Öldrun - 01.11.2007, Blaðsíða 31

Öldrun - 01.11.2007, Blaðsíða 31
1 ÖLDRUN – 25. árg. 2. tbl. 2007 www.oldrun.net spegla þetta viðhorf. Það þarf að vera til staðar áhugi, þrá og þörf til fullnægju eða með öðrum orðum ákveðið tilfinningaástand að baki öllu skapandi starfi. Persónuleiki og tilfinningar skipa þannig öndvegi í listsköpuninni. Ofan­ greindar skilgreiningar tengja saman merkingu orðanna list, sköpun og listsköpun og gefa listinni um leið dýpri merkingu. Áhrif listsköpunar – að finna sér stað í tilverunni Kjarninn í kenningum fræðimanna fram á okkar dag er sá að merkingarleit spretti af andlegu lífi manneskjunnar og birtist í listum, bókmenntum og siðfræði (Sigfinnur Þorleifsson, 2002). Í því samhengi er athyglisvert að lesa bók gríska heimspekingsins Cicero (1982) Um ellina. Hann skrifar um það 44 f.Kr. að grunnurinn að góðri heilsu efri ára sé best lagður með merkingarleit, ekki síst á þroskastigi ellinnar. Á oddinn setur Cicero mikilvægi mælskulistar og tónlistar en staðreyndin er að margir virð­ ast hafa glatað niður frásagnarlistinni. Minningarvinna með öldruðum er viðleitni til að taka upp þráðinn á ný og hefur sannarlega örvað frásagnargleði margra. Rannsókn Synnes (2000) styður mikilvægi hvers konar minning­ arvinnu en í rannsókninni var lagt upp með það að kenna eldri borgurum skapandi skrif. Markmiðið var að fá fólkið til að segja sögu sína, að opna sig. Það kom í ljós að list­ meðferð, list og listsköpun reyndust góð verkfæri til að ná þeim þroska sem lífið býður upp á. Í gegnum skapandi skrif varð til einskonar samþætting fortíðar og nútíðar þar sem unnið var úr erfiðum tilfinningum. Þannig öðluðust þátttakendur ákveðna sátt við sjálfa sig og aðra, fundu sér stað í tilverunni, lífsfyllingu. Sköpunarþráin, lífssagan og afstæð lífsgæði Þegar komið er á eftirlauna aldur verður atvinnan eða starfið ekki lengur í aðalhlutverki og fólk horfir gjarnan til þess að sinna hugðarefnum. Cath (1985) skiptir fólki í þrjá meginhópa. Fámennasti hópurinn eru þeir sem geta átakalaust skipt um áhugasvið og viðfangsefni og snúið sér að nýju verkefni við breyttar aðstæður. Þessi hópur fólks lagar sig einnig auðveldlega að breyttum forsendum á efri árum og nær að lifa ríkulegu lífi á öllum aldurs­ skeiðum. Á hinum vængnum eru þeir sem óttast og kvíða einkennum ellinnar og því sem fylgir lokaskeiði lífsins og ná með engu móti að takast á við breyttar aðstæður. Flestir eru þarna á milli, geta með hjálp og stuðningi bætt lífsgæði sín með því að fá í hendur skapandi verkefni. Í skapandi starfi eldra fólks er rauninn oft á tíðum sú að lífssagan vefst með einhverjum hætti inn í þau verk sem sköpuð eru og til verður einskonar samþætting fortíðar og nútíðar. Zlatin og Nucho (1983) gerðu rannsókn á öldruðum innan og utan stofnunar sem tóku þátt í mynd­ listarmeðferð. Rannsóknin leiddi í ljós að myndefnið var oftast sótt í fortíðina, gjarnan ferðalög eða minnisverða fjöl­ skylduviðburði. Listmeðferðin kallaði fram sterk tengsl við jákvæða sjálfsímynd, betri færni og meiri jákvæðni miðað við sambærilegan hóp sem ekki stundaði listsköpun. Við þurfum að hafa augun opin fyrir því að draumar, vonir og sterkar tilfinningar hverfa ekki þegar vissum aldri er náð en eins og fram hefur komið þarfnast eldra fólk stundum aðstoðar við að ná í, túlka og tjá það sem því liggur á hjarta. Þegar skapandi listamenn eldast og er þá sérstaklega talað um rithöfunda og málara, þá dregur oft úr hæfileka til frjórrar sköpunar. Þeir fara að endurskapa gömul verk, endursemja sögur og mála gamlar myndir. Aldraður tónlistarkennari lýsti þessu með eftirfarandi orðum: „Þegar maður verður eldri þá verður það erfiðara, mann langar til að gera eitthvað en það verður erfiðara einhvern veginn. Manni dettur eitthvað í hug kannski, en líkar ekki við það. [...] Ég geri mikið af því að tína saman gamlar skissur og vita hvort eitthvað er í þeim“ (Tónlistarkennari, einkasam­ skipti, 2004, 18. febrúar). Fyrirbyggjandi og bætandi áhrif tónlistar hafa verið þekkt í gegnum aldirnar en Snyder (1992) telur að upphaf tónlistarmeðferðar sem slíkrar megi rekja allt aftur til Platóns og Aristótelesar 427­322 f.Kr. Vitað er að tónlist sem er bylgjuhreyfing hefur áhrif á ósjálfráða taugakerfið, ónæmiskerfið og hormónakerfið Með þá vitneskju í farteskinu hefur tónlistin verið notuð til slökunar og ýmis konar hugrænnar meðferðar við líkamlegum kvillum. Upplifun tónlistar eins og annarrar listar er mismunandi og fer eftir tíma, stað, menningu, uppeldi og félagslegu samhengi. Geta má þess að á deild fyrir minnisskerta kemur saman tónlistarhópur einu sinni í viku. Þar taka þátt einstaklingar með mikið skert hugarstarf og það er ólýsanlegt að verða vitni að því hvernig tónlistin hreyfir við fólki sem sýnir lítil sem engin viðbrögð við orðum. Það snertir við dýpstu tilfinningum að sjá tár á hvarmi eða bros sem nær út að eyrum. Tónlistin bætir athygli og sem meðferðarform fyrir aldraða er hún einkar hentug íhlutun. Það má með sanni segja að tónlistarmeðferðin bæti lífsgæði þessara minnisskertu einstaklinga. Það að þekkja laglínu, geta sungið og að vera í samveru með öðrum, upplifa samhengi er eitt af því sem tónlistarmeð­ ferðin virðist áorka. Maður verður svo kátur Í gegnum listsköpun er hægt að þjálfa upp og viðhalda líkamlegri færni bæði fín­ og grófhreyfinga. Með dansi og ýmis konar hreyfingu er hægt að auka jafnvægi og/eða viðhalda því sem er til staðar sem er ekki síður mikilvægt fyrir aldraða. Skinner og Nagel (1996) komust að því í tilfellarannsókn að listmeðferð skipti sköpum hjá mynd­ listarmanni sem fékk heilablóðfall og hægri helftarlömun. Listamaðurinn var rétthendur en hann þjálfaði vinstri höndina til þess að geta málað. Verkefni hans var að mála veggmálverk sem krafðist mikils af honum. Hann stóð við að mála og fékk því þjálfun á jafnvægi og þol. Þjálfunin bætti líkamlega færni auk þess sem hún hjálpaði honum til þess að gera sér grein fyrir eigin getu. Fyrir vikið varð hann opnari félagslega og sjálfstraustið jókst. Listir ná ekki einungis að hreyfa við líkamlegum sjúk­ dómum enda er listmeðferð viðurkennd fræðigrein. Það kemur fram hjá Helgu B. Svansdóttur (2002) að með list­ meðferð sé reynt að byggja upp innra öryggi, sterkari sjálfsvitund og stuðla að betri sjálfsstjórn. Dobson (2000) greinir frá miðstöðvum í Bandaríkjunum þar sem tekist er

x

Öldrun

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Öldrun
https://timarit.is/publication/1137

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.