Náttúrufræðingurinn - 2009, Blaðsíða 44
Náttúrufræðingurinn
108
Lýsing og lifnaðarhættir
Folafluga er stórvaxin fluga af
ættbálki tvívængja sem tilheyrir
hrossafluguættinni (Tipulidae) og er
nýjasta viðbótin við þá ætt hérlendis.
Fjórar tegundir eru nú þekktar hér á
landi og hafa þær allar hlotið íslensk
heiti sem tengjast hestum.
Tipulidae – hrossafluguætt
Prionocera turcica – kaplafluga
Tipula rufina – hrossafluga
Tipula confusa – trippafluga
(áður T. marmorata)
Tipula paludosa – folafluga
(Erling Ólafsson, munnl. uppl.)
Folaflugan er áberandi stærst
þessara fjögurra tegunda og eru
karlflugur mun lappalengri en
kvenflugur, ólíkt hinum tegundun-
um (Erling Ólafsson, munnl. uppl.).
Auðvelt er að greina milli kynja, þar
sem kvenflugur eru bæði stærri og
oddhvassar á aftasta búkhluta; það
kemur þeim til góða þegar þær
verpa í jarðveginn. Höfuð er lang-
leitt, útlimir mjög langir og búkur
grannur og langur. Búklengd karl-
flugna er 16–18 mm og kvenflugna
19–25 mm. Vængir eru grannir,
langir, hálfgegnsæir og brúnleitir
á jöðrum. Líkami folaflugunnar er
grábrúnn (1. og 2. mynd). Hún
hefur fullkomna myndbreytingu
sem flokkast í fjögur lífsstig (egg,
lirfu, púpu og flugu) og auk þess
hefur lirfan fjögur vaxtarstig (lirfu-
stig = instör).2 Flugurnar makast allt
sumarið (2. mynd) og kvenflugur
verpa síðan ofan í jarðveginn þar
sem er gróður og þá sérstaklega
gras nálægt því svæði þar sem þær
klöktust sjálfar úr púpum.1,2
Egg flugunnar eru svört, glans-
andi og sívöl, um 1 mm á lengd og
um 0,4 mm í þvermál. Lirfan klekst
úr eggi um 14 dögum eftir varp og
er fótalaus og ljósbrún á litinn.1 Hún
er með sívalan mjúkan líkama og
sterka yfirhúð (3. mynd).
Á útbreiðslusvæði tegundarinnar
eru lirfur algengar í mýrum, deig-
lendi, graslendi og túnum. Fyrstu
tvö vaxtarstig lirfunnar standa stutt
og dvelst hún yfirleitt yfir veturinn
á þriðja vaxtarstiginu (3. lirfuin-
stari).3 Lirfurnar geta verið virkar
þrátt fyrir að umhverfishiti sé aðeins
5°C og geta því haldið áfram áti á
hlýjum tímabilum yfir veturinn.4
Þegar vorar verða þær mun virkari
og byrja að éta mikið og fara á fjórða
(og seinasta) vaxtarstigið.2 Fullvaxn-
ar eru þær um 3–4 cm að lengd og
halda sig í 6–8 vikur í göngum sem
þær hafa grafið sér. Frá júní og fram
í ágúst fikra þær sig upp á yfirborð
jarðvegsins og púpa sig þar og varir
púpustigið í um tvær vikur.1 Fola-
flugur hafa eina kynslóð á ári og
myndbreytast frá púpu yfir í flugu
frá júní til september.5
Útbreiðsla
Tegundin er þekkt á kaldari svæð-
um í Norður-Evrópu og hafa lirf-
ur hennar verið skilgreindar sem
meindýr og valdið skaða í mörgum
Evrópulöndum, Kanada og Norð-
vestur-Bandaríkjunum.6,7,8,9,10,11,12
Dr. Erling Ólafsson skordýra-
fræðingur bar fyrst kennsl á hana í
Gróðrarstöðinni Borg í Hveragerði
í júlí 2001, en talið er líklegt að hún
hafi borist til Hveragerðis nokkru
áður. Síðan hefur hún fundist í
nágrenni Hveragerðis, við bæinn
Gljúfur austan við Sogn, inni í
Reykjadal og við Mógilsá í Kolla-
firði.
2. mynd. Folaflugur að makast. Neðri flugan er karlfluga og sú efri kven-
fluga. – Mating of the Marsh Craneflies. The lower fly is a male, the
upper one a female. Ljósm./Photo: Jon Law, 01.06.2007.
3. mynd. Lirfa folaflugunnar. – Larva of the Marsh Cranefly.
Ljósm./Photo: Gísli Már Gíslason, Hveragerði, 25.07.2007.