Dagblaðið Vísir - DV - 31.03.2010, Blaðsíða 48
48 MIÐVIKUDAGUR 31. mars 2010
HJARTA
Margt á
Nú eru tímar reiðra ungra manna – hver þarf svo sem að furða sig á því? Á stóra sviði Borgarleikhúss-ins bölsótast skáldið Ormur Óð-
insson út í allt og alla. Ætli hann hefði ekki
verið manna líklegastur til að skrifa leik-
rit af því tagi, sem var frumsýnt á Litla sviði
Borgarleikhússins á laugardagskvöldið var,
hefði hann fengið að stíga út úr skáldverk-
inu og kynnast „Kreppunni“ – „blessaðri
kreppunni“ förum við kannski bráðum að
segja?
Hvað sem því líður: Andri Snær Magna-
son og Þorleifur Örn Arnarsson, höfundar
Eilífrar óhamingju, eru reiðir ungir menn
sem liggur margt og mikið á hjarta. Þeim
er ekki nóg að hafa skrifað leikrit; þeir skrifa
hvor sína greinina um leikritið í leikskrána.
Dramatúrg sýningarinnar skrifar líka grein,
hún er aftar í skránni. Það vantar aðeins
grein frá Magnúsi Geir til að setja punktinn
yfir i-ið.
Þegar áhorfendur ganga í salinn sitja leik-
endurnir fimm á stólum í röð aftast á sviðinu
og bíða átekta. Önnur leikmynd er þarna
ekki. Andrúmsloftið er afslappað, að mað-
ur ekki segi heimilislegt. Þekkt kona í sam-
félaginu, fastur frumsýningargestur á fyrsta
bekk, gerir sér hægt um hönd og leggur leik-
skrána og snyrtiveskið (sýndist mér) frá sér á
sviðspallinn. Ég verð að játa að það myndi ég
aldrei gera – ekki frekar en ég myndi teygja
úr fótunum upp á leiksviðið. Fyrir mér er
leiksviðið heilagur staður – heilagur í upp-
runalegri merkingu orðsins: settur til hliðar,
lokaður af, ósnertanlegur af hinu dauðlega
og óhreina. Eins þótt leikendum sé stund-
um leyft að stíga yfir mörkin; í þessari sýn-
ingu fær einn þeirra jafnvel að hendast fram
í salinn og hella sér yfir einn áhorfandann –
mikið var gagnrýnandinn feginn að það var
ekki hann sem varð fyrir barðinu á leikaran-
um, heldur maðurinn við hliðina á honum.
Þegar kyrrð er komin á stígur einn leik-
enda fram. Það er hún Matthildur, sem
manni skilst að sé einhvers konar þerap-
isti. Alltént hefur hún stjórn á því sem
fram fer – eða hyggst hafa stjórn á því, rétt-
ara sagt. Hvað það er sem þarna á að fara
fram? Það er ekki svo gott að lýsa því með
einu orði, einhvers konar sjálfsrannsókn ef
til vill, óformlegt réttarhald, alhliða sálræn
og siðferðisleg hreingerning? Heimurinn
fylgist með okkur, segir Matthildur; nú er
eins gott að standa sig. Brátt kemur í ljós að
persónurnar hafa flestar hagnast með ein-
hverjum hætti á Góðærinu mikla, en komið
misvel út úr Hruninu, eins og gengur. Þeim
er gert að tjá sig, tala hreint út um gildismat
sitt, reynslu sína af þeim hremmingum sem
þjóðin hefur verið og er að ganga í gegn-
um – en það má ekki nota ákveðin orð, sem
Matthildur telur upp, öll tengd „Kreppu“ og
„Hruni“; þau hafa verið tíunduð í ítarlegum
fjölmiðlakynningum á leiknum eða í öðrum
leikdómum og því óþarft að hafa þau upp
hér. Ef einhver notar þessi bannorð kipp-
ast allir til nema Matthildur, engjast sundur
og saman, eins og þeir hafi fengið í sig raf-
straum. Líklega eru þau með einhvern bún-
að falinn á sér sem stýrt er á bak við tjöld-
in; það kemur reyndar ekki fram í leiknum.
Hugsanlega á þetta að vera vísun í leikinn
um Frúna í Hamborg.
Ég ætla ekki að rekja gang mála í smærri
atriðum. Þó verður að ljóstra því upp að þer-
apían nær engan veginn tilgangi sínum og
ástæðan sýndist mér helst sú að Matthild-
ur sjálf burðast með óuppgert „tráma“ sem
tengist einum viðstaddra. Hún hefur eitt
sinn fyrir margt löngu orðið fyrir ofbeldi af
hans hendi, svipuðu ofbeldi og margir telja,
heyrist mér, íslensku þjóðina í heild hafa
orðið fyrir. Ákveðið sagnorð er notað svo
mikið í sýningunni að maður er löngu bú-
inn að fá upp í kok, um það er lýkur; mér
dettur ekki heldur í hug að láta prenta það
hér. Þegar Matthildur missir tök á fram-
vindunni upphefst mikil rússíbanareið um
þær heljarslóðir siðferðis og sjúkrar breytni
sem Kreppan hefur opnað sýn inn á eða
er sprottin úr. Fólk fær æðisköst, rýkur út í
bræði, ræðst jafnvel á blásaklausa áhorf-
endur sem fyrr segir, hendir handritunum
út um allt; af einhverjum sökum eru menn
með handrit í höndum, en ég náði því, satt
að segja, ekki alveg hver var hugsunin á bak
við það. Frúin á fyrsta bekk flýtir sér að fjar-
lægja snyrtidótið sitt af sviðinu – og eins gott,
því það er sannarlega engin Frú í Hamborg
sem hér er mætt til leiks.
Það voru margir góðir punktar í þessu,
segjum við stundum þegar við vitum ekki al-
veg hvað á að segja. Þarna er unnið af alúð
og einlægni, það vantar ekki, og alltaf vita-
skuld ánægjulegt þegar leikhúsfólk telur
sig eiga brýnt erindi. En stundum flögraði
að mér hvort höfundarnir hefðu ekki ein-
faldlega sprengt sig, þeir væru að reyna að
segja nánast allt sem þeim fyndist þurfa að
segja um Kreppu og Ástand í einum pakka.
Sjálfur verð ég að segja eins og er: mér varð
aldrei almennilega ljóst hvert „pointið“ átti
að vera hjá þeim. Að þjóðin hefði verið beitt
ruddalegu ofbeldi, það kom eins skýrt fram
og verða mátti – og að hún væri enn stödd
í Trám anu miðju og því ófær um að skoða
málin af nauðsynlegri hugarró, eðlilegri
hlutlægni: var það ef til vill boðskapurinn
sem við áttum að taka með okkur?
Ég verð litlu nær þó ég fari í leikskrána.
Í sinni grein spyr Andri Snær meðal ann-
ars hver vilji fara í leikhús „til að upplifa aft-
ur harmleik hversdagsins“. Honum finnst
þurfa „að bregða upp spegli“, en „spéspeg-
ill dugir ekki til“ segir hann, „það verður að
kryfja og rannsaka.“ Ef Andri Snær meinar
þetta í raun og veru, það er að menn verði
„að kryfja og rannsaka“, þá er til í dæminu að
ég hafi misskilið verkið. Ég er reyndar ósam-
mála Andra Snæ um að spéspegillinn dugi
ekki til. Ég held einmitt að nú sé hans tími:
tími grimmrar og svartrar satíru, svona eins
og þeir Spaugstofumenn hafa verið öllum
öðrum iðnari við að hafa í frammi – og eiga
mikinn heiður skilið fyrir. Fyrir minn smekk
má ádeilan gjarnan vera með ívafi súrreal-
ískrar hrollvekju. Því eins og svo oft er veru-
leikinn lygilegri en allur skáldskapur – og
efniviðurinn við hvert fótmál, ef að er gáð.
Mig langar líka til að gera athugasemd
við eftirfarandi orð í grein Þorleifs Arnar:
„Shakespeare hélt því fram að heimurinn
væri leiksvið og við værum einungis leik-
endur og átti hann þar við að allt lífið væri
blekking.“ Þetta er ekki rétt, Shakespeare
hélt engu slíku fram; Shakespeare hélt yfir-
leitt engu fram. Hann lét hins vegar sum-
ar persóna sinna tala í þessa veru, og á því
er reginmunur. Frægust þeirra er Jacques í
Sem yður þóknast sem Þorleifur er eflaust að
vísa til. Jacques er þunglyndur bölhyggju-
maður líkt og ýmsir aðrir sem líkja heim-
inum við leiksvið í leikritum Shakespeares:
Antóníó kaupmaður í Feneyjum, Macbeth
hinn valdóði, galdrakarlinn lífsþreytti, Pros-
peró. Sjálfur skrifaði Shakespeare aldrei upp
á tómhyggju af nokkru tagi eða gaf í skyn að
örvænting og uppgjöf væru eðlileg og rétt-
mæt viðbrögð við fári heims og eigin synd-
um.
Niðurstaða leikdómarans: þetta er virð-
ingarverð tilraun sem nær ekki að skila nógu
hugtæku og áhugaverðu leikverki. Leikend-
urnir, Sólveig Arnardóttir, Orri Huginn Ág-
ústsson, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Guðjón
Þorsteinn Pálmason og Atli Rafn Sigurðar-
son, eru öll trúverðug í sínum hlutverkum.
Til annars og meira er vart hægt að ætlast
af þeim. Sara Dögg var sérlega góð, það er
samt Atli Rafn sem á vinninginn. Persóna
hans er skýrt mótuð frá upphafi, greinilega í
algerri afneitun og innri sprennu sem mað-
urinn fær útrás fyrir í mesta glansnúmeri
sýningarinnar; Atli Rafn er sannarlega að
verða virtuós leikari. Ég held að þetta núm-
er væri nokkurn veginn það eina sem gæti
tosað mig aftur á sýninguna. Jafnvel þótt Atli
„pikkaði“ mig út og léti mig hafa það.
Jón Viðar Jónsson
LIFANDI LEIKHÚS OG LEIKFÉLAG REYKJAVÍKUR:
EILÍF ÓHAMINGJA
eftir Andra Snæ Magnason
og Þorleif Örn Arnarsson
Leikstjóri: Þorleifur Örn Arnarsson
Dramatúrg: Símon Örn Birgisson
Leikmynd: Drífa Freyju-Ármannsdóttur
Búningar: Judith Amalía Jóhannsdóttir
Lýsing: Kjartan Þórisson
LEIKLIST
EKKI NÓGU ÁHUGAVERT „Þetta er
virðingarverð tilraun sem nær ekki að skila
nógu hugtæku og áhugaverðu leikverki.“