Lögmannablaðið - 01.10.2014, Blaðsíða 29

Lögmannablaðið - 01.10.2014, Blaðsíða 29
löGmannaBlaÐiÐ tBl 03/14 29 aðsent efni stefÁn A. sVensson Hrl., ll.M. 28. október 2011 í máli nr. 310/2011, sem varðaði líka neyðarlögin og skilgreiningu innstæðuhugtaksins, en þar var leyst úr ágreiningi um rétt til vaxta eftir breskum réttarreglum sem voru teknar upp í forsendum Hæst a­ réttar og jafnframt vísað til nokkurra dóma breskra dómstóla sem þýðingu höfðu fyrir úrlausnarefnið, meðal annars dóms frá árinu 1864. Í dómum Hæstaréttar 27. septem­ ber 2013 í máli nr. 343/2013 og máli nr. 344/2013 (Deutsche Bank Trust­ Company Americas gegn Kaup þingi hf.) bar svo við að máls aðilar lögðu fram sameiginlega bókun um efni þeirra erlendu réttarreglna sem á reyndi. Var raunar enginn ágrein ingur um efni hinna erlendu réttarreglna heldur fremur um þau málsatvik sem leysa átti úr á grundvelli þeirra. Að efni þessarar bókunar var vikið í dómum héraðsdóms og Hæsta réttar og virtist hún hafa haft visst vægi. Á hinn bóginn lágu jafnframt fyrir í málunum fjölmargir erlendir dómar sem vörðuðu álitaefnið og var bókunin í reynd ekki annað en samantekt á þeim sjónarmiðum sem mátti lesa úr þeim, en hér var aðstaðan sú að ekki naut við neinna erlendra settra laga sem tóku beinlínis til úrlausnarefnisins. Stendur væntanlega ekkert því í vegi að málsaðilar lýsi sjálfir yfir sameiginlegum skilningi sínum á efni og tilvist hinna erlendu réttarreglna í formi bókunar, til einföldunar og hagræðis, þótt slíkt bindi vitaskuld ekki hendur dómara og geti tæpast eitt og sér talist fullnægjandi sönnun, sbr. hér einnig áðurgreindan dóm í máli nr. 620/2010. Þá verður heldur ekki ráðið að fundið sé að því að aðilar láti útbúa hlutlausar samantektir á efni erlendra réttarreglna, svo sem í formi álita, og leggi fram til fyllingar framlögðum réttarreglum, dómum og fræði­ kenningum. Slíkar samantektir fela vissulega ekki í sér sönnun á efni og tilvist erlendra réttarreglna einar sér en geta þó, rétt eins og bókanir, verið til einföldunar og hagræðis og þannig að samhengið sé sem skýrast. sönnun í formi matsgerðar Svo sem leiða má af framangreindri umfjöllun er sönnun á efni og tilvist erlendra réttarreglna flókið viðfangsefni, hvað þá þegar engra settra laga nýtur við. Víkur þá næst að nýgengnum dómi Hæstaréttar 8. maí 2014 í máli nr. 120/2014 (De neder­ landsche Bank n.V. gegn LBI hf.). Hér var meðal annars deilt um hvort málsaðili ætti veð til tryggingar kröfu sinni í slitabú á grundvelli hollenskra lagareglna. Í dómi Hæstaréttar sagði að í stað þess að afla matsgerðar um tilvist og efni þeirra hollensku lagareglna sem á reyndi í málinu hefði aðilinn freistað þess að axla sönnunarbyrði sína með því að fá lögmann og lagaprófessor til að taka saman álitsgerðir um efnið. Andspænis þeim stæðu álitsgerðir lögmanna sem lagðar hefðu verið fram af gagnaðila þar sem komist var að gagnstæðri niðurstöðu um efni reglnanna. Af þessum gögnum yrðu engar einhlítar ályktanir dregnar um hvort stofnast hefði veðréttur. Efni þeirra hollensku lagareglna sem á reyndi við mat á því hvort fyrir hendi væri veðréttur væri því ósannað. Af þessum dómi virðist mega ráða að engar hömlur séu við því að aðilar freisti þess að axla sönnunarbyrði um efni og tilvist erlendra réttarreglna í formi öflunar matsgerða, sbr. nánar efni IX. og XII. kafla laga nr. 91/1991. Leiðsögn réttarins í þessu tilliti horfir því til einföldunar þegar kemur að því að reyna að sanna efni og tilvist erlendra réttarreglna í framtíðinni, en fyrir þennan dóm hafði nokkuð verið um það rætt meðal lögmanna hvort sönnunarfærsla væri heimil í formi matsgerða í þessu samhengi. Enskur réttur Að síðustu má, til samanburðar, bregða ljósi á hvernig sönnun erlendra réttarreglna horfir við í enskum rétti, en þar reynir iðulega á sönnun slíkra reglna. Ensk réttarfarslög (e. English Civil procedure Rules) heimila sérfræðivitni (e. expert witness), sem málsaðilar leiða í reynd fram hvor fyrir sitt leyti. Er algengt að þau skili skriflegum skýrslum um efni og tilvist erlendra réttarreglna og þá gagngert með tilliti til fyrirliggjandi réttarágreinings. Á þeim hvílir hins vegar, að lögum, trúnaðarskylda gagnvart réttinum sem gengur framar hvers konar trúnaðarskyldum gagnvart umbjóðandanum. Það kemur síðan í hlut dómsins að dæma eftir hinum erlendu réttarreglum, þ.á m. að leggja mat á vægi þeirra sérfræðiskýrslna sem fyrir liggja. Þessi aðferð við sönnun er, a.m.k. fyrir málsaðila, nokkuð einföld og þægileg í sniðum. Hún er þó e.t.v. ekki ýkja vel til þess fallin að bregða ljósi á tilvist og efni erlendra réttarreglna ef fleiri en ein skýrsla liggja fyrir sem leiða til mismunandi niðurstaðna eins og oft vill verða þegar tveir deila. samantekt Til samræmis við ofangreint virðist mega draga þær ályktanir af fyrir­ liggjandi réttarframkvæmd að nauð­ synlegt sé, til að aðili geti talist hafa axlað sönnunarbyrði sína um efni og tilvist erlendra réttarreglna, og að því gættu að ekki sé aflað matsgerðar, að leggja fram hinar eiginlegu réttar­ heimildir, svo sem lög og dóma. Fram­ lagning álita og bókana, til fyllingar lögum og dómum, getur verið til upp­ lýsingar og svo samhengið sé sem skýrast en getur vart eitt og sér falið í sér viðhlítandi sönnun á tilvist og efni erlendra réttarreglna. Þá getur verið æskilegt og jafnvel nauðsynlegt, ef réttmætur vafi er um efni og tilvist hinna erlendu réttarreglna, að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna þar að lútandi.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.