Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 136
136
sálir frá Djúpafirði að setja upp innantökusvip og dæsa! Ég þori að
ábyrgjast að langflestir Íslendingar mundu kveina hátt og í hljóði og
leggjast í bælið með hvínandi svipuskaftaspýting og steinsmugu, ef
þeir þættust sjá fyrir endann á stríðinu og þessum uppgripum! (SH
145)
Páll sjálfur er eins sekur og hver annar, ef ekki um að hagnast þá að minnsta
kosti um hjásetu. Hann horfir til dæmis á frú Kamillu græða og stela frá
hernum án þess að segja eitt einasta orð; hann afsakar afstöðu föður síns,
sem er í Bretavinnu og vill hafa herinn áfram til að græða á honum, sem
afleiðingu niðurlægingar og eymdar; og þótt hann beri glæpasögurnar,
sem hann þýðir fólki til afþreyingar, saman við frásagnir um helförina
hættir hann ekki þýðingastarfi sínu.
Jafnvel þó að sögumaður, Páll eldri, virðist vera ófær um að láta sögu-
persónuna, Pál yngri, viðurkenna þetta beinlínis, vekja endurminningar
hans athygli á þessari siðferðilegu kreppu með því að hafa sektarkenndina
eitt aðalstefið í verkinu. En þráhyggja Páls kemur líka fram í formi endur-
minninganna, ekki síst í þeim hlutum þar sem sögumaður ávarpar lesand-
ann. Þótt þríleikurinn allur sé staglkenndur þá einkennast þessir kaflar
hvað mest af endalausum endurtekningum: Páll yngri spyr sí og æ hver
hann er og hvert hlutverk hans sé í lífinu á meðan Páll eldri veltir enda-
laust fyrir sér af hverju hann sé að rifja þetta allt upp: „Enn hef ég sóað
dýrmætum kvöldum, hringsólað um dulinn kjarna …“ (SH 179). Hann
spyr og spyr, en forðast að koma sér að kjarna málsins. Kuhn bendir á að
endurtekningar í minnistextum, alveg eins og eyður og úrfellingar, séu
tákn um minnistruflanir. Með svipuðum hætti kallar Terdiman hugsjúka
endurtekningu á persónulegri sögu „dökka hlið minnisins“, tákn um það
þegar tíminn fer aftur á bak.44 Páll yngri þjáist en gerir ekkert. Páll eldri
spyr en svarar ekki. Lesandinn situr enn og aftur uppi með eyðu.
Upphaf að lokum
Nær sögumaður svo markmiði sínu? Í lok sögunnar hefur Páll fundið
föður sinn og hitt lífsförunaut sem síðar verður kona hans. Hann hefur
líka rofið þögn sína og hlutleysi með því að neita að skrifa undir grein sem
Valþór, ritstjóri Blysfara, hefur ritað aðild Íslands að NATO til stuðnings,
44 Present Past, bls. 101.
dAiSy NeijmANN