Lögmannablaðið - 01.12.2014, Blaðsíða 27

Lögmannablaðið - 01.12.2014, Blaðsíða 27
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/14 27 Á LÉTTUM NÓTUM trúarbrögð, styrjaldir og hvað eina sem við spurðum um. Leiðsögn hennar í þessari ferð var frábær og vakti upp áhuga á að kynna sér að nýju gríska goðafræði og sögu. Síðast en ekki síst löngun til þess að koma aftur til Grikklands og skoða fleira. Við komum til Aþenu um miðjan dag og tími gafst til að fara stutta skoðunarferð út frá hótelinu okkar en það var stutt ganga þaðan á Akropolis og í gamla bæjarhlutann, Plaka. Þóra kynnti fyrir okkur þar gríska matarhefð og ýmislegt úr sögu Grikklands. Á mörgum veitingastöðum í Aþenu er lifandi tónlist og eru Grikkir greinilega stoltir af tónlistararfi sínum því lög Mikis Theodorakis og fleiri grískra tónskálda hljómuðu þar. Þóra eyddi þeirri ranghugmynd okkar að það væri mikil mengun í Aþenu en eftir umbætur fyrir Ólympíuleikana árið 2004 gjörbreyttist borgin og sannreyndum það að skyggni var gott og loftið hreint í Aþenu. Mannkynssaga í minjum Þann 24. september fórum við í skoðunarferð á Akropolis. Að skoða Akropolishæðina er fyrir áhugafólk um sögu og menningu veisla fyrir augu og huga. Að standa við rústir bygginga og leggja hönd á stein, sem felldur var í vegg fyrir rúmlega 2400 árum, er líkt og að ná óljósri tengingu til fyrri alda. Byggingarnar voru hannaðar af verkfræðilegri þekkingu og hugviti og enn í dag er ekki ljóst hvernig verkið var framkvæmt. Byggingarnar voru síðan reistar af fjölda þræla. Þær hafa staðist tímans tönn þótt jarðskjálftar og fjöldi styrjalda hafi tekið sinn toll. Það er mögnuð reynsla að feta slóðir þar sem Aristoteles, Platon, Sókrates og Stóuspekingarnir gengu og mannkynssagan er skráð í minjum við hvert fótmál. Ekki síst er það stórkostlegt að reyna að ímynda sér það að höfuðdjásn Akropolishæðarinnar, Parþenon eða Meyjarhofið eins og við köllum það, var reist um 1300 árum áður en Ingólfur Arnarson fann Ísland. Hvar voru forfeður okkar norrænna manna þá? Höfuðdjásn Aþenu Meyjarhofið var byggt til dýrðar gyðjunni Aþenu á árunum 447 – 432 f. Kr. og er höfuðdjásn Aþenuborgar, tákn hins forna Grikklands og einar merkustu menningarminjar í heimi. Árið 1687 skemmdist hofið mikið í stríði Feneyjamanna og Ottómana, sem þá réðu Grikklandi, sem fengu þá „góðu“ hugmynd að hofið væri upplögð skotfæra­ og sprengiefnageymsla. Í British Museum er fjöldi höggmynda og skreytinga frá hofunum á Akropolis. Þar má m.a. sjá svokallaðar Elgin – lágmyndir sem voru í Meyjarhofinu en Tyrkir, sem réðu Grikklandi, seldu þær til Bretlands ásamt fjölda annarra muna árið 1816. Grikkir hafa lengi reynt að fá minjarnar frá Akropolis til baka en án árangurs. UNESCO beitir sér nú fyrir því að samningum verði lokið og fornminjum skilað til síns heima. Mun í þessu sambandi vera litið til þeirrar fyrirmyndar er Danir skiluðu Íslendingum handritunum 21. apríl 1971 sem er nánast einstakt á heimsvísu. Í því felst viðurkenning á því að menningarverðmæti beri að varðveita í því landi þaðan sem þau eru sprottin. Nú er unnið að viðhaldi Meyjarhofsins í þeim tilgangi að vernda það í þeirri mynd sem það er í og er ætlað að það verk muni standa yfir til ársins 2065. Grikkir leggja nú mikla rækt við fornminjar sínar og strangar reglur gilda um varðveislu minja sem finnast. Hæstaréttarlögmennirnir í hópnum stilltu sér upp við Areopagus. F.v. Jón Rúnar Pálsson, Ragnar H. Hall, Jónas Guðmundsson, Ingi Tryggvason, Gestur Jónsson, Lára V. Júlíusdóttir, Guðjón Ólafur Jónsson, Bjarni G. Björgvinsson, Garðar Garðarsson og Óskar Sigurðsson. Móttökur hjá aþenska lögmannafélaginu voru höfðinglegar.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.