Öldrun - 01.05.2007, Blaðsíða 17

Öldrun - 01.05.2007, Blaðsíða 17
17 ÖLDRUN – 25. árg. 1. tbl. 2007 www.oldrun.net Níutíu og þrjú félagsríki alþjóða geðlæknafélagsins fengu spurningalista um þetta. Fimmtíu ríki svöruðu og höfðu 40 þeirra sérhæfða þjónustu við aldrað fólk með geðsjúk­ dóma, en öldrunargeðlækningar voru viðurkennd sér­ grein í 13 ríkjum (Camus o.fl., 2003). Ný sérgrein Geðsjúkdómar eru algengir í ellinni. Þunglyndi hrjáir um 15% af öldruðu fólki á hverjum tíma og á hjúkrunar­ heimilum sýna rannsóknir að 30­40% hafa þessa sjúkdóms­ greiningu, enda er þunglyndi algengur fylgikvilli ýmissa líkamlegra sjúkdóma svo sem heilablóðfalls. Kvíðasjúk­ dómar, áfengis­ og lyfjafíkn og svefntruflanir eru einnig algengir kvillar á þessum aldri. Allt í allt er reiknað með að um 25% fólks 65 ára og eldri þjáist af einhvers konar geðsjúkdómum ef heilabilun er talin með. Líkamsstarfsemi fólks breytist frá einu aldursskeiði til annars. Á sama hátt breytast félagslegir og sálrænir þættir mikið frá vöggu til grafar. Vegna þessa breytist sjúkdóms­ mynd margra sjúkdóma með aldrinum og vissir sjúkdóm­ ar sem eru algengir á einu aldursskeiði eru nær óþekktir á öðrum aldri. Þess vegna hafa sérgreinar læknisfræðinnar að sumu leyti verið skiptar eftir aldri og barnalækningar og öldrunarlækningar hafa hlotið viðurkenningu sem sér­ stakar sérgreinar. Innan geðlæknisfræðinnar eru barna­ geðlækningar víðast hvar viðurkennd undirgrein en öldr­ unargeðlækningar eru einungis viðurkenndar í sumum löndum svo sem Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Einkenni geðsjúkdóma í ellinni eru oft frábrugðin því sem algengt er á yngri árum. Auk þess er stundum erfitt að sjá hvort tiltekið einkenni er líkamlegt eða vegna geðsjúk­ dóms. Mörg einkenni hafa þessa eiginleika. Áhugaleysi er til dæmis algengt einkenni við þunglyndi, en getur einnig hæglega komið á byrjunarstigi heilabilunar. Áhugaleysi í heilabilun er annars eðlis en áhugaleysi í þunglyndi. Sjúk­ lingur með heilabilun dregur sig til baka vegna þess að hann er hættur að ráða við ýmislegt sem hann hafði gam­ an af að gera áður en veikindin hófust, en hinn þunglyndi dregur sig til baka vegna þess að honum finnst lífið einskis vert. Ofskynjanir eru annað dæmi. Ofskynjanir eru oftast vegna geðsjúkdóms en geta verið vegna heilabilunar eða jafnvel aukaverkanir af lyfjum svo sem af þeim lyfjum sem notuð eru til að halda niðri Parkinsons einkennum. Horfur geðsjúkdóma í ellinni eru oft frábrugðnar því sem venjulegt er á yngri árum og líkamlegir sjúkdómar, sem algengir eru hjá öldruðum, geta einnig haft áhrif á framvinduna. Meðferð er oft talsvert frábrugðin, önnur lyf notuð og aðrir skammtar. Lyf þolast oft illa og aukaverk­ anir geta verið hættulegar. Margt aldrað fólk þarf að taka lyf við líkamlegum sjúkdómum og við lyfjameðferð á geð­ sjúkdómum verður að huga vel að milliverkunum milli lyfja. Þeir sem stunda meðferð og greiningu á geðsjúkdóm­ um ellinnar verða því að hafa þekkingu á mörgum svið­ um. Staðgóð þekking á líkamlegum sjúkdómum er nauð­ synleg auk góðrar yfirsýnar yfir lyfjafræði, bæði geðlyfja og þeirra lyfja sem notuð eru við algengum líkamlegum kvillum. Þekking á félagslegum þáttum fólks í ellinni og áhrifum þeirra á heilsuna er einnig mjög nauðsynleg til að fá góðan skilning á hinu flókna samspili geðsjúkdóma, öldrunar, líkamlegra sjúkdóma, fötlunar og félagslegs og menningarlegs umhverfis. Verkefni öldrunargeðlækninga Öldrunargeðlæknar eru læknar sem aflað hafa sér­ þekkingar sem þarf til að greina og meðhöndla geð­ sjúkdóma í ellinni. Margir þessara sjúkdóma byrja oftast á efri árum, en sumir byrja fyrr á ævinni en halda áfram að valda óþægindum og skaða í ellinni. Helstu sjúkdómar sem öldrunargeðlæknar fást við eru: 1. Þunglyndi og aðrir geðhvarfasjúkdómar. 2. Heilabilun, þar með talinn Alzheimers sjúkdómurinn. Það fer þó eftir löndum hvernig málefnum fólks með heilabilun er háttað. Ekki er sjálfgefið að heilabilun falli undir öldrunargeðlækningar nema að litlu leyti því skipting milli sérgreina hefur þróast á mismunandi hátt eftir löndum. Hér á Íslandi er greining og meðferð heilabilunar að mestu leyti í höndum öldrunarlækna, en sjaldan í höndum öldrunargeðlækna. 3. Vitrænar og geðrænar afleiðingar sjúkdóma í mið­ taugakerfinu. Dæmi um þetta er Parkinsonssjúkdóm­ urinn og heilablóðfall. 4. Óráð. Öldrunargeðlæknar koma oft bæði að grein­ ingu óráðs og meðferð einkenna. 5. Notkun ávana­ og fíkniefna. 6. Kvíðasjúkdómar. 7. Svefntruflanir. 8. Geðrof í ellinni. Verkefni öldrunargeðlækna eru margvísleg og stærsti hlutinn er unninn í samvinnu við annað heilbrigðisstarfs­ fólk og oft einnig aðstandendur sjúklingsins. 1. Framkvæma heildstætt mat frá sálfræðilegu, líffræði­ legu og félagslegu sjónarmiði. Í þessu er m.a. fólgið: a. Setja nákvæma sjúkdómsgreiningu á geðsjúkdóm­ um í ellinni. b. Kortleggja samspil geðsjúkdóma, öldrunar og líkamlegra sjúkdóma og áhrif þeirra á færni sjúk­ lingsins. c. Skoða áhrif félagslegs umhverfis á sjúklinginn og fjölskyldu hans hvað varðar aðlögun að langvinnu sjúkdómsástandi í ellinni. d. Mat á færni sjúklinga til að ráða ráðum sínum sjálfir þegar um það ríkir óvissa. 2. Veita eða ráðleggja heildstæða meðferð. Í þessu er m.a. fólgið: a. Skipuleggja nákvæma meðferðaráætlun sem tek­ ur á öllum heilsufarsþáttum sjúklingsins og reyna að finna bestu leiðina til að framkvæma þessa áætlun. b. Veita eða útvega viðtalsmeðferð eða atferlismeð­ ferð þegar það er heppilegasta lausnin fyrir hinn aldraða. c. Stjórna lyfjameðferð.

x

Öldrun

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Öldrun
https://timarit.is/publication/1137

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.