Lögmannablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 26

Lögmannablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 26
26 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/15 AÐSENT EFNI JÓN STEINAR GUNNLAUGSSON HRL. Skortur á skilningi á undirstöðuatriðum við málskot MARGT ER SKRÍTIÐ í kýrhausnum! Þriðjudaginn 31. mars 2015 komst meirihluti í þriggja manna dómi í Hæstarétti að þeirri niðurstöðu (mál nr. 487/2014), að ekki skipti máli þó að málflytjandi, sem gerð var réttarfarssekt í héraði, hefði ekki haft tækifæri til að tala máli sínu á neðra dómsstiginu, þar sem hann hefði getað komið að vörnum sínum við meðferð málsins í Hæstarétti. Virðist þessi meirihluti dómsins telja Hæstarétt gegna einhverju öðru hlutverki en að vera áfrýjunardómstóll sem taki ákvarðanir varðandi málsmeðferð í héraði til umfjöllunar og kveði ekki upp efnisdóma nema meðferðin í héraði hafi verið lögum samkvæm. Forsendur dómara Í forsendum dómaranna tveggja kemur fram að lögmaðurinn sem í hlut átti, hafi í sjálfu sér átt að njóta réttar til að gæta hagsmuna sinna áður en dómur yrði upp kveðinn í héraði. En síðan segir orðrétt svo: „Eins og áður greinir gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu vegna þessa þáttar málsins að ósk varnaraðila sem átti lögum samkvæmt rétt til að fá úrlausn æðra dóms, að undangengnum munnlegum málflutningi, um þá réttarfarssekt sem honum var gert að sæta í héraði. Réttur varnaraðila til þess að halda uppi vörnum á áfrýjunarstigi af þessu tilefni sætir að lögum engum takmörkunum og gat hann komið að öllum sjónarmiðum sínum við meðferð málsins hér fyrir dómi. Að þessu virtu horfir það varnaraðila ekki til réttarspjalla þótt sérstakur málflutningur hafi ekki farið fram í héraði áður en sú ákvörðun var tekin að gera honum þar réttarfarssekt. Samkvæmt þessu fullnægir málsmeðferð sú sem fram hefur farið ákvæðum laga og brýtur hún ekki í bága við regluna um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóm Hæstaréttar 28. maí 2014 í máli nr. 37/2014.“ Dómurinn sem þarna er vísað til hafði komist að sambærilegri niðurstöðu í máli sem varðaði réttarfarssekt á hendur verjendum, það er að segja þrír af fimm dómurum sem það mál dæmdu. Þar hafði einnig verið fallist á berum orðum að verjendurnir hefðu átt að njóta réttar til að verja sig gegn kröfunum um réttarfarssektir við meðferð málsins í héraði. Sagði þannig í forsendunum: „Þegar ljóst var að varnaraðilar myndu ekki sinna þeirri skyldu sinni að mæta til þings og til álita kom að beita þá réttarfarssekt, hefði að réttu lagi átt að boða þá til sérstaks þinghalds og gefa þeim kost á að reifa sjónarmið sín í því efni, umfram það sem áður hafði skýrlega komið fram af þeirra hálfu í bréfaskiptum þeirra við héraðsdóm og áður er gerð grein fyrir. Það var á hinn bóginn ekki gert.“ Þrátt fyrir þetta varð niðurstaða Hæstaréttar sú að staðfesta réttarfarssektirnar þar sem verjendurnir hefðu getað haldið uppi vörnum á áfrýjunarstigi af þessu tilefni og sætti sá réttur ekki takmörkunum. Hafi þeir getað komið að öllum sjónarmiðum sínum við munnlegan flutning málsins þar fyrir rétti. Í þessu eldra máli höfðu tveir dómarar skilað sératkvæði sem byggði á þeirri einföldu forsendu að ekki væri unnt að dæma mál efnislega í Hæstarétti nema málsaðilinn hefði notið þess grunnréttar í héraði að tala máli sínu áður en dómur yrði upp kveðinn. Í forsendum beggja þessara dóma kom fram að sektirnar sem um væri fjallað væru „í eðli sínu refsing“, eins og komist var að orði. Sératkvæði eins dómara Einn dómari af þremur í máli 487/2014 skilaði sératkvæði. Í því segir: „Með hliðsjón af sératkvæði [tveggja dómara] í hæstaréttarmálinu nr. 37/2014 tel ég á hinn bóginn að [rétt hefði verið], samkvæmt ákvæðum XXV. kafla laga nr. 88/2008, að boða til dómþings ..., kynna varnaraðila sakarefnið og gefa honum kost á að koma að andmælum við fyrirhugaða ákvörðun um réttarfarssekt. Hvað sem líður möguleikanum til þess að koma að vörnum á áfrýjunarstigi þá fær það ekki staðist tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að manni sé gerð refsing en hann njóti hvorki réttar til að koma að andmælum né að hann sé upplýstur um að áformað sé að refsa honum. Hvorugt þessara grundvallarskilyrða voru uppfyllt í málinu, ... Var ákvörðun um sekt varnaraðila tekin með dómi í efnismálinu 11. febrúar 2014, án þess að honum hefði verið kynnt sakarefnið og gefinn kostur á að koma að vörnum, bæði hvað varðar álagningu sektarinnar og fjárhæð hennar.“ Misskilningur á réttarfari Í þessum tveimur dómsmálum hafa samtals sjö hæstaréttardómarar fjallað um sakarefnið. Fjórir af þeim hafa komist að þeirri niðurstöðu að í lagi sé að meina málsaðila að gæta réttar síns í héraði, og það meira að segja gagnvart refsikröfu ákæruvalds, ef hann fær að gera það fyrir Hæstarétti. Í þessu felst alvarlegur misskilningur á réttarfari við málskot. Það getur með öðrum orðum ekki staðist að synja megi málsaðila réttar til að gæta hagsmuna sinna á neðra dómsstigi á þeirri forsendu að hann fái að gera það á hinu efra. Gera verður kröfu til þess að dómarar við Hæstarétt ráði við þetta.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.