Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Síða 84
MEINSEMDIR OG MANNDRÁPSBOLLAR 83
Skipaskoðun ríkisins var sett á fót eftir að seglskipatímanum lauk, eða árið
1930.
„Sautján ekkjur og 70 munaðarlaus börn“
Íslendingar höfðu bundið vonir við að mjög mundi draga úr sjóslysum með
tilkomu seglskipanna en raunin varð önnur. Ekki var aðeins mikið um
skiptapa heldur skolaði mönnum iðulega fyrir borð. Á tímabilinu 1881-1910
drukknuðu að meðaltali 66 karlar á ári, langf lestir í sjó. Nokkur ár skera
sig sérstaklega úr, t.d. 1887, 1897 og 1906 en þá drukknuðu 120-123 menn
árlega. Til samanburðar skal þess getið að 1911-1940 drukknuðu að meðaltali
57 karlar á ári þannig að sjóslys hafa áfram verið mjög tíð þrátt fyrir aukið
eftirlit með skipum og bátum og vélvæðingu f lotans. 141
Árið 1912 fórst kútter Geir frá Hafnarfirði með allri áhöfn, alls 27 manns,
og létu þeir eftir sig 17 ekkjur og um 70 munaðarlaus börn.142 Þetta varð
tilefni þess að Guðmundur Björnsson landlæknir hélt opinberan fyrirlestur um
mannskaða á Íslandi 1881-1910, og rann ágóðinn af honum í sjóð til styrktar
fjölskyldum hinna látnu.143
Guðmundur komst að þeirri niðurstöðu að á framangreindu tímabili hefðu
f lest dauðaslys hér á landi stafað af drukknunum í sjó, þar af nær helmingur
á seglskipum. Fjöldi áhafna á þeim var þó mun lægri en á árabátum og hefur
því verið hlutfallslega hættulegra að stunda veiðar á skútum. Samanburður
við Noreg, þar sem aðstæður til sjósóknar voru á margan hátt svipaðar,
sýndi að drukknanir meðal sjómanna á íslenskum seglskipum voru a.m.k.
tíu sinnum hærri hlutfallslega en hjá fiskimönnum í Noregi. Samanburður
við Danmörku er Íslandi einnig mjög óhagstæður.144 Þegar Guðmundur
leitar skýringa á þessum gríðarlega mun telur hann að ekki sé eingöngu
við veður og vinda að sakast heldur hljóti að vera mikið að sjómennskunni
eða skipakostinum hjá okkur, enda hafi skúturnar reynst hinir verstu
„manndrápsbollar“ á undanförnum árum. Athyglisvert er að Guðmundur
vísar einnig til örlagahyggju í þessu sambandi:
141 Hagskinna, bls. 195-197.
142 „Úr höfuðstaðnum“, Gjallarhorn, 3. apríl 1912, bls. 22.
143 G[uðmundur] Björnsson, „Mannskaðar á Íslandi. (Ágrip af fyrirlestri 8. apríl
1912)“, Lögrjetta 10. apríl 1912, bls. 67-68. – Ísafold 6. apríl 1912, bls. 77.
144 Á tímabilinu 1901-1910 fórust að meðaltali 93 fiskimenn á ári í Noregi og á sama
tíma í Danmörku 128 sjómenn. Að vísu sker árið 1904 sig mjög úr en þá fórust 632
dönsk skip. Meðaltal fyrir árin 1894-1910 í Danmörku er 111 sjómenn (Søfartens
Bibliotek, http://www.sbib.dk/soeulykke.htm. Skoðað 22. september 2011).