Lögmannablaðið - 01.10.2014, Blaðsíða 28

Lögmannablaðið - 01.10.2014, Blaðsíða 28
28 löGmannaBlaÐiÐ tBl 03/14 aðsent efni stefÁn A. sVensson Hrl., ll.M. Erlendar réttarreglur og sönnun á þeim inngangur Í réttarframkvæmd síðustu ára, einkum í málum er tengjast uppgjöri á slitabúum föllnu bankanna, hefur talsvert reynt á erlendar réttarreglur. Svo dæmi sé tekið hefur þurft að leysa úr sakarefnum á grundvelli bandarískra, enskra og hollenskra réttarreglna. Mál sem þessi, sem eru oft á tíðum nokkuð flókin og mikil að umfangi, þurfa lögmenn því að byggja upp og reifa á grundvelli hinna erlendu réttarreglna sem við eiga hverju sinni. Getur slíkt vissulega verið talsverð raun, ekki einasta fyrir lögmenn heldur líka dómara, enda ristir þekking á erlendum réttarreglum trauðla jafn djúpt og þegar innlendar réttarreglur eru annars vegar. Við bætist síðan að hinar erlendu réttarreglur eru stundum lítt aðgengilegar. Þannig nýtur ekki alltaf við settra laga sem taka til þess sakarefnis sem um ræðir heldur þarf að leiða réttinn af erlendri dómaframkvæmd og sitt sýnist þá hverjum um hvernig túlka megi einstaka dóma. Þegar settra laga nýtur á annað borð við kann einnig að vera ágreiningur um hvernig skýra beri viðkomandi lög. Þá horfir það heldur ekki til einföldunar að hér reynir á reglur og sjónarmið um sönnun, en samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu að leiða tilvist og efni hennar í ljós. Kemur þá til álita hvernig slíkum sönnunarkröfum verði fullnægt. sönnun á erlendum réttarreglum, þ.á m. í ljósi dómaframkvæmdar Í stuttri samantekt sem þessari eru ekki efni til að rannsaka og fjalla ítarlega um þá dóma sem fallið hafa og lúta að sönnun á erlendum réttarreglum, þótt slíkt sé verðugt rannsóknarefni. Þess í stað verður látið við það sitja að nefna nokkra dóma sem geta veitt vissa leiðsögn. Þó verður hér, sem endranær, að hafa hugfast að það hvort sönnun hafi tekist er eðli málsins samkvæmt alltaf háð ákveðnu mati á aðstæðum og atvikum í hverju máli fyrir sig. Verður því til samræmis að gjalda varhug við að draga of víðtækar ályktanir af einstökum dómum sem gengið hafa. Í dómi Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 620/2010 (William Fall gegn ALMC hf.), sem var einn fyrsti dómurinn þar sem reyndi á sönnun erlendra réttarreglna í málum er tengjast slitabúum föllnu bankanna, lá fyrir álit frá breskum lögfræðingi, en með framlagningu þess var leitast við að sanna tilvist og efni erlendra réttarreglna. Í dómi Hæstaréttar sagði að í þessu skjali væri ekki leitast við að veita hlutlægar almennar upplýsingar um efni þeirra erlendu réttarreglna sem kynnu að skipta máli við úrlausn málsins. Skjalið innihéldi aðeins álit lögfræðings á vissum þáttum sem snertu réttarstöðu málsaðila. Málsaðilar hefðu ekki forræði á því að tilgreina efni erlendra lagareglna fyrir íslenskum dómstólum. Með öðrum orðum virðist hafa verið litið svo á að umrætt álit, eins og það var úr garði gert, gæti ekki talist fela í sér sönnun fyrir tilvist og efni hinna erlendu réttarreglna. Í dómi Hæstaréttar 16. ágúst 2012 í máli nr. 410/2012 (Kaupþing banki hf. gegn Commerzbank AG) sagði að sönnunarskyldu um efni og tilvist erlendrar réttarreglu samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 yrði ekki fullnægt með því að afla álits hjá erlendum málflytjendum eða öðrum sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Eins stæðu lög því í vegi að slíkur aðili gæfi vitnaskýrslu enda ekki vitni að málsatvikum sem yllu ágreiningi milli málsaðila. Af fyrrgreindum dómum verður þannig ráðið að aðili verður að jafnaði ekki talinn hafa axlað sönnunarbyrði sína fyrir efni og tilvist erlendrar réttarreglu með því að leggja fram álit þar að lútandi. Annað og meira þurfi að koma til. Í sumum tilvikum hefur málsaðilum lánast að sanna tilvist og efni erlendra réttarreglna. Hér má í dæmaskyni nefna dóm Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 300/2011, sem er eitt af neyðarlaga­ og innstæðumálunum svokölluðu. Í því máli var leyst úr ágreiningi um rétt til vaxta á grund­ velli hollenskra réttarreglna. Voru hinar hollensku réttarreglur, sem á reyndi, teknar sérstaklega upp í forsendum Hæstaréttar og lagðar til grundvallar við úrlausnina. Við sama tón kvað, svo dæmi sé tekið, í dómi Hæstaréttar

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.