Lögmannablaðið - 01.03.2014, Blaðsíða 25

Lögmannablaðið - 01.03.2014, Blaðsíða 25
lögMannaBlaðið tBl 01/14 25 Á léttUM nótUM af Merði lögmanni Mörður lögmaður hefur tekið tæknina í sína þjónustu. Hefur lagt gömlu rafmagnsritvélinni, sem hefur þjónað honum frá upphafi ferilsins, og tekið fartölvu, i-síma og i-pata til notkunar. Ekki veitir af því Mörður hefur verið önnum kafinn frá vetrarsólstöðum eftir að hafa loksins fengið boð frá Flokknum um langþráða skipun í trúnaðarstörf. Situr Mörður nú í ráðherraskipuðum stýrihópi um framtíðartillögur að nýsköpun í landbúnaðarþróunarmálum. Hefur stýrihópurinn þegar stofnað sjö undirnefndir til að styðja við vinnuna og situr Mörður í þeim öllum. Mörður hefur á síðustu vikum ferðast víða um heim til að viða að sér frekari þekkingu og alfarið látið vera að bítast við yngri lögmenn um þá þverrandi auðlind sem skipti þrotabúa eru þessa dagana. Ekki nóg með það heldur stofnaði Mörður, ásamt aldraðri móðursystur sinni, sérstaka deild innan Átthagafélags Strandamanna, sem nefnist „Áhugafólk um hrútaþukl“. Varla hafði tilvist hinnar nýju deildar verið kynnt þegar sú ánægjulega tilkynning barst Merði með sms-skeyti úr forsætisráðuneytinu að verkefnið hefði fengið myndarlegan fjárstyrk. Tók Mörður strax þá ákvörðun að verja styrknum til frekari kynningar erlendis á þessari fornu og merku list íslenskra bænda sem og að halda hrútaþuklsþing í heimahéraði. En Mörður sér nú óveðursský hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Virðist sem nú ætli að sannast það sem Mörður hefur löngum haldið fram að frjálsir fjölmiðlar séu af hinu illa. Fjölmiðlamenn, og aðrir sjálfskipaðir sérfræðingar, virðast ekkert betra hafa við tímann að gera en flækjast fyrir vel meinandi og dugmiklum mönnum, snúandi út úr öllum þeirra góðu verkum. Það eru orð að sönnu sem merkur maður - reyndar náfrændi Marðar - hefur oftsinnis haldið fram: „Það þarf bara eina ríkissjónvarpsstöð og eitt ríkisdagblað, rekið af fólki með réttar skoðanir“. Hér er að mati Marðar heldur betur tilefni fyrir stjórn Lögmannafélagsins að birta ályktun um aðgæslu og heppilegar úrbætur á þessu sviði. Ástæða þessa viðsnúnings á velgengni Marðar er sú að síðustu helgina í febrúar átti hann leið um miðbæinn, þar sem hann rakst á fjölmarga félaga sína úr lagadeilinni á Austurvelli. Urðu miklir fagnaðarfundir og svo fór að tekin var upp gömul íþrótt námsáranna að kveðast á, á milli þess sem menn börðu sér til hita þarna í febrúar nepjunni. Dvaldist Merði í félagsskapnum um stund þar sem hann ýmist henti fram fyrriparti eða botnaði með seinniparti milli þess sem hann dreifði boðsmiðum á hrútaþuklsþingið. Fréttasnápur sem var staddur var þarna í fjölmenninu, tók kveðskapinn upp og birti með frétt um mótmæli gegn þingsályktunartillögu um slit á Evrópusambandsviðræðum sem áttu sér víst stað á sama tíma. Hreðja-fínir hrútar tveir, hreinir upp til fjalla. Þingmenn vilja þukla meir, þröng um alla palla. Mörður horfði á myndskeiðið í kvöldfréttunum þar sem kveðskapurinn um hrútaþuklþingið hljómaði eins og argasta níðvísa um sitjandi ríkisstjórn. Nýi i-síminn hafði jarmað stöðugt frá því myndskeiðið birtist og hafði þegar fengið smáskilaboð frá utanríkisráðuneytinu. Mörður slökkti á eplasjónvarpinu og lagði ekki í að opna tölvuna til að lesa hvað bloggheimar segðu um kveðskapinn. Honum var þungt í sinni og hugsaði að sjálfsagt yrði hann að ná sér í eitt eða tvö bú til að skipta á næstunni, að minnsta kosti þar til fjölmiðlafárið gengi yfir.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.