Öldrun - 01.09.2001, Blaðsíða 15

Öldrun - 01.09.2001, Blaðsíða 15
15ÖLDRUN – 19. ÁRG. 2. TBL. 2001 Ballard og fleiri í Newcastle í Englandi hafa verið brautryðjendur í rannsóknum á sjúkdómnum undan- farinn áratug og það er þeirra mat og fleiri (4) að 10- 20% þeirra sem hafa heilabilun vegna hrörnunarsjúk- dóms í heila séu með Lewy sjúkdóm. Enn hafa ekki verið birtar rannsóknir á algengi sjúkdómsins í samfé- laginu. Nýgengi er því heldur ekki þekkt. Nýgengi og sá tími sem sjúklingar hafa sjúkdóminn ákvarða algengi. Það var talið að lifun sjúklinga með þennan sjúkdóm væri styttri en sjúklinga með Alzheimers sjúk- dóm, en nýrri rannsóknir hafa ekki sýnt neinn mun (5). Ef miðað er við áðurnefndar tölur McKeith og félaga er líklegt að um 200-400 sjúklingar hér á landi séu með Lewy sjúkdóm en ekki skal lagður dómur á það hér hvort þetta kunni að vera rétt. Einkenni Núverandi skilmerki sjúkdómsins eru frá árinu 1996 (6). Samkvæmt þeim eru höfuðeinkenni sjúk- dómsins fimm: heilabilun, utanstrýtueinkenni (Parkin- son einkenni), ofskynjanir, tímabundið rugl og óþol gagnvart sterkum geðlyfjum. Einnig hefur verið rök- stutt að ýmis geðræn einkenni svo sem þunglyndi sé algengara í þessum sjúkdómi en öðrum heilabilunar- sjúkdómum (7), en það hefur ekki verið staðfest. Í töflu má sjá skilmerkin sem nú er almennt stuðst við (6). Hér verður gerð nánari grein fyrir ofangreindum höf- uðeinkennum: 1. Heilabilun. Ekki er búið að staðreyna í smáatriðum hver taugasálfræðileg sérkenni sjúkdómsins eru en þó er ljóst að vitræn skerðing verður einkum á tveimur sviðum. Allar úrlausnir verða hægari en áður og sjónúrvinnsla (visuospatial ability) skerð- ist hlutfallslega meira en annað. Þetta leiðir til þess að ratvísi og fjarlægðarskyn skerðist og á síðari stigum tilfinning fyrir eigin líkama gagnvart um- hverfinu. Oft er til þess tekið að minni getur verið allgott þrátt fyrir verulega vitræna skerðingu á öðrum sviðum. 2. Parkinson einkenni. Stirðleiki í hreyfingum, hægar hreyfingar og óstöðugleiki eru helstu einkennin, en skjálfti sést sjaldan. Þessi einkenni koma á eftir eða um svipað leyti og vitræn skerðing gerir vart við sig. Ef Parkinson einkenni koma nokkrum árum á undan heilabilun er um heilabilun í Parkin- sonsjúkdómi að ræða, en það er enn nokkurt deilu- efni hvar mörkin eiga á liggja milli þessara tveggja sjúkdóma. 3. Ofskynjanir. Oftast nær sjónofskynjanir og þær eru merkilega svipaðar milli sjúklinga. Einkennin koma oft tiltölulega snemma svo vitræn skerðing er enn það væg að þeir geta sjálfir gefið góða lýsingu á fyrirbærunum en þeir átta sig oft á að þau eru ekki raunveruleg. Þeir sjá fólk eða dýr, sýnirnar eru skýrar og mjög sjaldan ógnandi. Þetta einkenni er ekki viðvarandi, það geta liðið dagar eða vikur milli þess sem skýrt er frá ofskynjunum. Nátengt þessu eru misskynjanir, þ.e. þeir mistaka það sem þeir sjá fyrir annað. Heyrnarofskynjunum hefur einnig verið lýst, en ekki eins áberandi. 4. Tímabundið rugl. Getur orðið mjög áberandi og er oftast það einkenni sem leiðir til innlagnar á sjúkra- hús og síðar hjúkrunarheimili. Á fyrri stigum sjúk- dómsins eru rugltímabilin stutt og sjúklingarnir gera sér oft grein fyrir hvað er á seyði. Þetta geta verið mínútur eða dagpartur, ekki sjaldan þegar verið er að vakna á morgnana og draumur og veru- leiki renna saman. Síðar geta komið rugltímabil sem standa í daga eða vikur og almennt er álitið að á síðasta skeiði sjúkdómsins sé ruglástand nánast viðvarandi. Þetta er sennilega ekki rétt og margir geta haft merkilega skýr tímabil fram á síðustu mánuði. Útbúnir hafa verið sérstakir kvarðar til að leggja mat á tímabundið ruglástand (8). 5. Óþol gagnvart geðlyfjum. Um er að ræða flokkinn sterk geðlyf ( neuroleptísk lyf), einkum eldri lyfin svo sem klórprómazín, Haldol®, Cisordinol®, Noz- inan®, Truxal®, Trilafon® o.fl. Óþol gagnvart nýrri lyfjunum er ekki eins áberandi að því er virð- ist en þau þolast samt mun ver hjá þessum sjúk- lingum en öðrum. Þessi lyf eru risperidon (Risper- dal®, Ríson®), olanzapin (Zyprexa®) og quetiap- ine (Seroquel®). Þennan flokk fyllir einnig cloz- epin (Leponex®) þótt það sé ekki nýtt. Eldri lyfin á alls ekki að nota en þau nýrri helzt ekki eða þá með mikilli varúð. Aukaverkanirnar eru einkum mikill sljóleiki en einnig geta komið fram hættulegri aukaverkanir eins og mikill stirðleiki svo sjúk- lingur verður ósjálfbjarga og jafnvel svokallað „neuroleptic malignant syndrome“ sem eins og nafnið bendir til getur verið lífshættulegt. Greining Þegar sjúklingur kemur til skoðunar sem hefur greinileg Parkinsoneinkenni án skjálfta, lýsir sjónofs- kynjunum og fyrir liggur að hann á það til að rugla er sjúkdómsgreiningin auðveld þótt auðvitað verði að staðfesta hana með nánari skoðun. Erfiðara er að átta sig á þessum sjúkdómi þegar sum einkennin vantar eða önnur einkenni trufla myndina, en aldraðir einstak- lingar geta haft ýmis einkenni annarra sjúkdóma sam- tímis. Greining fer fram á svipaðan hátt og þegar aðrar orsakir heilabilunar eru þekktar. Í þessu tilviki byggir greiningin að mestu leyti á þeirri sögu sem fengin er hjá sjúklingi og aðstandendum og það er mjög mikil- vægt að spurt sé sérstaklega um þau einkenni sem fylgir sjúkdómnum því oft er ekki sagt frá þeim að fyrra bragði svo sem tímabundnu rugli og ofskynjunum. Myndgreining hjálpar lítið nema til að útiloka aðrar orsakir og SPECT er þannig ekki eins hjálplegt og í Alzheimers sjúkdómi. Taugasálfræði getur gefið mikil- vægar vísbendingar, ekki síst prófanir á sjónúrvinnslu (visuspatial ability).

x

Öldrun

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Öldrun
https://timarit.is/publication/1137

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.