Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Page 237
236 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
né litanotkun. Það er því ekki mögulegt að staðfesta hvort þær upplýsingar
sem fengust með rannsóknum á Smiðshúsi eru dæmigerðar fyrir íslenska
byggingarhefð.
Sýni af elstu málningarlögum sem fundust bæði úti og inni voru látin
standa í dagsbirtu, án þess að þau væru hulin. Eftir tveggja ára áhrif dagsljóss
voru málningarlögin skoðuð. Olían í sýnunum var mjög gulnuð þegar þau
voru tekin en hafði dofnað og hægt var að greina upprunalegu litina nokkuð
örugglega.
Samantekt
Lita- og byggingarsögulegar rannsóknir á Smiðshúsi hafa, ásamt upplýsingum
úr skjölum og af gömlum ljósmyndum, skilað mikilvægri, nýrri þekkingu
um íslenska byggingarsögu. Rannsóknirnar sýna að húsið var málað utan og
innan strax eftir að það var byggt. Þegar húsið var fullbúið í Reykjavík uppúr
1820 var það vandað og virðulegt kaupmannshús þó ekki væri það stórt. Í
húsinu voru herbergi með vandaðri innansmíð og máluð í þeim litum sem
þá voru í tísku í Danmörku og Noregi. Þegar húsið seinna var endurmálað
var einnig fylgt samtímatísku við litaval og skreytingar bæði að utan og innan,
meðal annars með vandaðri oðrun (viðarmálningu) á hurðir og lista og með
veggfóðrun. Öll málning sem notuð var í húsinu innihélt þornandi olíur, ef
til vill blöndu af línolíu og lýsi. Til þess að mála húsið að utanverðu voru ekki
notuð ódýrustu litarefni, okkur eða rautt járnoxíð, heldur blýhvíta blönduð
með beinsvörtu. Á þessum tíma var blýhvíta þrisvar til sex sinnum dýrari en
rautt járnoxíð. Utanhússmálningin var samkvæmt tísku samtímans, eftirlíking
af sand- og/eða kalksteini. Af gráa sandsteinslitnum á útveggjaklæðningunni
og ljósari sandsteinslit á gluggum og gluggaumgjörðum má ráða að menn
vildu nota dýra liti og litasamsetningar, ekki bara mála til þess að verja klæðn-
ingu og lista. Í upphafi var vandað til verka og bæði efni og vinna í háum
gæðaflokki.
Enn er eftir nokkur vinna utan dyra, m.a. er fyrirhugað að endurbyggja
úti kam ar inn. Eftir er að gera nokkrar rannsóknir innandyra. Endurbótum
inni hefur verið frestað um sinn. Niðurstöður rannsókna og aðrar heimildir,
sem í ljós hafa komið, gefa góðar vonir um að í framtíðinni verði hægt að
sýna Smiðshús líkt því sem það var nýbyggt í miðbæ Reykjavíkur 1825.
Íslensk þýðing: Sigurborg Hilmarsdóttir.
Greinin birtist upphaflega í Meddelelser om Konservering 2:2009.