Lögmannablaðið - 01.12.2014, Blaðsíða 24

Lögmannablaðið - 01.12.2014, Blaðsíða 24
24 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/14 Á LÉTTUM NÓTUM Af Merði lögmanni Mörður hafði lengi ætlað sér að fara í átak í markaðsmálum enda hafði markaðssetning á rekstri hans sem lögmanns fram til þessa gengið út á að hann var með lítinn kassa með titlinum „Sinni lögmannsstörfum“ á gulu síðum símaskrárinnar. Þótt Mörður hefði allajafna ekki miklar áhyggjur af þessu hafði hann fylgst með kollegunum gorta sig af stórauknum viðskiptum eftir að menn opnuðu einhvers konar samfélagsmiðla eða vefsíður um tiltekin málefni. Einn hafði t.d. mokgrætt á vef sem hét www.farduáhausinn.is og aðstoðaði fólk við einmitt það, þ.e. að fara í gjaldþrot. Þótt hann mætti í sjálfu sér ekkert vera að því, sökum annríkis í stóru sakamáli, sem Mörður hafði náð að koma sér inn í sem verjandi, þá skaut hann inn fundi með manni frá auglýsingastofu. Viðfangsefni fundarins voru markaðsmál í rekstri lögmannsstofu og hafði auglýsingamaðurinn ýmsar hugmyndir og fullyrti margt, m.a. að reynsla og vigt skiptu öllu máli. Þannig vildu flestir vera í viðskiptum við lögmannsstofur sem hefðu verið lengi í bransanum, eins og víða úti í heimi, þar sem lögmannsstofur hefðu jafnvel verið starfandi öldum saman. Þótt Mörður minntist þess ekki að langlífi hans í lögmennsku hefði þótt kostur fyrr en á þessari stundu, þá hóf hann að rekja störf sín, forvera sinna og forfeðra fyrir auglýsingamanninum í löngu máli. Hann sagði deili á mönnum og helstu einkennum þeirra og frægum málum sem flutt höfðu verið og hversu ölvaðir menn hefðu verið við hinu ýmsustu lögmannsstörf hér á árum áður. Auglýsingamaðurinn virtist láta sér þetta vel líka og punktaði niður af ákefð og þegar þeir kvöddust með virtum mörgum klukkustundum síðar sagðist hann ætla að senda Merði tillögur mjög fljótlega. Mörður varð hins vegar að setja þessar vangaveltur frá sér í kjölfarið. Framundan var stórt sakamál þar sem vammlaus fjárfestir og athafnamaður hafði verið dreginn í svaðið ásamt viðskiptafélögum sínum af hálfu saksóknara og starfsmanna hans. Mörður hugsaði oft með sér að ekki kæmi honum á óvart að starfsliðið hjá þessum ágæta saksóknara hefði verið þjálfað í gamla Austur- Þýskalandinu, slík voru vinnubrögðin og hann hafði sjálfur alfarið sleppt því að tala í síma undanfarin misseri og vildi helst eiga sína fundi á gangi um Hljómskálagarðinn þar sem tryggt væri að á línunni væru ekki eftirlitsmenn. Aðalmeðferð málsins var löng og ströng og dugði ekkert minna en fimm vikur af stöðugum réttarhöldum. Austurþýski saksóknarinn reyndi ýmislegt til að sýna fram á sekt sakborninganna, m.a. var spákona fengin í dómsalinn og spurð hvort hún sæi einhver afbrot vera framin og leikhópur úr áhugamannaleikhúsi kom fyrir dóminn til að líkja eftir hegðun fólks á markaði. Mörður varðist vitaskuld fimlega og hafði látið taka frá tvo heila daga fyrir sig þegar kom að ræðuhöldum. Fyrri daginn fór hann yfir söguna og bakgrunninn, ekki eingöngu í þessu máli heldur í ýmsum öðrum og almennt í lögfræðinni, enda engan veginn hægt að leggja mat á málið öðruvísi en að rifja upp grunnrök og tilurð réttarríkisins og hugmynda Grikkja og annarra andans jöfra til forna um réttlætið. Þegar Mörður hafði lokið sér af fyrri daginn og var að undirbúa sig fyrir þann seinni vildi svo til að honum barst umslag með tillögum frá auglýsingamanninum sem hann hafði hitt á dögunum. Þær voru í anda þess sem þeir höfðu rætt, um að leggja áherslu á söguna og Mörður sá strax fram á að hann myndi fara eftir þessum tillögum. Þannig var t.d. lagt til að reksturinn yrði framvegis undir nafninu Mörður – lögmannsþjónusta síðan 1823 en þangað hafði Mörður getað rakið sögu sína og forfeðra sinna og ýmissa vina þeirra sem höfðu stundað lögmennsku og embættisstörf af einhverju tagi. Mörður var því fullur andagiftar á síðari degi ræðuhaldanna og hélt mikla þrumuræðu sem hann endaði svo með að gera grein fyrir tímaskýrslu sinni í málinu. Alls taldist Merði til að farið hefðu í málið hátt í 100 þúsund útseldir tímar lögmanns og sá hann dómarana, sakborningana og fulltrúa saksóknara vakna koll af kolli við að heyra þessa tölu. Eftir að dómsformaðurinn hafði nuddað augun vel og lengi var Mörður beðinn um að endurtaka og útskýra nánar tímafjölda sinn í málinu. Vel nestaður af tillögum auglýsingamannsins varð Merði auðvitað ekki skotaskuld úr því. Hann benti á að hann starfaði á lögmannsstofu sem hefði verið í rekstri í hartnær 200 ár og auðvitað yrði að rukka hvern útseldan tíma, jafnvel þá tíma hefðu verið unnir fyrir margt löngu, þegar forfeður hans í lögmennsku hefðu verið að kynna sér réttlætishugtak Forn-Grikkja og aðrar merkar hugmyndir sem hann hefði svo byggt málflutning sinn á í þessu máli. Þótt vissulega væri nokkuð um liðið frá því að hin eiginlega vinna á bak við þá tíma var unnin gætu menn ekki ætlast til þess að sú vinna yrði gefin eða fengist ókeypis í máli sem þessu. Þegar Mörður gekk út úr dómsalnum velti hann fyrir sér hvort það væri ekki rétt að bæta við slagorði í markaðsherferðina: Lögmannsþjónusta sem stenst tímans tönn.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.