Lögmannablaðið - 01.10.2014, Blaðsíða 20

Lögmannablaðið - 01.10.2014, Blaðsíða 20
20 löGmannaBlaÐiÐ tBl 03/14 Á léttUM nótUM af merði lögmanni Þegar Mörður hafði heyrt af því nánast linnulausar fréttir dögum saman að uppnám væri í hluthafahópi tiltekins fjölmiðils hér í bænum og að haldnir væru hluthafafundir heilu og hálfu dagana ákvað hann að draga fram úr skjalabunkanum gömlu hlutabréfamöppuna sína. Þar sem Mörður er langhlaupari í fjárfestingum, en ekki þjakaður af skammtímahugsun, kenndi ýmissa grasa, m.a. hlutabréf í Hafskip og Miklagarði. Mörður hafði þráskallast við að afskrifa úr efnahagsreikningi sínum þrátt fyrir tilmæli frá endurskoðandanum. Þegar hann fór neðar í bunkann fann hann svo skjal upp á 0.12% hlutafjáreign í fjölmiðlinum umdeilda. Hlutaféð hafði Merði áskotnast sem greiðsla upp í reikning fyrir margt löngu, enda allt hey í harðindum. Ekki svo að skilja að Mörður hefði neinn áhuga á rekstri fjölmiðla, frekar en nokkur þeirra sem mætti á hluthafafundina og tjáði sig opinberlega um málið. En eftir að hafa séð alla helstu lögmenn landsins á sjónvarpsskjánum dag eftir dag á hluthafafundunum fannst Merði óeðlilegt að sitja heima mikið lengur. Hann gætti því vel að því að vera í mynd þegar hann gekk inn á hinn boðaða hluthafafund, gekk hægum skrefum inn ganginn og svo til baka því hann var ekki viss um að sjónvarpsupptökuvélarnar höfðu náð sér. Eftir að hafa tekið nokkrar ferðir fram og aftur ganginn framhjá furðu lostinni stúlkunni, sem sá um að skrá menn inn á fundinn, sá Mörður loksins færi á að gulltryggja nærveru sína á skjánum þegar hann sá ungan fréttamann af Stöð 2, sem var þekktur fyrir að flytja eingöngu fréttir í beinni útsendingu, vera að stilla sér upp. Mörður tók sér stöðu í seilingarfjarlægð og gaf til kynna með látbragði og augngotum að hann væri tilbúinn í viðtal ef svo bæri undir. Og viti menn, fréttahaukurinn ungi vatt sér í miðri beinni útsendingu upp að Merði með þeim orðum að hér væri vel þekktur lögmaður mættur til að taka þátt í fundinum og fróðlegt væri að heyra hans álit á stöðu fjölmiðilsins. Mörður hafði hins vegar ekki reiknað með því að fréttamaðurinn ungi hafði tekið tvö eða þrjú námskeið í lögfræði fyrir margt löngu og lagt á minnið helstu latnesku frasa réttarheimspekinnar. Hann átti það því til að fara í hálfgerða leiðslu í viðtölum og tala tungum við viðmælendur sína. Þegar hljóðneminn var rekinn í andlitið á Merði fylgdi með spurninginn: „Mörður, quis custodiet ipsos custodes?” Latína hafði aldrei verið hans sterka hlið þótt það væri gott að grípa til hennar þegar nauðsynlega þurfti að afvegaleiða kúnna á erfiðum fundum. Mörður horði því lengi vel á fréttamanninn unga áður en hann svaraði með því eina sem honum datt í hug: „Veni, vidi, vici“. Fréttamaðurinn þakkaði kærlega fyrir, sneri sér í myndavélina og sagði að þessi orð lýstu vel stemningunni á fundinum. Ekki tók betra við á fundinum. Mörður skráði sig strax á mælendaskrá og fékk þau svör að hann væri nr. 37 á listanum. Átta tímum síðar, þegar komið var fram yfir miðnótt og Mörður hafði náð að dotta líkt og í góðri aðalmeðferð, gat hann hafið upp raust sína og rifjað upp gamla takta í félagaréttinum. Þegar öll umboð voru talin saman út frá nýjustu samþykkt stjórnarinnar um að enginn hluthafi mætti fara með meira en 1.5% hlutafjár, nema ritstjórinn, amma ritstjórans og einn gamall drykkjufélagi hans að vestan sem fóru með 10% hver, lágu atkvæði þannig að 49.94% stuðningur var við núverandi stjórn en nákvæmlega sami fjöldi vildi hana burt. Það var því undir Merði, með sín 0.12% hlutafjár, komið hvernig framtíðarstjórn miðilsins yrði. Mörður var eldri en tvævetur og vissi sem var að svona aðstæður varð að nýta til hins ítrasta. Það fór því svo, eftir langar samningaviðræður við báða aðila langt fram undir hádegi næsta dag, að fyrsta verk nýkjörinnar stjórnar hlutafélagsins var að skipa nýráðnum ritstjóra að gera „Nærmynd“ af „heitasta lögmanni bæjarins“.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.