.2008, Blaðsíða 30
30 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 4 / 2007 á um að í reglugerð megi setja þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda um gjafsókn. Hver getur sótt um gjafsókn? Telja verður að með reglugerð nr. 45/2008 séu enn frekar takmarkaðir möguleikar fjölmargra til að leita réttar síns fyrir dómstólum miðað við það sem áður var. Viðmiðunarfjárhæðir reglugerðarinnar eru svo lágar að þær útiloka stóran hóp fólks frá því að geta sótt um gjafsókn og þar með að geta staðið straum af kostnaði við málssókn eða málsvörn. Telja verður að réttlát málsmeðferð manna fyrir dómi sé ekki tryggð við þessar aðstæður. Þá eru skilyrði í reglugerðinni um mat á tilefni til veitingar gjafsóknar sem uppfylla þarf einnig, til viðbótar ofangreindum skilyrðum um fjárhagsstöðu, sem eru einnig takmarkandi en verður ekki fjallað frekar um hér. Hver er staðan í nágrannalöndunum? Rétt til að gefa lesendum hugmynd um hvernig fyrirkomulagið er í Danmörku þá má nefna að í dönsku lögunum um meðferð einkamála (LBK nr. 1261 af 23/10/2007) er tekjuviðmiðið núna um 4 milljónir króna fyrir einstakling. Þá má benda á að lögin gera ráð fyrir því að sé umsækjandi t.d. leigjandi, starfsmaður eða tjónþoli teljist viðkomandi hafa nægilegt tilefni til málssóknar. Ekki er annað að sjá en að skilyrðin séu mun rýmri í Danmörku en hér á landi, bæði hvað varðar tekjuviðmið og tilefni til málssóknar, auk þess sem tekjuviðmiðið og tilefni er tilgreint í lögunum sjálfum, ekki í reglugerð. Hlutverk lögmanna Það hlýtur að vera meðal hlutverka lögmanna og Lögmannafélags Íslands að stuðla að því að fólki sé tryggð réttlát málsmeðferð fyrir dómi. Oft er fjárhagur fólks með þeim hætti að það á erfitt með að standa straum af kostnaði við málssókn eða málsvörn. Sem dæmi má taka einstakling sem lendir í vinnuslysi og þarf að láta reyna á hvort skaðabótaskylda sé fyrir hendi hjá vinnuveitanda. Mikill kostnaður getur verið við málssókn, öflun matsgerða o.fl. sem getur reynst viðkomandi ofviða fjárhagslega og má einstaklingurinn sín ekki mikils gagnvart fyrirtæki sem getur staðið straum af málsvörn, oftast með atbeina vátrygg inga- félags. Lokaorð Hvernig viljum við haga gjafsókn hér á Íslandi? Viljum við tryggja sumum rétt til gjafsóknar og öðrum ekki, samanber það að í ákveðnum málaflokkum er gjafsókn lögbundin eða kostnaður greiddur úr ríkissjóði, algjörlega óháð tekjum viðkomandi? Þetta eru grundvallarspurningar sem lögmenn þurfa að ræða og komast að skynsamlegri niðurstöðu um og þá eftir atvikum að beita sér fyrir breytingum á núverandi lögum og reglugerð með það að markmiði að tryggja fólki réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Tilkynning Fjárhæð starfsábyrgðartryggingar lögmanna. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr., sbr. 25. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, sbr. lög 93/2004, ber sérhverjum sjálfstætt starfandi lögmanni að hafa gilda starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum þeirra eða starfsmanna þeirra. Nánari útfærslu á þessari tryggingaskyldu er að finna í reglugerð nr. 200/1999 þar sem m.a. kemur fram að lágmarkstryggingafjárhæð, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs, er í dag kr. 23.897.000. Þá kemur fram í reglugerðinni að ef tveir eða fleiri lögmenn starfi saman með sameiginlega starfsstofu teljist þeir fullnægja tryggingarskyldu sinni með því að leggja fram sameiginlega tryggingu enda sé lögð fyrir Lögmannafélagið yfirlýsing um óskipta bótaábyrgð. Hækkar lágmarkið þá um 10% fyrir hvern lögmann umfram einn. Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. lögmannalaga er lögmanni heimilt með samningi um ákveðið verk að takmarka hámark bótaskyldu sinnar vegna rækslu þess við tiltekna fjárhæð sem þó nemur að minnsta kosti lágmarki ábyrgðartryggingar. Slík takmörkun bindur aðeins viðsemjanda lögmanns og getur ekki náð til annars tjóns en þess sem stafar af einföldu gáleysi. Þrátt fyrir þessa heimild er sjaldgæft að lögmenn nýti sér hana í samningum við umbjóðendur sína. Mun algengara er að lögmenn og lögmannsstofur kaupi sér þess í stað ábyrgðartryggingu fyrir mun hærri tryggingafjárhæð en framangreindar reglur kveða á um, enda geta þeir hagsmunir sem lögmenn gæta fyrir sína umbjóðendur verið margfalt hærri en lágmarkstryggingarverndin kveður á um. Það er afar mikilvægt að lögmenn geri sér grein fyrir þeirri fjárhagslegu áhættu sem kann að fylgja hagsmunagæslu í stórum málum og uppfæri tryggingavernd sína og starfsmanna sinna til samræmis við það. velflest íslensk tryggingafélög bjóða viðskiptavinum sínum að meta áhættur í rekstri og eru lögmenn hvattir til að nýta sér það og uppfæra tryggingavernd sína til samræmis við niðurstöðu slíks áhættumats.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.