Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 37
37
GEST BER AÐ GARÐI
Hægan að mér svefninn sótti,
svipta tók mig dug og þrótti;
dauft þá heyrast hljóð mér þótti,
hurðu mína einhver snart.
„Einhver gestur úti“ sagði’ eg.
„Einhver létt við hurðu snart.
Annað meira mun það vart.“
Líkt og þeir Matthías og Sigurjón, rímar Helgi hér saman þrjár fyrstu lín-
urnar og það gerir hann í flestum erindum sínum, en þó ekki alstaðar með
alrími; til dæmis hálfrímar hann „stefin“ á móti „rofin“ og „ofin“ í ellefta
erindi. Fimmta, sjötta og sjöunda lína ríma saman, en á því eru þó einnig
undantekningar, t.d. í fimmta erindi, þar sem nafnið „Leónóra“ fylgir sem
hálfrím á eftir „meira“ og „heyra“. Mest frávik sýnir Helgi þó þegar kemur
að ríminu í fjórðu, áttundu, tíundu og elleftu línu; þótt hann rími þær
saman í hverju erindi, notar hann ekki leiðarrím í gegnum allt kvæðið. Um
það verður nánar rætt síðar í greininni.
Guðað á glugga
Eins og áður sagði er gerð Helga sjöunda íslenska þýðingin á „Hrafninum“
sem birtist á prenti, eftir því sem næst verður komist. Ljóst er að kvæði Poes
hefur markað spor í skáldskaparvitund Íslendinga. Ætla verður að það hafi
verið lesið af mörgum, bæði í frumgerð og þýðingu, og vafalaust hafa ýmsir
fleiri reynt að þýða það á íslensku, þótt þær gerðir hafi ekki ratað á prent.
Það er ekki áhlaupsverk að frumyrkja kvæði sem þetta, hvað þá að vinna
með formgerðarþætti þess í þýðingu: bragformið og rímið, jafnframt því að
koma til skila efnislegum meginatriðum og samhæfa þau forminu. Þar að
auki láta allir þýðendurnir íslenska textann lúta reglum ljóðstafa. Það eykur
hrynjandi kvæðisins sem er þó ærin fyrir í frumtextanum.
Íslensku þýðendunum farnast misvel við að endurskapa merkingu orða
og ljóðmyndir frumtextans, þótt í öllum þýðingunum megi sjá dæmi um
lausnir sem eru í senn snjallar og skáldlegar. Eins og vænta má, valda rím
og ljóðstafir því stundum að efnisatriði í þýðingunum eru ekki alltaf í sömu
röð og í frumtextanum. Miklu skiptir, að sjálfsögðu, að inntakið komist
til skila þó að efnisatriði frumtextans séu ekki í nákvæmlega samsvarandi
línum í þýðingunum. Jafnframt er ljóst að inntak kvæðisins er ekki föst
stærð heldur háð túlkun hverju sinni.