Lögmannablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 9

Lögmannablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 9
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/15 9 LAGADAGUR einfaldlega nýtur engrar verndar vegna 17. gr. MSE. Niðurstaða dómstólsins í slíkum tilvikum er að kæra þess sem refsað hefur verið vegna slíkrar tjáningar fær ekki efnismeðferð og er vísað frá dómstólnum. 17. gr. MSE hefur hins vegar í framkvæmd dómstólsins verið túlkuð mjög þröngt og tjáning í formi hatursáróðurs hefur sjaldan verið beitt í slíkum málum. 73. gr. stjórnarskrárinnar túlkuð með hliðsjón af 17. gr. MSE? Róbert taldi ekkert því til fyrirstöðu að ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar yrði túlkað í ljósi 17. gr. MSE, jafnvel þótt slíkt ákvæði væri aðeins að finna í almennum lögum. Með því gæti niðurstaðan orðið sú að íslenskir dómstólar teldu að tiltekin tjáning nyti ekki verndar 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar í ljósi 17. gr. MSE. Engir íslenskir dómar styðja þessa skoðun dómarans en hann vísaði til þess að þessari aðferðarfræði hefði verið beitt í ýmsum öðrum aðildarríkjum sáttmálans. Hvað er hatursáróður samkvæmt dómaframkvæmd MDE? Hatursáróður hefur verið flokkaður í dómum MDE sem áróður gegn kynþætti, trúarbrögðum, kynhneigð og þjóðerni eða menningarlegum uppruna. Viðmið við greiningu á því hvort um væri að ræða hatursáróður í skilningi MSE væri einkum hvert væri samhengi tjáningarinnar, markmið eða tilgangur, hver væri staða gerandans og að lokum hvert væri form og áhrif tjáningar. Dómstóllinn hefur hingað til verið mjög tregur til að fella hvatningu til ofbeldisverka undir brot gegn rétti til tjáningarfrelsis. Undanfarið hafa dómarar hins vegar spurt hvort hætta hafi verið til staðar í slíkum tilvikum. Var um tilefnislaust hjal að ræða sem sett var fram á bloggsíðu eða í kommentakerfi? Eða var um nærlæga hættu á ofbeldisverkum að ræða? Ákall um ofbeldisverk kunna einnig að vera „symbolísk“. Voru ummæli í búsáhaldabyltingunni þess eðlis að fella mætti undir 17. gr. MSE eða var eðlilegra að líta á þetta sem mjög hvöss ummæli í harðri þjóðfélagsdeilu sem tilefni var til að viðhafa? Ríkari tilhneiging er hjá MDE í dag að sýna slíkum ummælum meira umburðarlyndi í þessa veru. Ef tjáning er hluti af pólitískri umræðu þá er dómstóllinn frekar tregur til að fallast á skerðingu á slíkri tjáningu, jafnvel þótt hún kunni að ganga mjög langt. Í þessu sambandi nefndi Róbert mál Leroy gegn Frakklandi þar sem gert var grín að hryðjuverkunum 11. september 2001 í teiknimynd og ummælum í blaði 13. september 2001. Í því tilfelli var ekki beitt 17. gr. heldur réttmætri skerðingu á grundvelli 2. mgr. 10. gr. MSE. Trúarbrögð og hatursáróður Athyglisverð þróun hefur átt sér stað á þessu sviði sem íslenskir dómstólar og lögfræðingar verða að kunna skil á. MDE hefur skilgreint guðlast í þrengri og rýmri merkingu. Guðlast í þrengri merkingu felur í sér tjáningu sem dregur dár að eða smánar guði viðkomandi trúarbragða eða megintákn þeirra (e. blasphemy). Guðlast í rýmri merkingu beinist hins vegar að trúarkenningum eða fylgjendum tiltekinna trúarbragða, sem einstaklingum eða stofnun (e. religious insult). Mat 2. mgr. 10. gr. MSE er ólíkt eftir því hvort um er að ræða tjáningu í rýmri eða þrengri merkingu. Róbert vísaði til þess að hér hafi orðið nokkur breyting á framkvæmd dómstólsins. Það þurfi því að vera meiri kröfur um alvarleika tjáningar að formi og efni til í dag en áður. Að lokum velti Róbert því fyrir sér hvort hefði verið réttara að fella ummælin í málinu „Hvíta Ísland“ undir gildissvið 17. gr. MSE og þau nytu því ekki verndar 10. gr. sáttmálans. Á að refsa eða rökræða? Næst tók til máls Björg Thorarensen og fjallaði hún um hvernig bann við hatursáróðri birtist í íslenskum refsilögum og framkvæmd þess. Lítið hefur reynt á það hér á landi en talsverð dómaframkvæmd er hins vegar til á Norðurlöndunum. Ýmis teikn eru á lofti um breytingar á íslenskri samfélagsumræðu sem er

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.