Lögmannablaðið - 01.03.2010, Blaðsíða 24

Lögmannablaðið - 01.03.2010, Blaðsíða 24
24 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 1 / 2010 Af Merði lögmanni Ástandið hjá Merði er jafnt slæmt og áður. Þegar bankarnir réðu lögmenn á himinháum launum varð Mörður útundan af einhverjum ástæðum. Sennilega ekki talinn hafa þann sjarma sem bankalögmenn þurfa að hafa. Útrásarvíkingar höfðu heldur engan áhuga á Merði. Það kann líka að hafa eitthvað með útlitið að gera og svo er Mörður ekki lipur skíðamaður. Því var lítið annað að gera hjá Merði í góðærinu en að skipta dánarbúum hjá gömlum sveitungum. Svo náði Mörður á tímabili að væla út hjá héraðsdómstólunum nokkur þrotabú til skipta en það hætti þegar lítil bólaði á skiptalokum. Eftir fall bankanna taldi Mörður óhugassandi annað en að hann færi í skilanefndir og slitastjórnir enda eini lögmaðurinn sem ekki var flæktur inn í bankana og útrásina. Enn var horft framhjá Merði og ungir og óreyndir lögmenn sem taka þóknun á tímann sem nemur vikulaunum Marðar voru ráðnir þess í stað. Nú er svo komið að Mörður er við það að fara á hausinn. Varð á í góðærinu að kaupa bíl með gengistryggðu láni sem að auki er alltaf að bila. Meira að segja bílflautan virkaði ekki þegar Mörður var mættur fyrir utan bankann til að mótmæla. Hann veltir fyrir sér að fá greiðsluaðlögun og nýta svo þá reynslu til að ráðleggja almenningi sem á í fjárhagsvandræðum. Mörður hefur alltaf talið sig vera listamann í lögfræði. Greinargerðir Marðar eru með slíkum texta að höfundur Njálu væri fullsæmdur af. Ekki er málflutningur Marðar síðri. Taldi Mörður því réttast í fjárhagsvandræðum sínum að sækja um listamannalaun. Merði var hafnað þar sem annars staðar á þeim forsendum að lögfræði teldist ekki til listgreina. Annað væri ef Mörður hefði búið til bíómynd. Þá væru talsverðar líkur á listaminnmannalaunum, sérstaklega ef myndirnar væru klleiðinlegar. Merði var þó bent á að útlit hans og óreiðan á skrifstofunni gæti flokkast undir gjörning. Því gæti hann sótt um tímabundin starfslaun sem nýlistamaður. Sú umsókn er til meðferðar um þessar mundir. Mörður lætur gagnrýni um úthlutun listamannalauna sem vind um eyru þjóta. Það má ekki skerða úthlutun til menningarinnar þótt kreppi að. Ef þjóðin ætlar ekki að missa þessa miklu listamenn úr landi þarf að greiða þeim almennileg laun - það hljóta allir að sjá. Hvar væri þjóðin stödd ef kvikmyndin Löggulíf hefði ekki verið gerð? Svo ekki sé minnst á Dalalíf. Þjóðin væri andlega örkumla. Mörður telur að það þurfi að auka fjármagn til listarinnar og þar má ekki skilja nýlistina útundan. Auðvitað er hrúgan á skrifborði Marðar lögmanns ekki óreiða heldur tjáning listamannsins Marðar og skilaboð til umheimsins. Merði finnst nýr heimur hafa opnast og er að hugsa um að leggja lögfræðina á hilluna og einbeita sér að listinni. Svo gæti Mörður vel hugsað sér einhver aukastörf, t.d. þingmennsku og þá helst einn í flokki því hann hefur misst trúna á Framsóknarflokkinn með fermingardrengina í bílstjórasætinu. *Til fjölda ára hefur Mörður lögmaður sent vélritaða pistla sína í Lögmannablaðið í brúnu umslagi á skrifstofu félagsins. Framvegis verða pistlarnir skannaðir inn og birtir eins og þeir koma frá lögmanninum. xx xxxx xx

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.