Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 109
109
köllum „dautt efni“.56 Hin leiðin væri í því fólgin að útskýra tengsl á vél-
rænan, en jafnframt gildishlaðinn, hátt. Hlutir og atvik tengjast með þeim
hætti sem þau gera vegna þess að því er best fyrir komið á þann hátt.
Það er þó fleira sem hangir á spýtunni. Markhyggja gengur út frá því
að afleiðingar hafi eitthvert gildi til að bera. Þá vaknar sú spurning hvort
hin góða niðurstaða sé tilfallandi eða ekki. Getur niðurstaðan jafnvel verið
nauðsynleg í einhverjum skilningi, t.d. ákveðnu fyrirbæri eðlislægt en gild-
ishlutinn fullkomlega nauðsynjalaus? Svo virðist sem hvorugt geti verið
fullkomlega nauðsynjalaust.57 Tengsl markhyggju og eðlishyggju eru of
náin til að slíkt gæti gengið upp. Það væri þá helst mannhverf markhyggja
sem gæti viðurkennt nauðsynjaleysi hlutverks eða eiginleika fyrir fyrirbær-
in sjálf, þar sem gildið lægi hvort sem er fyrir utan þau. Enn athyglisverðari
er þó spurningin hvort altæk gildi séu möguleg. Eru eigingildi raunveruleg
eða eru öll gildi aðstöðu- og afstöðubundin? Þegar einhver eiginleiki gerir
lífveru mögulegt að komast af í ákveðnu umhverfi, skiptir þá engu máli
hvers eðlis þessi eiginleiki er, t.d. hvað varðar áhrif á aðrar verur sem deila
tilteknu umhverfi? Er þá náttúran fullkomlega hlutlaus? Svar við þeirri
spurningu hlýtur alltaf að velta á sjónarhorninu, en það er ekki þar með
sagt að markhyggja verði annaðhvort að felast í mannhverfu viðhorfi eða
nýtast síður sem fræðilegt tæki. Einhvers konar millivegur virðist vera
mögulegur sem tekur til markmiða eðlislægra breytinga, sem má útskýra
með vísun til tilgangsorsaka. Það að gildi geti virst óútreiknanleg þýðir
ekki að þau hafi ekkert fræðilegt vægi.
Að lokum þá stendur markhyggja eða fellur með viðbrögðum heim-
spekinga við tveimur spurningum. Viðbrögð við gagnrýni Bacons og
Descartes, sem og við margs konar gagnrýni úr heimsmynd samtímans,
velta á því hvort mögulegt er að koma saman heildstæðri tilgangsmið-
56 Þessari grein er ekki ætlað að leggja fram neinn stuðning við lífsorkukenningar
eða að markhyggja eigi við um einhvers konar anda í efninu. Sumir hlutir eru þó
ekki „organískir“ í þeim skilningi að þeir hafi til að bera náttúrulega einingu og
hreyfingu sem beinist að einhverju, þ.e. einhverju sem er gott í sjálfu sér fyrir hina
náttúrulegu verund. Um þetta efni má lesa hjá Antonio M. Nuziante, „Back to the
Roots: ‘Functions’ and ‘Teleology’ in the Philosophy of Leibniz“, Purposiveness:
Teleology Between Nature and Mind, bls. 9–32, og hjá Predrag Šustar, „The Organism
Concept: Kant’s Methodological Turn“, sama rit, bls. 33–58.
57 Sjá Mark Bedau, „Where is the Good in Teleology?“, Philosophy and Phenomeno-
logical Research 4/1992, bls. 789–791, þar sem hann ræðir hversu nauðsynjalausir
eiginleikar og nauðsynjalaus hlutverk geti verið til þess að vekja fræðilegan áhuga,
í þessu tilviki á sviði markhyggju.
SKYNSEMIN Í NÁTTÚRUNNI – NÁTTÚRULEG SKYNSEMI